5. apríl 2008

Hugsjón án fiskifýlu


Hægt en örugglega dragast þjóðir heims inn í enn eitt kalt stríð. Það er erfitt að standa gegn spennufíkninni sem vill viðhalda stöðugu ógnarástandi. Spennan er ævinlega byggð upp til höfuðs einhverju ranglæti og fær útrás í táknrænum eða efnislegum aðgerðum sem nær aldrei skila bótum.

Refsiaðgerðir, uppþot, leynimakk, njósnir, byltingar, fangelsanir, hleranir og hunsanir eru miklu oftar sjúkdómseinkenni samfélagsmeina en lækningar. Lækningarnar koma ekki fram fyrr en létt er á spennunni og menn horfast í augu.

Ólympíuleikarnir eru táknræn uppskeruhátíð þeirra sem vilja rækta það fegursta í heimssálinni. Og þótt Ólympíuleikarnir hafi vissulega borið merki sjúkra þátttökuþjóða þá blaktir hugsjónin alltaf í forgrunni. Ólympíuhreyfingin hefur verið umburðarlynd og þúsundir íþróttamanna hafa verið kyndilberar mannlegrar reisnar við aðstæður þar sem ekkert blasir við nema mannlegir breyskleikar.

Jesse Owens steig inn í gin ljónsins og niðurlægði það. Hann reyndist enda miklu langlífari en þær spilltu hugsjónir sem reyndu að hertaka Ólympíuleikana þrjátíu og sex. Leikarnir í Moskvu voru markverðir fyrir þá sigra sem þar voru unnir en ekki fyrir þá sök að BNA-menn sniðgengu þá til að reyna að niðurlægja Sovétið. Fjarvera Sovétsins á leikunum í Los Angeles voru ekki leikunum til minnkunar, heldur Kremlverjum. Afríkuþjóðir neituðu að mæta til Kanada þar sem Nýsjálendingum hefði ekki verið úthýst þrátt fyrir að hafa spilað krikkett við S-Afríku á aðskilnaðartímanum. Meira að segja grófleg árás undirsáta Arafats á leikana í München dugði ekki til.

Ólympíuleikarnir lifðu allar þessar atlögur af. Smám saman varð fólki ljóst það að níðast á Ólympíuleikunum gat á engan hátt tortímt þeim ismum og stefnum sem menn hötuðust við.

Nú vilja sumir nota leikana í Kína til að senda Kínverjum skilaboð um að þeir séu ekki húsum hæfir.

Auðvitað eiga Kínverjar skilið að fá að heyra það. Siðferðisleg afstæðishyggja þeirra og alræðistilburðir eru ljótur blettur á heimsbyggðinni. En eitt fúlasta kaunið á hinum stór-kínverska kroppi hefur einmitt verið þóttafull og miskunnarlaus misnotkun Kínverja á alþjóðlegum samskiptum í þeim tilgangi að opinbera vanþóknun sína.

Þeir hafa ekki undan að gæta vamms síns gagnvart heimsbygðinni. Sendiherrar þeirra um víðan völl ganga dags daglega með grímu heilagrar vandlætingar og kvarta undan öllu frá gestakomum til fjölmiðlaumfjöllunar. Þeir beita viðskiptum og öðrum óskyldum hlutum kinnroðalaust í pólitískum tilgangi. Það væri mjög kínverskt að sniðganga Ólympíuleikana.

Það felst engin viðurkenning á ástandinu í Kína í því að mæta þar til Ólympíuleika. Ólympíuhugsjónin er stærri en sú skrumskæling á kommúnistakapítalisma sem þar er ástundaður. Ólympíuhugsjónin er líka stærri en hugmyndin um Stór-Kína, Stór-Serbíu eða marókóska V-Sahara.

Ólympíuleikar í Kína eru á sinn einfalda en þó magnaða hátt vísbending um það að öll erum við á endanum systkini og tilbúin að gangast undir sömu mælikvarðana um rétt og rangt þegar kemur að íþróttum. Og þótt mörg okkar megni ekki að standa undir hugsjóninni með sóma þá er viðleitnin þó einhvers virði.

2 ummæli:

Oskar Petur sagði...

Ólympíuhugsjónin er nú varla mikið stærri en svo að hún virðist snúast um endalausa styrjöld lyfjaeftirlitsmanna við keppendur.

Allavega virðist það vera það eina sem kemur í fréttum úr svona keppnum því ekki falla heimsmetin!

larush sagði...

Góð grein og góðir punktar, t.d. með Jesse Owens annað dæmi væri hnefinn á lofti í Los Angeles. Auðvitað eiga íþróttamennirnir ekki einir að bera ábyrgð eða öllu heldur gjalda fyrir þær aðstæður sem uppi eru. Enda eru líka margir sem tala fyrir því að stjórnmálamenn eigi að sniðganga opnunarhátíðina - önnur hugmynd er sú að horfa ekki á útsendingar frá leikunum og sína þannig afstöðu sína gegn stjórninni í Peking. Það væri einmitt furðulegt að heimta það að íþróttafólk fari ekki en sitja svo fyrir framan sjónvarp framleitt í Kína og góna á þá. Umfram allt þá má sú andstaða sem núna er uppi ekki hverfa og umræðurnar þurfa að halda áfram - það væri ekki í anda Ólympíuleika að gefast upp fyrir óréttlætinu.