24. september 2008

Seyðandi svimi


Einhverntíma milli tektar og tvítugs ákvað ég að ég skyldi aldrei drekka áfengi. Fyrir því voru engar hádramatískar ástæður. Almenn þrjóska í bland við útreiknandi skynsemi. Síðan hef ég staðið við það heit.

Síðan í fyrrakvöld hefur náttúran ákveðið að gera mig staðfastari í viðleitni minni með því að leyfa mér að njóta þess versta sem áfengið hefur upp á að bjóða, svima.

Ég fékk helvítis pestina sem gekk hér á dögunum og svaf þarsíðustu helgi. Eftir það braggaðist ég nokkuð hratt, miklu hraðar en fólkið í kringum mig. Þegar ég var orðinn góður fékk ég að vísu smá hósta, hálsbólgu og einhvern skít í afholur haussins - en það er smotterí.

Það er svo þegar ég er við það að kasta mér í sæng í fyrrakvöld að ég finn nettan svima. Ekkert rosalegan svo sem, en greinilegan. Um nóttina vakna ég svo og finn eins og ég snúist heilan hring á dýnunni. Ég hafði tvo ályktunarkosti. Ég bý á efstu hæð í efsta hverfi borgarinnar svo það væri vissulega mjög praktískt fyrir geimverur að ræna mér. Eða ég gæti verið að deyja.

Nú var að duga eða drepast. Herpa saman rassinn eða kveðja þetta líf. Ég ákvað það síðarnefnda. Þarna lá ég í myrkrinu og fann heiminn hverfast um miðpunkt sinn, mig, og ég sagði bless.

En þá lagaðist sviminn. Og kom ekki aftur fyrr en ég rauk á fætur tveim tímum seinna. Þá reis ég upp við dogg og herbergið hélt áfram að hreyfast eftir að nam staðar. Svo lagaðist það aftur þegar ég var kominn á fætur.

Í vinnunni í gær hreyfðist heimurinn alltaf af og til. Ekkert mikið en nógu mikið til að valda mér töluverðum pirringi. Eftir vinnu tók sviminn sig til og kastaði mér utan í vegg þegar ég ætlaði að svara í dyrasíma.

Fljótlega eftir það ákvað ég að tala við lækni. Fór á læknavaktina og beið það góða stund uns ég hitti ljómandi almennilegan heimilislækni. Hann skoðaði mig í krók og kring og sagði mér síðan að til væri eitthvað sem kallaðist góðkynja, tímabundin jafnvægisröskun.

En ég hefði hana líklega ekki. Til þess væru einkennin of væg.

Í raun hafði hann enga hugmynd um hvað þetta væri en taldi að þetta væri einhverj hjáverkun af flensuskítnum eða kvefinu sem hafði verið að hrjá mig dagana á undan.

Ég þyrfti samt ekki að hafa áhyggjur, þetta væri líklega ekkert alvarlegt. Ég skyldi taka því rólega í dag og sjá hvernig gengi.

Í nótt vaknaði ég í hvert skipti sem ég snéri mér á hinn vangann (og ég sný mér oft) við það að ég hélt áfram að hreyfast. Í morgun fór ég á fætur og íbúðin flaug um í sjónsviðinu og ég er ekki frá því að það sé byrjað lágvært suð í hægra eyranu (sem var ekki þar í gær). Er þó ekki viss, gæti verið mótorinn í fartölvunni.

Nú ligg ég, fullfrískur maðurinn, fyrir og reyni að snúa hausnum ekki. Gýt augunum hingað og þangað ef eitthvað álpast inn í sjónsviðið og vorkenni mér óskaplega. Þegar ég neyðist til að ganga ramba ég um eins og augadrukkinn. Og það án skemmtunarinnar við það að vera fullur.

Það hittist þannig á að á morgun og fram yfir helgi þarf ég að sinna verkefnum sem of seint er að fela öðrum. Ég mun því rjúka um allan bæ á fullum snúningi. Ég hlakka mikið til.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HAhahaha..... ókei.. ég skal biðja Gyðu að hætta að mylja Morfínduftið ofan í morgunmatinn þinn..haha.. mér fannst það bara svo helvíti fyndið, þegar mér datt það í hug.

kv, Bóla

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur komið fyrir mig, eftir margra ára edrúmennsku, árið 1998. Á endanum var fundið út að kalkkorn hefði losnað og villst inn í völundarhús eyrans. Völundarhúsið er jafnvægismælir en þolir ekki aukagroms í sitt seigfljótandi efni. Í mínu tilviki var þetta aðallega öðrum megin, ég gat ekki snúið höfðinu í þá átt því þá hringsnerist allt fyrir mér og ég datt á sléttu gólfi. Ég myndi lýsa þessu sem verulega slæmri sjóveiki margfaldaðri.

Sá sem vissi þá mest um svona villuráfandi kalkkorn og virkni völundarhúss var Hannes Petersen, læknir á Borgarspítalanum. Ég fór á sínum tíma til Sigurðar ? sonar sem var með stofu í Glæsibæ, samstarfsmanns Hannesar. Á Borgarspítalanum er til einhver græja til að hrista kornið til baka en ég afþakkaði pent eftir að hafa orðið fárveik af heimsókninni til Sigurðar.

Óyggjandi sönnun þess að um kalkornsfjandann sé að ræða er þegar sjúklingur skellir sér á vondu hliðina / í vondu áttina. Þá rúlla augun til hliðar á mjög áberandi hátt. (Því miður veit ég ekki hvernig þetta á að líta út því ég var sjálf sjúklingurinn. Þú gætir reynt að fá t.d. konuna til að horfa á þig leggjast á vondu hliðina og gá hvort augun hringsóla). Í mínu tilviki tók svimann um 6 mánuði að ganga til baka.