Menn hafa tilhneigingu til að spilla óvart því sem fallega eða vel er hugsað. Njóti hin merka hugsun hylli er þess yfirleitt ekki langt að bíða að hluti þeirra sem kynnast henni hafi á henni andstyggð (venjulega vegna þess að þeim finnst hún hafa verið neydd upp á sig) og í augum hins hlutans verður hún að klisju.
Í allri umræðunni um tjáningarfrelsið, hvort sem það snýr að Össuri eða Jyllandsposten, gleymist gjarnan að vísa í greindarlegasta innleggið í umræðuna, Frelsið eftir Stuart Mill. Það er enda löngu orðið að klisju. Máttleysi Frelsisins í almennum umræðum er sumpart sönnun á fullyrðingu sem haldið er fram í bókinni.
Í Frelsinu eru færð rök fyrir hugsana- og tjáningarfrelsi með afar skýrum og undanbragðalausum hætti. Stíllinn er svo kristaltær að maður þarf að gæta sín á því að mistaka efnið ekki fyrir almenna og ómengaða skynsemi. Það er því miður fátt almennt við skynsemi Mills. Annars eru rökin þessi:
Ritskoðun er rán. Það er augljóst þegar skoðun er bönnuð sem síðan reynist sönn. En þótt það sé ekki eins ljóst þegar hin bannaða skoðun er ekki berlega sönn, er það rán engu að síður. Ómótmæltar skoðanir fölna og missa styrk sinn með tímanum hvort sem þær eru sannar eða ósannar. Þegar sönn skoðun mætir mótlæti endurnýjar hún sig, fær kraft og þrek á ný. Og fari svo að hin bannaða skoðun sé á gráu svæði, þ.e. hvorki algjörlega sönn eða ósönn, þá förum við á mis við áreksturinn – sem er langbesta leiðin við að skilja hismið frá kjarnanum. Þegar tveir deila er yfirleitt sannleikskorn í báðum skoðunum, átökin greina þennan sannleika frá restinni og restin deyr. Séu átök bönnuð, eða latt til þeirra, getur sannleikskornið haldið lyginni á lífi eins og öndunarvél. Þú finnur gull yfirleitt ekki öðruvísi en umkringt grjóti.
Mill gengur harkalega gegn almenningsálitinu. Hann segir: Þótt einn maður sé vissrar skoðunar og allt mannkyn á öndverðir skoðun, þá gefur það fjöldanum engu meiri rétt til að þagga niður í þessum eina en þessi eini hefði til að þagga niður í fjöldanum ef svo vildi til að hann færi með völdin.
Auðvitað hefur Mill rétt fyrir sér. En hugmyndirnar í Frelsinu líða fyrir það að vera löngu orðnar klisjur. Og það fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki þótt móðins að andæfa þeim með beinum hætti. Sumir af þeim, hverra skoðanir eru í hróplegu ósamræmi við Mills, halda hræsnislaust að þær séu það ekki. Margir halda að þeir séu dyggustu stuðningsmenn einstaklingsfrelsið og að þau höft sem þeir vilja og styðja séu ekki í raun frelsishöft.
Mér skilst að DV hafi birt frétt um bloggara sem gangi of langt. Þar mun Össur hafa verið nefndur. Þar var Óli Sindri líka nefndur. Og ætli Gaukur hafi ekki verið nefndur líka.
Össur fyrir að segja að Gísli liggi í pólitísku blóði sínu og að hann hafi staðið fyrir aðför að Villa. Hið síðarnefnda hefur verið dylgjað um ótal sinnum og er langt frá því að vera eitthvað nýtt. Og fyrr má vera teprugangurinn ef ekki má nota líkingarmál um dauðann um pólitíska andstæðinga. Af hverju skyldi mega segja að einhver hafi skotið sig í fótinn en það er tabú ef sagt er að hann hafi skotið sig í hausinn? Af því að önnur líkingin er grútmáttlaust lík sem liggur í klisjukenndu blóði sínu en hin er með púls. Óli Sindri var sagður hafa farið yfir strikið með því að kalla Hörpu Hreins geðsjúkling og að sem slík þættist hún hafa meira vit á geðveiki en aðrir. Það er rétt hjá honum – og það er ekki einu sinni dónalegt. Fyrr mega vera vinnubrögð DV geti þeir ekki fundið eitthvað bitastæðara en þetta úr munni Óla (Já, og hann er ekki kerfisfræðingur, eða hvað það var sem þeir fullyrtu að hann væri). Gaukur sagði að Ómar væri rasisti. Skýrt dæmi um það þegar sannleikskorn er í báðum skoðunum. Það er líklega rétt hjá Ómari að hann sé litblindur þegar kemur að húðlit, það vildi bara svo til að hann var einstaklega drulludelalegur við útlendinga. Gaukir skerpti á þeim punkti.
Annars er einkennilegt ástand hjá DV þessa dagana. Á meðan Þórarinn skrifar ágæta umfjöllun um málið skrifar Reynir Traustason forpokaða þvælu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli