24. september 2008

Kreppan

Kreppan er skollin á, eða svo er sagt, kreppan hjá mér felst í því að síðan í upphafi árs hafa launin ekkert hækkað, en matvöruverð, og reyndar nánast allt annað en launin, hefur hækkað um amk. 20%, sem þýðir, að núna þarf ég að eyða 20% meiri peningum, heldur en í janúar, í mat og aðrar nauðsynjar, það er auðvitað helvíti skítt, því ég á þá minna eftir af laununum til að eyða í vitleysu, og það er einmitt það sem gefur lífinu lit að eyða í einhverja vitleysu, ég hef t.d. farið öðru hvoru út að borða, út að skemmta mér, á tónleika, í ferðalög og gert eitt og annað sem að sjálfsögðu er ekkert annað en tóm vitleysa.

Nú er enginn að gera neitt í því að laga þetta fyrir mig, ríkisstjórnin er ekki að gera neitt, að vísu tókst, sem betur fer, að hækka launin þeirra aðeins þannig að þeir ættu að geta haldið áfram að eyða álíka miklu í vitleysu eftir sem áður, en við hin verðum sennilega að sætta okkur við að draga úr vitleysunni.

Nú vinn ég að því að finna leiðir til að geta haldið áfram að leika mér álíka mikið og áður, fyrir 20% minni pening, en það er ekki alveg nóg, því það er ekki nóg með að nú hef ég 20% minna til að bruðla með, heldur er annað verra, kostnaðurinn við alla vitleysuna sem ég hef stundað, hefur auðvitað líka hækkað um amk. 20%, þannig að nú verð ég eiginlega að finna út hvernig ég get gert sömu hluti og áður fyrir 40% lægra verð, ég auglýsi hér með eftir hugmyndum sem gætu komið að gagni í þessum alvarlega vanda.

Ég hef að sjálfsögðu velt fyrir mér ýmsum leiðum og sumt af því sem mér hefur dottið í hug er t.d. að: Ferðast eingöngu innanbæjar, það sparar heilmikið í ferðakostnað, og hægt að gista heima.

Fara út að borða; auðvitað Bæjarins bestu, þá fer maður sko „ÚT“ að borða.
Tónleikar, vera bara fyrir utan húsin, það heyrist alltaf eitthvað út, og hægt að taka með sér drykki að heiman, gott að vera nokkur saman, það skapar meiri stemmningu.

Út að skemmta sér, fara eingöngu á staði sem er frítt inná, þamba áfengi áður en maður mætir á staðinn, koma seint og fara snemma, þá þarf ekki að kaupa marga drykki á staðnum.

Ég stóla á að fólk skjóti að mér hugmyndum sem gætu gert mér lífið ánægjulegra án mikils tilkostnaðar, þær gætu jafnvel komið fleirum til góða.

Ólafur Ragnar Hilmarsson.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú sparar allt að 50% í leigubílakostnað eftir djamm, ef þú tekur bara leigubíl hálfa leiðina, og gengur restina. Það minnkar einnig verulega líkurnar á þynnku daginn eftir.
Þjóðráð sem ég legg til að sem flestir nýti sér.

kv, Bóla

Nafnlaus sagði...

Hérna er minn útreikningur á þessu:
Segjum að þú fáir 300 þúsund á mánuði eftir skatt og varst með 200 í föst útgjöld í janúar. Þá hafðirðu 100 eftir í vitleysu. Nú eru föst útgjöld orðin 240 og því 60 eftir í vitleysu. En þar sem 60 í dag er eins og 50 í janúar hefurðu núna aðeins helminginn af því sem þú hafðir í janúar til að eyða í vitleysu. Ég mæli með að byrja að stela. Stela bara sem mestu frá þeim sem eiga það skilið og jafna þetta út þannig.

Keðja,
Árni