12. nóvember 2008

Kjósa hvað ?

Nú vilja menn kosningar og verið er að safna undirskriftum kjósenda því til stuðnings, og nú þegar hafa milli fjögur og fimm þúsund manns skráð nöfn sín á listann.

Hvað gerist ef við kjósum strax ? Ég held að það muni verða afar litlar breytingar, það verða sömu flokkar í framboði, sama fólkið verður á listunum, valið af sama fólkinu, að vísu kann að vera að þingmannafjöldi flokkanna breytist eitthvað ofurlítið, hugsanlega fækkar Sjálfstæðismönnum og öðrum fjölgar í staðinn, en hverju breytir það ? Flestir sem nú sitja á þingi hafa fengið sín tækifæri og við erum að fást við afleiðingarnar núna. Kosningar strax munu gefa okkur sömu niðurstöðu aftur, og er það eitthvað sem við viljum ?

Hafi einhverntímann verið tækifæri til að gera raunverulegar breytingar á kerfinu, þá er það núna, hvers vegna ekki að safna liði, búa til nýja hreyfingu almennings í landinu, kalla nýtt fólk til verka, fólk með hugmyndir, fólk með samvisku, fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að byggja upp gott samfélag, fólk sem er tilbúið til að breyta rotnu kerfi, fólk sem er til í að vinna fyrir okkur.

Ég get bara, engan veginn séð að það muni breyta nokkru að kjósa núna sama fólkið og er þegar á þingi, þá getum við alveg eins sparað okkur vesenið og kostnaðinn við að kjósa og látið þetta bara eiga sig eins og það er. Tökum okkur tíma til að skipuleggja aðgerðir, það er nóg til af fólki sem hefur áhuga, getu og hæfileika til að taka að sér verkefnið, forðumst bara, fyrir alla muni, að velja gamla útbrunna pólítíkusa og aðra eiginhagsmunaseggi. Kjósum þegar við erum tilbúin í slaginn.
Síðan er hægt að byrja að byggja upp samfélag fyrir okkur, fólkið í landinu, fólkið sem þarf alltaf að borga að lokum, hætta að hlaða undir rassgatið á einkavinaklíkunni, sem hefur gegn um tíðina komist upp með að hirða gróðann og láta aðra borga tapið.

Nú er tækifæri til að gera loksins eitthvað af viti. Notum það.

Ólafur Ragnar Hilmarsson

Engin ummæli: