2. október 2008

Meiri kreppa

Glitnir, hvar er allur hagnaður síðustu ára ? Samkvæmt ársreikningum og fréttum síðustu ára var gríðarlegur hagnaður af rekstri Glitnis, ár eftir ár. Hvar eru þeir peningar núna ? Varla hafa stjórnendur og eigendur bankans mjólkað það allt út jafnóðum, eða hvað ? Getur það virkilega verið ? Ég trúi varla að þessir snillingar hafi eytt öllu strax, og ekki gert ráð fyrir að staðan gæti hugsanlega átt eftir að breytast einhverntíma.

Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að þessir náungar sem stjórna bankanum, hugsi eitthvað fram í tímann, þetta eru náttúrulega bara gaurar sem eru með í mesta lagi 10-20 milljónir á mánuði í laun ásamt ýmsum öðrum hlunnindum, sem of langt mál er að telja upp hér. Og auðvitað getum við ekki gert kröfu um að, þeir séu eitthvað að spá í að ástandið gæti hugsanlega versnað eitthvað, einhverntíma, þetta hefur allt gengið svo glimrandi vel til þessa, þeir hafa flestir getað keypt sér hús á nokkra tugi milljóna sem hefur síðan verið hægt að rífa, til að geta byggt nýtt aðeins hentugra, svo hafa þeir náð að ferðast aðeins, og jafnvel kaupa sumarhús, eða jarðir hér og þar, þeir hafa meira að segja, sumir, getað keypt sér nýja bíla og hvað eina.

Eigendur bankans, auðvitað sárvorkenni ég þeim, (nú verð ég að stoppa aðeins og þerra augun) þeir hafa tapað rosalega mörgum milljörðum núna á stuttum tíma, en svo velti ég fyrir mér, á hvað keyptu þeir bankann á sínum tíma ? og hvað eru þeir búnir að fá í arðgreiðslur af honum síðustu ár ? Leggjum saman allt sem þeir hafa fengið í hagnað, drögum síðan frá það sem þeir hafa tapað, hvað kemur út úr því dæmi ? Ég veit það ekki sjálfur, en eflaust getur einhver fundið út úr því. Svo eru það allir þessir sem eiga einhverja smáhluti í bankanum, hver bað þá að leggja sparifé sitt í hlutabréf ? Ég held að það sé aðallega von um hagnað, og það er ágætt, en þeir sem taka þá ákvörðun að leggja fé (ég tala nú ekki um sparifé sitt, eða taka lán til þess) í hlutabréfakaup, þeir hljóta að gera sér grein fyrir því að þessu fylgir áhætta, stundum græða menn og stundum ekki. Þeir væla ekkert mjög mikið á meðan þeir græða, en fara allir að grenja ef þeir tapa einhverju. Hvers vegna í andskotanum lögðu þeir ekki bara peningana sína á reikning ? Það er nefnilega nokkuð öruggt, en að vísu ekki eins mikil von um hagnað.

Nei, ég vorkenni þessu liði akkurat ekki neitt, það var enginn sem neyddi þá til neins, ég hef hins vegar meiri áhyggjur af öllum hinum, sem eiga ekki neina banka eða fjárfestingarfélög eða eitthvað annað, það verður nefnilega alveg örugglega þannig, eina ferðina enn, að við aumingjarnir, borgum allt helvítis ruglið fyrir rest. Það er alveg sama hvað það verður kallað, þjóðarsátt, eða eitthvað annað, við borgum bara. Og svo verða það sömu snillingarnir sem ákveða hve mikið við borgum.
Þetta er dásamlegt helvítis system.

Ólafur Ragnar Hilmarsson.

Engin ummæli: