1. mars 2008
Pervertar
Samkvæmt þessu hefur dómstóll á Ítalíu dæmt mann til sektar fyrir að grípa í skaufann á sér á almannafæri. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Að vísu var þessi bölvaði pervert ekkert að vaða með krumlurnar í ber kynfæri sín, heldur eingöngu að hagræða djásninu utan á vinnugallanum, þar sem þau voru greinilega í óþægilegri stöðu. En auðvitað er þessi bölvaði dóni sekur engu að síður. Að hann skuli voga sér að að leita með hendina niður fyrir nafla, er ekkert annað en siðlaus og viðurstyggileg hegðun sem kallar á þunga refsingu. Ég er alveg handviss um að þessi hrotti hefur sært blygðunnarkennd fjölda fólks, og refsing hans var síst of þung.
Þessi dómur er klárlega fordæmisgefandi, og ég krefst þess að allir þeir sem hafa hagrætt sveittum pung sínum, verði dæmdir til harðrar refsingar. Þá má að sjálfsögðu alls ekki líta fram hjá þeim fjölda kvenna sem leggja það í vana sinn að hagræða brjóstum sínum í haldaranum, svo þeim líði betur. Þetta er bölvaður dónaskapur og skal taka á brotinu sem slíku.
Ég hef nefnilega einmitt lent í því að vera fórnarlamb svona siðferðisbrots. Þá var ég í mesta sakleysi að versla í Hagkaupum og fram hjá mér gekk kona með innkaupakörfu og í þann mund sem hún strunsaði fram hjá mér í átt að eplunum, greip hún undir brjóstið á sér og hreinlega klóraði sér! Ég gersamlega sleppti mér þarna í versluninni. Svona hegðun gekk gersamlega fram af mér. Að sjálfsögðu lét ég ekki bjóða mér þetta, og úthúðaði þessari konu sem siðlausri portkonu og sóðabrók, auk þess sem ég hringdi í lögregluna í snarasti. Að storka svona siðferðiskennd minni, og það á almannafæri, er bara viðurstyggilegt og pervertalegt.
Ég þakka nú guði fyrir að búið er að setja fordæmið, svo ég þurfi ekki að horfa uppá svona viðbjóð aftur. Að sjálfsögðu tengir maður typpi, brjóst og hvað þetta nú heitir allt saman, beint við afbrigðilegheit og sóðaskap. Slíkt á ekki undir neinum kringumstæðum að líðast í nútíma þjóðfélagi.
Ég hef meira að segja heyrt útundan mér að það sé til fólk sem fái kynferðislega örvun við það eitt að sjá og snerta bera fætur og tær! Slíkt finnst mér að sjálfsögðu ógeðslegt og ég get ekki hugsað um berar tær öðruvísi en að kúgast af viðbjóði og hryllingi. Það er alveg klárt mál, að ef ég sé einhvern bera á sér fæturna (svo ekki sé talað um að snerta þá) þá hringi ég beinustu leið í lögregluna.
Þetta er viðbjóður sem verður að sporna við, og nú hefur lögregla og dómstólar á Ítalíu lagt sitt lóð á vogaskálarnar til að gera heiminn betri og ég fagna því gríðarlega.
Áfram Ítalía ... og hættið að drekka kaffi!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli