7. júlí 2008

Ofnæmi


Ég á skýra minningu þess að hafa um 14 ára aldur hugsað með sjálfum mér hvað ég væri lánsamur að vera laus við öll meiriháttar heilsufarsvandræði. Næstu árin horfði ég á bekkjarfélaga, vini og kunningja glíma við ofnæmi, astma, krabbamein og geðræna erfiðleika – og ekkert af því snerti mig persónulega. Allt fram að þrítugu (nú tala ég eins og Jónas Kristjánsson) fannst mér ég ódauðlegur, hafinn yfir vesala, holdlega krankleika.

Lengi lét ég mig ekki muna um að sinna rúmlega fullu starfi, fullu námi og fjölskyldu, öllu í sömu andránni. Fann ekkert fyrir því. Ég gat unnið ógnarhratt, skrifað gáfulega ritgerð á nokkurnveginn þeim tíma sem það tók mig að vélrita hana og gat hrist kennslustundir fram úr erminni eins og að drekka vatn. Þá gat ég eldað þá þrjá rétti sem ég er sæmilega fær um að elda blindandi.

Auðvitað var þetta hektískur lífstíll og mjög stressandi fyrir líkamann, þótt sálin hefði ekki haft vit á að átta sig á því. Ég sinnti sáralítið hreyfiþörf líkamans, enda er kjánalegt fyrir ódauðlega menn að skokka. Taldi sjálfum mér trú um að valið stæði á milli þess að rækta huga eða líkama, og þar sem líkaminn væri forgengilegri væri rétt að sinna sálinni.

Auðvitað kom svo að ég þoldi ekki álagið og hirðuleysið til lengdar og ég fór að átta mig á því að andleg heilsa er forgengileg ekki síður en sú líkamlega.

Svo fór líkaminn að bila.

Skyndilega kom helvítis ofnæmið. Fyrst sem dulbúið sumarkvef en svo sem hroðalegar vítiskvalir. Ég stóðst það þó furðu lengi. Þegar við fluttum norður í land sá ég konu mína og örverpið hann bróður minn fyllast af slími sem þau deildu með heimsbyggðinni í hnerrandi smáskömmtum. Og ég hló. Hló að þeirra sunnlenska ónæmiskerfi sem ekkert þoldi. Þetta var enda meðan ég var enn ódauðlegur.

Í haust fluttum við suður. Í sumar var röðin komin að mér.

Það byrjaði með því að hendurnar á mér og handleggirnir fengu rauðleitan blæ. Hægt var að skrifa í rauða litinn og þá komu falleg, hvít för. Eftir smástund voru förin orðin eldrauð en umhverfið hvítara. Ég gat skrifað heilu innkaupalistana á mig með þessum hætti og treyst því að þeir væru enn til staðar þegar ég kæmi í búðina.

Þá kom þvottaefnið.

Við erum vön að kaupa eitthvað ægilega hlutaust þvottaefni en fyrir tæpu ári ákvað kona mín að experímenta með eitthvað ódýrt úr Bónus. Tilrauninni lauk þegar ennið á mér sagði stopp með herskara eldrauðra gelgjubólna.

Síðustu dagar hafa verið helvíti á jörð. Ég hef fundið hvernig þessir litlu dárar, frjókornin, steypast upp lúðurinn á mér með örsmáar hjólsagir og vaða í slímhúðina. Fyrst eitt og eitt, svo þúsundum saman. Ég hef í örvæntingu fylgst með ónæmiskerfi mínu taka vonlausan slag við óværuna. Reyna í einfeldni sinni að hnerra viðbjóðnum burtu. Heilinn hefur ítrekað reynt að sannfæra restina af líkamanum um að slíkt sé vonlaust. Líkaminn bregst við með því að hnerra af enn meiri sannfæringu. Sumir hnerrarnir eru svo stórkostlegir að ég finn vöðvana við smáhrygginn rifna og senda skerandi brunatilfinningu upp bakið. Eftir sum hnerraköstin sundlar mig óskaplega.

Bjargvætturinn var anti-histamín sem ég fékk hjá nágranna mínum, prestinum. Þá hætti hnerrinn. En ég var áfram rauðflekkóttur eins og brunafórnarlamb í eldföstum netsokkabuxum. Og rétt áðan tók kona mín eftir því að hársvörðurinn var alsettur eldrauðum sárum, sumum á stærð við túkall, öðrum á stærð við þúsundkall.

Sárin voru þar ekki í gær. En í gær leið mér eins og kviknað væri í hausnum.

Læknirinn kvað: ofnæmi. Nú er mér uppálagt að leggja höfuðið í sterableyti á hverju kvöldi á meðan ég horfi á líkama minn gefast upp fyrir náttúruöflunum í hverjum smábardaganum á fætur öðrum á einbeittri gandreið sinni til grafar.

Á einhvern vemmilega sjúklegan hátt er notalegt að finna að maður er dauðlegur. En umfram allt er það bara pirrandi. Það er hroðalegt að keyra um í dásamlega fallegri náttúru Íslands með straumefni lekandi úr öllum andlitsopum og missandi meðvitund í einhver sekúndubrot á mínútu fresti.

Nú þykist ég vita að ég eigi að hætta að drekka mjólk, borða hvítan sykur, hveiti og ger. Eins er mér vafalaust stranglega forboðið að skoða klám á netinu og öfunda nágranna minn af hundinum hans.

En ég hugsa að ég hökti nokkur skref enn í átt til grafar áður en ég sé mig knúinn til að jafnhenda þá lausnarsteina.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er ljótt að heyra.....en það er alls ekki of seint fyrir þig að taka upp aðra lifnaðarhætti. Þú ættir að reyna að taka upp minn lífsstíl..mér líður vel. Ég var að vísu svolítið timbraður í gær, en reykingar, bjórdrykkja og að sjálfsögðu reglulegar könnunnarferðir um klámheima internetsins, hafa ekki gert mér neitt nema gott....:) Svo er ég bæði fitt og fallegur í þokkabót:)

mbk...Carl Berg