12. nóvember 2008

Mótmælaspuni


Spuni Rúv er sá að draga upp mynd af ofbeldi og ólátum og forðast með því að fjalla um sjálft efni fundarins.

Símon Birgisson


Orðið spuni er orðið næstum jafnmerkingarlaust og útrásarvíkingur á síðustu vikum. Innblásnir af McCarthyisma benda menn á útrásarvíkinga í öðru hverju horni og spunameistara í hinu.


Af hverju var umfjöllun fjölmiðla um mótmælafundinn síðasta laugardag að mestu helguð eggjakasti og stympingum? Viðurstyggilegt samsæri fjölmiðla — eða kannski mögulega sú staðreynd að efni fundarins var ekki fréttnæmara en þetta?


Eins og áður hefur verið minnst á á þessari síðu er ekkert sem sameinar mótmælendur annað en líkt skap. Það er jafnfréttnæmt og fólksfjöldi í Kringlunni fyrir jól. Þar eru allir í jólagjafahugleiðingum, en fáir að kaupa það sama. Á Austurvelli eru allir reiðir, en enginn út í það sama. Einhver vill kosningar, annar ekki. Þessir vilja ganga í ESB, hinir vilja ekki heyra á það minnst. Hörður vill friðsamleg mótmæli, Aggi anarkisti vill kasta eggjum. Einsi rithöfundur vill svo að fólk þegi meðan hann les staf fyrir staf greinina sína sem hann fékk birta í Morgunblaðinu sama dag.


Það er fullkomlega eðlilegt að fjölmiðlar dragi í kjölfarið upp þessa mynd; þegar reiði er það eina sem mótmælafundur snýst um er birtingarmynd þeirrar reiði auðvitað fréttaefnið sem lagt er upp með. Ekki endursagnir á misgáfulegum og -viðeigandi ræðum sem eru að upplagi endurunnið efni úr fyrri mótmælum eða blaðagreinum.


Svo er auðvitað líka fréttnæmt þegar mótmælendur ákveða að mannlaust hús löggjafarvaldsins sé verðugasta skotmark eggja og jógúrts.

Engin ummæli: