Fór óvænt á general-prufu á Hart í bak í kvöld.
Þvílík sýning! Þótt ég hafi séð hana að mér finnst nýlega fyrir norðan var upplifunin ógnarsterk og allt önnur. Tímasetningin gull. Ég held leikritið sé frá '62 en það smellpassar fyrir þjóðina í dag.
Gamall, blindur skipstjóri situr einn og afræktur í greni undir samviskuoki þess að hafa siglt fyrsta og eina glæsifleyi þjóðar sinnar í strand hálfri öld fyrr. Skipi sem þjóðin átti öll saman. Skipi sem börn keyptu nagla í og gengið var sveit úr sveit, mann frá manni, til að selja hlutabréf í.
Dóttir hans, sem einu sinni var glæstasta skipstjóradóttirin, glæsileg, greind, falleg og frjálsleg er nú í raun ekkert annað en vændiskona sem liggur undir ríkum subbupela peninganna vegna og nær öllum öðrum ánægjunnar vegna.
Afabarnið hefur hröklast úr vinnu og skóla enda ætíð undir skugga ættarbölvunarinnar. Hann flosnar upp úr skóla og vinnu og nýtur einskis trausts nema hjá einum gömlum kennara sem tilbúinn er að fórna ævisparnaði sínum fyrir metnað stráksa þegar allar aðrar lánastofnanir hafa dæmt hann ómark.
Leikritið endar á von. Langsóttri von en von engu að síður. En vonin er aðeins fyrir soninn og stelpuna sem hann elskar.
Mamma hans gefur líf sitt upp á bátinn til að verða pelsklædd mella. Afi er sendur á stað sem hann talar um af meiri kulda en sína eigin gröf, elliheimilið. Hreysið er rifið. Upp rís hálfkláruð blokkabyggð. Yfir henni vaka kranar.
Það magnaða við verkið er að við erum að lifa þetta. Og það sem er magnaðast af öllu er að þjóðin getur verið hver sem er af þessum persónum.
Hver verður yfirsterkust er undir okkur komið.
Það þurfa allir að sjá þetta verk nákvæmlega núna. Þetta er það sem leikhús snýst um.
Uppfært: Þórir Sæmundsson fer gjörsamlega á kostum. Frammistaða hans ein og sér réttlætir ferðina. Aðrir voru síðri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli