12. október 2008

Neyðarlög


Ætli almennan breskan borgara hefði grunað fyrir 7 árum að lög sem sett voru undir yfirskini hryðjuverkaógnar yrðu seinna notuð sem vopn í milliríkjadeilu við vinveitt ríki? Til að frysta eigur og knésetja fjármálafyrirtæki?


Hið ógnvænlega við lögin er ekki að þeim sé beitt núna. Hið ógnvænlega er að það skuli vera hægt að beita þeim núna og í þessum tilgangi. Það er nefnilega ekki verið að misnota þau á neinn hátt, heldur notfæra víðtækar lagaheimildir sem þau hafa í för með sér.


Hættan við að hraða lagafrumvörpum í gegnum og framhjá eðlilegum leiðum í skjóli neyðarástands eða „sérstakra og óvenjulegra aðstæðna” hlýtur að kristallast í aðgerðum Breta. Hættan á að mannréttindi hvers konar séu fótum troðin og langtímahugsjónum sé fórnað fyrir skammtímahagnað.


Mannréttindi eru yfirleitt fyrsta fórnarlamb erfiðra aðstæðna. Og samskiptin við bresk yfirvöld síðustu daga ættu að sannfæra okkur um að sú hætta sé raunveruleg.


En í staðinn önum við áfram, fullviljug til að gera sömu mistök í eigin samfélagi. Froðufellandi fólk með heykvíslar fer fram á tafarlausa upptöku eigna þeirra sem það hefur stimplað sem sökudólga — skítt með hvort þeir hafa eitthvað til saka unnið. Við komumst að því seinna. Neyðarástandið kallar barasta á þetta!


Og við fussum yfir því að feministar skuli vilja að jafnréttislög séu áfram höfð til hliðsjónar þegar og ef einhvers konar enduruppbygging fer fram. Það er fullgild athugasemd. Reyndar þröngsýn, því það er margt fleira í hættu en kynjasjónarmið eða jafnvel jafnréttissjónarmið almennt. Það eru mannréttindi. Grunngildi og réttlæti. Hvar eru samskonar ályktanir frá öðrum félögum eða áhyggjufullum mannréttindasinnum?


Nei, nú er ekki greinilega rétti tíminn til að hafa áhyggjur af slíku. Nú er rétti tíminn til að fá útrás fyrir blóðþorstann með því að refsa nokkrum auðmönnum án dóms og laga — eða helst með nýjum lögum sem heimila það. Það bætir allt.


Þangað til við verðum svo sjálf fyrir barðinu á því.

Engin ummæli: