22. apríl 2008

Dóninn þinn!


Séra Svavar er væminn og helgislepjulegur. DoctorE er lélegur og óáhugaverður penni. En ég skal verja rétt hans til að vera það í friði, rétt eins og ég ver rétt hans til að halda áfram að vera nafnlaus. Mogginn hins vegar þarf ekki að gera það. Ekki eingöngu hafa þeir kennitöluna hans, heldur staðfestingu hans á að gangast undir sína skilmála. Líki Mogganum ekki við skrif hans (eða Skúla skelfis, eða hvers sem er) er þeim fullfrjálst að úthýsa honum.


Í því samhengi er vert að minna á áhugaverða staðreynd sem virðist fara fram hjá flestum Moggabloggurum; Blog.is er ekki upphaf og endir netsamfélagsins. Það er ekki einu sinni merkileg miðja. Það eru tugir, hundruðir og gott ef ekki þúsundir hliðstæðra netsamfélaga hvar fólk getur viðrað skoðanir sínar. Ég þori jafnvel að fullyrða að þar sé meira að segja hægt að fara í hundleiðinlega „Hver er maðurinn” leiki — rétt eins og á Moggablogginu. Að hugsa sér.


Sumir segjast ekki skilja hvað fær fólk til að skrifa nafnlaust á Netið. Ég skil ekki hvað fær fólk til að endursegja 10 fréttir af mbl.is á dag á blogginu sínu. Ég ætla samt ekki að nota vanskilning minn á því sem rök fyrir því að gera ætti blogg Stefáns Friðriks ólöglegt.


Enda snýst ekkert af þessu um lög eða reglur. Hér er einungis fólk sem finnst dónalegt að vera nafnlaus. Og ótækt að vera dónalegur. Þetta er ekki einu sinni merkilegt mál neins staðar nema í samfélagi Moggabloggara. Öllum öðrum er skítsama.


Það er vissulega dónaskapur á Netinu. Ég hef samt orðið vitni að meiri dónaskap á stuttum ferli mínum í afgreiðslustörfum. Augliti til auglitis. Ég verð ekki í rónni fyrr en öllum dónaskap verður úthýst úr mannlegum samskiptum með lagabreytingum. Og fólk ætti að ganga með auðkennisstrikamerki þar að auki. Stundum veit ég nefnilega ekki einu sinni nöfnin á fólkinu sem hefur verið dónalegt við mig gegnum tíðina! Það sér hver maður að það gengur ekki.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áhugaverðast í Íslandi í dag þótti mér orð Sóleyjar um að undir nafnleysi sé fólk frakkara við að vera með skoðanir sem eru ekki "mainstream" eins og það væri slæmur hlutir.

Og mikið hef ég einmitt hugsað um það sem þú nefnir með að blog.is sé í hugum margra alnetið í heild sinni.

Í samhengi við það heyrði ég á söguútvarpi að þar væri hin daglega skoðanakönnun sem hljómaði nú: "Eigum við að leyfa nafnlaust blogg?"

Hverjir eru þessir við???
Sem ætla væntanlega að fá að ræða við ritstjóra alnetsins?

Að lokum vil ég benda á að margflestir þeirra sem eru svona líka voðahrifnir af þessum hugmyndum um að "við" skulum nú stöðva nafnleynd er sama fólkið og hló alnetslögguhugmyndir Steingríms Joð útaf borðinu.

Hildur Lilliendahl sagði...

Hefurðu lesið Hebba Fr.? Annars er hundrað hvorugkyns. Bæði í eintölu og fleirtölu.

Bestu,
H.

Hildur Lilliendahl sagði...

Já og p.s. Áhugaverðast við Ísland í dag fannst mér hvað ekkert kom út úr því enda alltof stutt og illa ígrundað innslag þar sem þáttastjórnendur voru að reyna að vera í einhverjum "ég er ósammála öllum viðmælendum mínum" ham. Virkaði mjög illa. En þið Sóley voruð krúttleg. Að vanda.

Óli Sindri sagði...

Ja svei, þú hefur auðvitað rétt fyrir þér með hundruðin. Hugsanlega get ég reynt að ljúga því að ég sé í krossferð fyrir því að kynna til sögunnar kvenkyns útgáfu í fleirtölunni til samhljóms við þúsundirnar. En það væri jú bara lygi.

Hebbi Fr. hefur alveg farið framhjá mér fram að þessu, hinsvegar.

Nafnlaus sagði...

úff hvað ég er sammála mörgu sem þú segir. svo virðist sem að sum heimska sé betur til auglýsinga fallin en önnur. mér finnst að það mætti t.d. fjalla um jón val jensson í þessu samhengi. hann lætur múslíma- og kvenhatara líta út eins og búddamúnka í samanburði.

annars varstu fínn í sjónvarpinu. svona af ljóðarúnkara að vera.