3. mars 2008

Offors?


Dómur er fallinn vegna DC++. Refsingar eru að mestu til málamynda og munar þar langmest um málsvarnarlaun (en málið hefur verið dregið óheyrilega á langinn og launin eru því há) og það að tölvubúnaðurinn var gerður upptækur.


Það væri efni í heila grein að búast megi við því að ungt fólk (en dómurinn er rökstuddur með ungum aldri) megi búast við því að þyngsta refsingin verði vegna varnanna í málinu. Hefðu mennirnir sleppt því að verja sig og játað sig seka umbúðalaust hefði það dregið tennurnar úr dómnum að mestu. Kannski er það bara sanngjarnt að mönnum sé refsað aukalega fyrir að malda í móinn og reyna að verjast með lagaklækjum — mér finnst það samt dálítið ógeðfellt.


Það furðulegasta í málinu öllu er þó einkennilegur rökstuðningur dómarans þegar kemur að því að gera allan tölvubúnaðinn upptækan — og á undan því, val lögreglumanna á upptækum búnaði.


Ákært var vegna rúmlega 130 þúsunda eintaka af höfundaréttarvörðu efni í tölvum níu einstaklinga. Gera verður ráð fyrir að mikið af þessum skrám séu þær sömu trekk í trekk því annars væri botninn dottinn úr málinu (það gladdi mitt litla hjarta að ákveðið var að hljóðbækur skyldu undanþegnar ákæru).


Lagt var hald á tæplega 90 hluti auk snúra og kapla. Af þessum 90 hlutum sýnist mér í fljótu bragði að rétt rúmlega 30 hafi verið gagnageymslur, þ.e. tölvur, harðir diskar eða önnur gagnasöfn. yfirgnæfandi meirihluti þess haldlagða voru hlutir eins og skjáir, mýs, módem og annað slíkt.


Dómari málsins kaus að láta kæranda, fulltrúa eigenda hinna stolnu hugverka, fá allt dótið. Og tók dómarinn þar upp hjá sjálfum sér að túlka þessa lagagrein með hliðsjón af aukinni tækni:


55. gr. (73/1972) Nú hafa eintök af verkum verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi, þannig að í bága fari við ákvæði laga þessara eða fyrirmæli, sem sett hafa verið samkvæmt 2. mgr. 31. gr., og má þá ákveða í dómi, að eintökin séu án endurgjalds upptæk til handa þeim, sem misgert var við, eða afhent honum gegn endurgjaldi, sem ekki má nema hærri fjárhæð en framleiðslukostnaði. Sama gildir um prentmót, prentsteypu, myndamót og þess háttar muni, sem varða undirbúning eða framkvæmd brots eða eru til slíks fallnir.


Þetta þykir mér afar einkennileg túlkun.


Í fyrsta lagi er á gráu svæði að gera tölvumýs, kapla, skjái og annað slíkt upptækt. Það er svona svipað og að brjótast inn í læstan bílskúr til að endurheimta stolinn bíl og taka garðsláttuvélina með, bensínbrúsa og þvottasvamp. Vissulega var skjár og mús notaður við brotið (og skrifborð og skrifborðsstóll raunar einnig) en ekkert við þessa aukahluti (2/3 þess haldlagða) gat með neinum hætti haft áhrif á rannsókn málsins, það hefði haft nákvæmlega engin réttarfarsleg áhrif að sleppa því að taka þetta drasl með. Annað hvort voru lögreglumennirnir ekki með á hreinu hvað skipti máli þegar þeir gerðu rassíuna eða þeir voru að reyna að spara sér vinnu. Og hægindi lögreglumanna geta aldrei verið rök fyrir eignaupptöku. Eða hvað?


En svo er það hitt. Hvaða tilkall höfðu ákærendur til búnaðarins í heild sinni, og ég er þá ekki að hugsa um meirhlutann sem þeir áttu ekkert tilkall til, ég er bara að hugsa um gagnageymslurnar. Ef lögreglan hefði stöðvað gám fullan af fölsuðum iPodum skyldi dómarinn hafa kveðið á um að Apple skyldi fá alla fölsuðu iPoddana? Mér finnst það afar ólíklegt. Enn ólíklegra finnst mér að eigendur bíómyndanna hafi nokkuð við þessi stolnu eintök að gera. Í hvað skyldu þeir vilja nota þau?


Og í þriðja lagi, hvað með allt efnið sem er á þessum tölvum sem kemur ákærendum ekkert við? Það er ekkert í dómnum um það að hinir nýju eigendur megi bara opna þær möppur sem notaðar voru til að deila, og raunar er engin trygging fyrir því að einu sinni allt í þeim möppum eigi nokkuð erindi við aðra en eigendur tölvanna. Nú er skýrt kveðið á um í almennum hegningarlögum að enginn hefur rétt til einkamála annars (og þar er raunar búið að uppfæra lögin til nútímans og tölvuvæðingarinnar ólíkt lögunum sem dæmt var eftir) og þar er meira að segja gert bannað að eyða einkagögnum annarra:


228. gr. (19/1940) Ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð, þá varðar það sektum...1) eða fangelsi allt að 1 ári. [Sömu refsingu skal sá sæta sem á ólögmætan hátt verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi.]2)


Sömu refsingu varðar það að ónýta eða skjóta undan einkagögnum þeim, sem nefnd eru í 1. mgr.


Sektum eða [fangelsi]1) allt að 3 mánuðum skal sá sæta, sem hnýsist í hirslur annars manns án nægilegra ástæðna.


Hvaða aðgang er dómarinn í DC++ málinu að veita að gögnum þeirra brotlegu? Má lesa dagbækurnar þeirra, hálfkláruðu doktorsritgerðina, ástarbréfin; skoða tölvupóstinn, erótísku heimamyndböndin, vinnugögnin, PIN-númerin, heilsufarsupplýsingarnar?


Það hefði verið hægur vandi að fyrirskipa að öllum höfundavörðum gögnum á deilanlegum svæðum hefði verið eytt. Það hefði jafnvel mátt eyða öllum möppum sem skráðar voru til deilingar. Hvað stóð í veginum fyrir því að það væri gert og menn fengju svo draslið aftur? Það hefði verið hægt að sekta þá ef þetta snérist um að kenna þeim lexíu. Ef bílþjófur væri gripinn með hundinn sinn í stolnum bíl, væri þá eðlilegt að kenna honum lexíu með því að láta skjóta hundinn? En ef dagbókin hans hefði verið í hanskahólfinu? Ætti hún að renna til eiganda bílsins? Og ef eðlilegt er talið að ákærandi fái ekki aðeins tölvurnar, heldur skjái, mýs og allthvaðeina, af hverju er ekki fyrirskipað að eytt skuli út af tölvunum?


Mér þykir málið allt hið einkennilegasta. Dómarinn virðist reyna að vera næs við alla. Hefði hann t.d. ákveðið að sekta hlutfall af verðmæti dreifða efnisins hefðu strákarnir verið í djúpum skít og vafalaust eiga að felast fælingaráhrif í upptökunni. En undir engum kringumstæðum er hægt að kalla svona málsmeðferð annað en illa skipulagt offors.

Engin ummæli: