7. október 2008

Dásamlegt

Þetta er nú aldeilis stókostlegur dagur, hamingjan lekur af öllu, hvert sem litið er. Bensínverðið lækkaði um svona, tíu krónur eða svo, krónan, (þ.e. gjaldmiðillinn, ekki búðin) hækkaði, bankarnir eru opnir upp á gátt, flestir virðast hafa í nógu að snúast, meira að segja alþingismenn eru mjög uppteknir, við störf, aldrei þessu vant, og til að toppa allt þetta þá er sólin farin að skína líka. Er ástæða til annars en að vera bjartsýnn þegar lífið leikur svona við okkur ?

Undanfarnar vikur hefur allt verið á niðurleið, allir þungbúnir á svip með tárvot augu, enginn talað um neitt annað en kreppu, gjaldþrot, tap og svartnætti. Nú er heldur betur að rofa til, og svona ljómandi gott útlit hjá okkur, Rússar geta varla beðið eftir að fá að lána okkur peninga, norðmenn í startholunum með aðstoð til okkar, allir spenntir að fá tækifæri til að aðstoða.

Ætli strákarnir í bönkunum fari ekki að hengja upp jakkafötin sín, og finna sér eitthvað nýtt til að dunda við, kannski golf eða eitthvað svoleiðis, allavega ættu þeir ekki að vera í neinum peningavandræðum, eftir að hafa fyllt alla sína vasa af peningum í „góðærinu“, við hin ættum að minnta kosti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þeim, og af hverju ættum við svosem að hafa áhyggjur ? Þetta er allt saman tóm helvítis hamingja núna.

Það eina sem kannski gæti valdið áhyggjum núna, er að það eru ennþá sömu mennirnir í Seðlabankanum og það er ennþá sama Ríkisstjórnin, en hvers vegna að hafa áhyggjur af því ? Þeir vita nú líklega hvað þeir eru að gera. Þetta er bara frábært og ekkert annað.

Ef ekki er hægt að brosa og njóta lífsins núna, ja þá er það hreinlega aldrei hægt.
Góðar stundir.

Ólafur Ragnar Hilmarsson.

Engin ummæli: