2. ágúst 2008

Bohemian Rhapsody í kirkju

Ég fór í kvöld á stórvel heppnaða tónleika í Akureyrarkirkju þar sem Eyþór Ingi organisti spilaði á orgelið vel valin óskalög.

Þegar ég sá að á efnisskránni var Bohemian Rhapsody stóðst ég ekki mátið og gerði mína eigin sjóræningjaupptöku af flutningnum. Ég notaði til þess splúnkunýja símann minn. Þegar vel var liðið á lagið áttaði ég mig á því að síminn hafði sjálfur ákveðið að upptakan yrði ekki lengri en fimm mínútur. Á eldingarhraða byrjaði ég nýja upptöku en samt vantar 4 sek í lagið á dramatískum stað.

Þegar tónleikunum lauk voru kirkjugestir hreint ekki á því að sleppa organistanum heim. Lófaklappið ómaði um alla Brekkuna. Eyþór brást við aukalagakrísunni á stórkostlegan hátt. Á ógnar tilfinningaþrungin hátt spilaði hann svo undir tók bandaríska þjóðsönginn. Það var meira en þjóðernissinnaðar, norðlenskar taugar þoldu. Hálf hikandi klappaði hópurinn dauflegar en áður (þó ofur kurteislega) og svo hlupu allir út.

Mér fannst lokalagsvalið frábært. Og lagið magnað. Svona lag er auðvelt að fá fiðring í hjartað við. Og ég var ekki einn um aðdáúnina. Kanalegir túristar ruddust inn í kirkjuna meðan á flutningnum stóð, snérust á hælum á miðju gólfi og góndu álkulega upp í átt að orgelinu (vafalaust líka að svipast um eftir fána). Þar stóðu þeir eins og rotaðir þursar meðan ég varð allur röndóttur og stirndur að innan.

En hér er sjóræningjaútgáfan af Bohemian Rhapsody. Hún verður hér inni svo lengi sem mér verður ekki skipað að henda henni út. Slök gæðin og 4 sekúndna þögnin ná ekki að dylja snilldina.PS. Ég óska bróður mínum til hamingju með að ætla loks að gera hana Rósu sína að heiðarlegri konu.

Engin ummæli: