3. ágúst 2008

Stattu þig, stelpa!

Nú hefur umhverfisráðherra líklega lagt drög að stórkostlegum kosningaósigri Samfylkingar á n-austur horninu. Flokkurinn mun annaðhvort bregðast við með því að bera einhverjar mútur í fólkið á svæðinu eða fórna ráðherranum (eða bæði).

Ráðherrann valdi einkennilegan tíma til að standa loks á sínu. Úr ráðuneytinu hafa hljómað endalaus skilaboð um að þar búi leppur þegar kemur að öllum meiriháttar málum, enda er hefð fyrir því. Það er því ekki nema von að Norðlendingar hafi reiknað með sambærilegri afgreiðslu og aðrir hafa fengið. Það er enda nokkuð réttlæti fólgið í því að vera ekki skilinn eftir útundan, jafnvel þótt verið sé að skipta ránsfeng eða ofdekra fólk.

Auðvitað er úrskurður ráðherrans réttur, svona einn og sér. En samhengið gerir hann vafasaman. Keflvíkingar hafa verið í keppni við Húsvíkinga um næsta álver. Keflvíkingar hafa brunað áfram og verið ósparir á yfirlýsingar og vafasamar ákvarðanir. Ráðherrann hefur meira að segja gefið í skyn að þeir rasi um ráð fram. Húsvíkingar hafa kosið sömu leið og kotbændur allra alda. Með bænaskjöl og undirgefni í fartaskinu hafa þeir gengið á fund ráðamanna.

Nú er verið að refsa Húsvíkingum fyrir að hika. Hlédræga barnið fær ekkert nammi, bara freki krakkinn. Og þótt hvorugt barnið hefði átt að vera að gadda í sig nammi til að byrja með, þá angar málið af ranglæti.

Vinkonur ráðherrans héldu henni hóf nýlega og brýndu hana áfram. Henni var sagt að standa sig. Hún reyndi það og undirritaði eigin dauðadóm í leiðinni.

Engin ummæli: