8. október 2008

Þess vegna erum við í djúpum skít,

Þegar mikið býr undir treystir enginn alfrjálsum markaði til að finna ásættanlegt jafnvægi. Þess vegna er kvótakerfi í fiskveiðum. Ef ekkert kvótakerfi væri segir hagfræðikenningin að eftirfarandi gerist:

Ef afli er takmarkaður með sóknarmarki mun útgerðarmaðurinn ekki geta notið ágóðans af veiðunum nema í takmörkuðu magni. Ástæðan er sú að einhver annar útgerðarmaður gæti verið að nota aurinn til að setja stærri vél í bátinn eða kaupa öflugri veiðarfæri. Allir útgerðarmenn setja því allan kraft í vöxt og þá vill þjóðhagsleg og önnur hagkvæmni gleymast.

Þessi eldgamla kenning skýrir einkennilega vel það sem virðist hafa gengið á í fjármálaheiminum. Vöxtur er það eina sem menn hafa hugsað um. Allir nema getulausir afdalabændur sem nú er hampað sem hetjum. Menn höfðu ekki efni á öðru en að keppa.

Fall fjármálaheima hefur sáralítið með hagfræði að gera. Þar er það sálfræðin sem klikkaði. Sálfræðin fjármálamannsins er fiskifræði skipstjórans. Án hennar vantar grunninn.

Bankamennirnir gerðu ekkert rangt. Sökin er ekki þeirra. Sökin er miklu fremur stjórnvalda sem settu ekki þær hömlur sem þarf til að reiknað væri með öðrum hagsmunum en vexti.

En þar var hið sama uppi á teningnum. Íslensk stjórnvöld létu ginna sig út í frelsiskapphlaup.

Þau gátu ekki annað en hlaupið með.

Þau gerðu rétt.

Þau mörk sem þurfti eru alþjóðleg. Þau hefðu aldrei verið sett án þeirrar reynslu sem nú er fengin.

Þetta hlaut allt að gerast.

Hitt er svo annað mál að við svona áföll kemur manndómur berlega í ljós í ótal smásögum, sem þó skipta hverfandi máli í raunverulegu samhengi hlutanna.

Engin ummæli: