13. september 2008

Frelsi fjölmiðla

Blaðamannafélagið greip á lofti andúð Egils Helgasonar á bloggfærslu séra Svavars um Dr. Markús.

Blogg Egils um málið er vont. Upphaflegt blogg Svavars er dálítið óskýrt. Bestu skrifin eru hjá Guðbjörgu Kolbeins.

Egill gefur í skyn að koma Markúsar sé nemendum til ógagns – og að þeir ættu að finna sér annan skóla. Nokkuð sem Egill hlýtur að sjá eftir að hafa sagt, því fullyrðingin er ekki aðeins ósamboðin honum heldur heimskuleg. „Reyndur“ fjölmiðlamaður getur ekki sagt að fjölmiðlanám sé til óþurftar þegar sama nám gefur honum tilefni til heilmikilla vangaveltna og umræðna. Háskóli má ekki vera innrætingarstofnun. Hann er deigla. Egill kastaði sínum kolum í deiglu HA. Betri meðmæli eru ekki til.

Eftir stendur hvort Markús hafi haft rétt fyrir sér.

Mér sýnist á öllu að Egill hafi hvorki skilið Markús né reynt að skilja hann. Hann nálgast Markús eins og stjórnmálamann og skautar yfir röksemdirnar.

Markús bendir á að frelsi sé ekki markmið í sjálfu sér. Það er auðvitað rétt. Ef hver sem er fengi að keyra hvar sem er eða byggja hvað sem er þá væri frelsi fólks farið fyrir lítið. Stundum eru frelsishöft líklegri til að auka frelsi allra. Og stundum eru höft líkleg til að auka hamingju allra. Sá sem vill undantekningalaust velja frelsið frekar en hamingju á nær ókleifan rökmúr fyrir höndum.

Markús bendir líka á að engin röknauðsyn leiði til þess að menn verði að líta svo á að múhameðsteikningarnar snúist um frelsi. Andstæðingurinn í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ og þeir sem samúð hafa með honum geti vel litið á þær sem stríðsáróður.

Slíkan áróður hefur verið að finna alls staðar þar sem menn takast á. Hann er í miklum mæli stundaður í BNA um þessar mundir. Efsta myndbandið á Google Video hefur snúist um Palin, Biden, McCain og Obama um langa hríð. Og þau myndbönd hafa ekkert að gera með frelsi. Þau eru áróður frá upphafi til enda eða verða áróður í meðförum, t.d. í kommentum.

Rök Markúsar halda. Þau eru skynsamleg. Danir voru á þessum tíma þátttakendur í stríði. Í stríði er alltaf óvinur. Og það eru alltaf einhverjir sem ekki eru óvinir en styðja frekar málstað óvinar þíns. Þeir voru í fullum rétti í túlkun sinni á myndunum.

Háskólinn á Akureyri á hrós skilið fyrir innleggið. Þetta er nákvæmlega það sem fjölmiðlungar þurfa. Blaðamenn á Íslandi skortir oft heimspekilega dýpt. Eins og dæmin sanna standa þeir síður en svo klárir á ýmsum grundvallaratriðum, t.d. hvað varðar að taka afstöðu eða sviðsetja fréttir.

Markús á hér fyrsta orðið. Agli myndi nú sæma að koma með næsta orð. Í staðinn segir hann að áheyrendur ættu að sniðganga Markús. Finna sér annan stað þar sem annað er sagt.

Með því gerist Egill sekur um það sama og þeir sem hann berst á móti.

Hann segir fólki að sniðganga skóla í harðri samkeppni vegna þess að einhver sem hann er ósammála fær að halda þar erindi, aðrir sögðu fólki að hætta að kaupa danska jógúrt vegna þess efnis sem fengist birt í dönskum blöðum.

Engin ummæli: