Það er aldeilis traustvekjandi að hlusta á framámenn í ríkisstjórnarflokkunum núna, Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra, náungi sem varla telst alveg valdalaus í Sjálfstæðisflokknum, segir að það sé engum öðrum en Sjálfstæðisflokknum treystandi fyrir því að leiða þjóðina út úr þeim fjármálavanda sem við erum í núna. Hverskonar andskotans bull er þetta ? Voru það ekki þeir sem leiddu okkur hingað ?
Ingibjörg Sólrún, segir að nú sé eina vitið að drífa okkur í Evrópusambandið, það sé tilgangslaust að senda menn út á einhverjum bátskeljum til að sækja fisk, það hafi nú komið okkur í vanda áður, hvað á hún eiginlega við ? Ég reikna reyndar með að þetta sé hugsað sem einhver samlíking hjá henni. En verðum við ekki að afla okkur tekna ? Hafa ekki fiskveiðar einmitt haldið í okkur lífinu gegnum tíðina ? Er ekki einmitt málið núna að reyna með öllum ráðum að auka tekjurnar, borga skuldirnar og koma okkur á lappirnar aftur ? Hún gerir eflaust ráð fyrir að Evrópusambandið bíði spennt eftir að geta fengið að draga okkur uppúr skítnum og dusta af okkur. Ég tel mikinn ábyrgðarhlut að reyna að telja okkur trú um að innganga í Evrópusambandið leysi allan okkar vanda. Ég vek athygli á að Ingibjörg Sólrún er formaður Samfylkingarinnar og auk þess Utanríkisráðherra þjóðarinnar, hún heldur að lausnin sé fólgin í því að láta einhveja aðra glíma við vandann, ef það er rétt skilið hjá mér, nú þá á hún bara að drullast í burtu fyrst hún er ekki starfi sínu vaxin, en ekki fara skríðandi fyrir okkar hönd til „vina“ okkar í Evrópu. Vorum við eitthvað að biðja um það ? allavega, ekki ég.
Nei það er ekki traustvekjandi að fylgjast með Ríkisstjórninni fást við ástandið, og aðgerðir hennar ekki til þess fallnar að auka bjartsýni, allt eitthvað yfirklór og skítareddingar. Hvernig væri nú að leita til aðila sem hafa eitthvað vit á því sem verið er að fást við, bæði í fjármálaheiminum og í samskiptum við aðrar þjóðir ? Það þarf sérfræðinga til að reyna að fá sem allra mest fyrir eignir okkar (þ.e. bankanna og annara fyrirtækja) það þarf sérfræðinga til að tala okkar máli meðal annara þjóða. Þeir sem nú eru að brasa í þessu þ.e. Ríkisstjórn Íslands, hefur einfaldlega ekkert vit á því sem hún er að reyna, það er bara hver skítareddingin á fætur annari, og í sumum tilvikum gera þeir illt verra. Hvað er athugavert við að leita til sérfræðinga um aðstoð ? Fáum í lið með okkur bestu sérfræðinga sem völ er á, og gerum allt sem mögulegt er til að koma eins vel út úr þessu og hægt er. Varla förum við á bílaverkstæði (með fullri virðingu fyrir þeim) ef við eigum við veikindi að stríða, eða hvað ? Nei er þá ekki betra að hafa samband t.d. við lækni ?
Að lokum vil ég benda fólki á að hugsa jákvætt og vera bjartsýnt, það erum bara við sjálf sem getum ráðið því hvernig okkur líður, og hve mikil áhrif við látum ástandið hafa á okkur. Ég átta mig á að þetta verður erfitt fjárhagslega, en þótt ótrúlegt megi virðast, þá eru peningar ekki allt.
Ég segi eins og „maðurinn“ sagði: Hjá mér eru engin peningavandamál, það er þetta peningaleysi sem er smá vandamál.
Ólafur Ragnar Hilmarsson.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli