8. apríl 2008

Hamagangur á „Hæðinni“

Eins og einhversstaðar hefur komið fram áður, hef ég verið upptekinn við störf á „Hæðinni“ undanfarið, ég starfa hjá Íspan í Kópavogi (sem er glerverksmiðja, ef einhver veit það ekki) og við hjá Íspan erum eitt þeirra fyrirtækja sem taka þátt í sjónvarpsþættinum Hæðin sem sýndur er á Stöð2.

Í þessu verkefni erum við að framleiða og setja upp eitt og annað í íbúðirnar þrjár, þar á meðal spegla, glerhandrið og ýmislegt fleira, sem fólk getur að sjálfsögðu fylgst með í þáttunum.
En það sem ég ætlaði nú aðallega að tala um í þessari færslu, er hve þetta hefur verið skemmtilegt og áhugavert verkefni, ég hef nú, hingað til, gert mun meira af því að horfa á sjónvarpið heldur en að vera

í sjónvarpinu, og vissi í raun ekki alveg hvað ég var að taka að mér í byrjun. Þarna höfum við tekist á við mörg spennandi verkefni og gert ýmislegt sem við höfum ekkert endilega gert áður, en sem betur fer hefur þetta gengið alveg einstaklega vel allt saman. Pörin þrjú sem taka þátt í keppninni eru hvert öðru skemmtilegra og að sjálfsögðu ólík með mjög mismunandi smekk og skoðanir á því sem þau vilja framkvæma. Sjónvarpsfólkið, allir sem koma að þessu hvort sem það eru kvikmyndatökufólk, hljóðmenn, leikstjórar eða hvað þetta heitir nú allt saman hefur verið alveg stórkostlegt, og ótrúlegt að sjá hvernig þetta fólk fer að því að láta svona verkefni verða að veruleika, þetta er nefnilega heilmikið vesen, eiginlega miklu meira mál heldur en það virðist þegar maður er bara að horfa á þáttinn í sjónvarpinu.

Svo er auðvitað ekki hægt annað en að nefna aðalmanninn í þessu öllu saman, en það er Gulli Helga, sem heldur utan um allt í sambandi við þetta og stjórnar eins og hershöfðingi, hann er alveg frábær maðurinn og engu líkt að vinna með honum, honum er eiginlega best lýst eins og hann kemur fram í þáttunum, hress og glaðlegur og allt það, hann er ekkert að leika, hann er bara svona.

Málið er sem sagt; þetta er búið að vera sérlega skemmtilegt og nú er stuðið að ná hámarki, hvert svæði íbúðanna á fætur öðru að verða tilbúið, búið að sýna hjónaherbergin og sjónvarpsholin, næst fáum við að sjá barnaherbergin og svo koll af kolli þar til allt verður tilbúið. Spennandi tími framundan og brjálað að gera.

Ólafur Ragnar Hilmarsson.

Engin ummæli: