3. mars 2008

Ég á mig sjálf


Einn dyggasti frummælandi þess að bein Jónasar Hallgrímssonar væru flutt heim til Íslands var hann sjálfur. Hann sætti víst lagi og tranaði sér fram á hvern miðilsfundinn á fætur öðrum með þá frómu ósk að fá að komast úr troðningnum í Köben heim í víðan Öxnadalinn.


Og svo var byrjað að grafa. Ofan á Jónas var búið að troða feðgum og hjónum. Dýpst í gröfinni fannst kistuhró Jónasar sem var alveg samfallið undan troðningnum, og undir lokinu fundist morknar beinadruslur sem urðu að gjalti ef þær voru handfjatlaðar. Búið var að skafa fæturna undan hræinu með stunguspaða (nema stigaslysið hafi verið af áður óþekktum alvarleika) og slatti af beinunum (sérstaklega hausnum) virtist horfinn. Þó létu menn ekki hugfallast og skófu upp beinaleifamold, settu í kassa og sendu til Íslands.


Þar tók á móti þeim einn af hinum lifandi forgöngumönnum átaksins, skellti þeim í bílinn sinn og brunaði norður í land. The rest is history, eins og kerlingin sagði. Hriflu-Jónasi blöskraði framtakssemin (en sjálfur ætlaði hann sér að grafa Jónas í risastórum og tómum þjóðargrafreitnum) og hringdi í sýslumann sem lagði hald á líkið eftir að hafa gefið nógu langan fyrirvara til að hægt væri að lauma nokkrum rifjum úr Jónsa í eyfirska mold og syngja yfir þeim.


Nú sofa lærleggir skáldsins djúpum svefni í þyrlupallinum fyrir aftan Þingvallakirkju og rumska ekki þótt heilalaus bimbó stilli sér fáklædd upp á legsteininum í auglýsingaskyni fyrir upprisu eftirmanns hans.


Mér finnst Jónasarmálið varpa dálitlu ljósi á annað mál og nýrra — mál erfingja Kjarvals gegn Reykjavíkurborg. Æðstu fulltrúar íslensku þjóðarinnar hafa lengi haft tilhneigingu til að eigna sér framúrskarandi fólk, eins og Jónas vildi eiga nafna sinn (og Albert Guðmundsson áður en hann varð feitur), Davíð eignaðist Fischer og Geir fyrsti eignaðist Kjarval.


Ættingjar Jónasar vildu alls ekki sjá honum holað niður í sunnlenskt misgengi við hlið alræmds fjárglæframanns — þau vildu að hann lægi þar sem leggurinn hafði daðrað við skelina, þar sem systir hans sat lömbin og þar sem hann sat hryggur og horfði á ástarstjörnuna hverfa á bak við ský. Ættingjarnir vildu ekki að Jónas væri notaður til að flikka upp á mannorð hrossakaups- og aftökustaðar, sem aukinheldur var búið saurga enn frekar með því að grafa þar Einar Ben.


Jónas var, eins og áður er lýst, í litlu ásigkomulagi til að mótmæla. Og skipti engu hversu mörgum útfrymum hann spjó úr munni ófreskra. Ég held líka að enginn geti raunverulega haldið því fram að Kjarval hafi verið í ásigkomulagi til að gefa öll verk sín hinu opinbera stuttu áður en hann hvarf inn í villuheim óráðs.


Gjöf Kjarvals var í versta falli elliglöp en í besta falli (og líklega svo) ósk um öryggi verkanna. Hún á sér vafalaust skýrasta hliðstæðu í gjöf Árna Magnússonar á handritunum til Kaupmannahafnarháskóla. Það var enginn staður betri á þeim tíma. Það hindraði Íslendinga ekki í að falast eftir þeim aftur. Á sama hátt vilja erfingjar Kjarvals fá verkin til baka nú. Danir sýndu stórhug þegar þeir gáfu okkur verkin aftur (án þess að þurfa það strangt til tekið) — Reykjavíkurborg mætti sýna snefil af því sama.


Það hefði farið mikið betur á því að grafa Jónas við hringveginn eins og til stóð. Fjöldi menningarlegra ferðamanna hefði kastað á hann kveðju og við hefðum verið með enn sterkari vísi að bókmenntavörðum sem auðveldlega hefði mátt láta hringa landið (Stephan G. og Miklibær í næsta firði, Möðruvellir, Hali í Suðursveit o.s.frv.) En í staðinn liggur Jónas á afviknum stað með leiðinlegan nágranna og eina tilbreytingin er þegar nærfatamódel eða þyrlur reyna að komast upp á hann.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg lesning bróðir..kv, Bóla

Nafnlaus sagði...

tussugóð færsla kammerat, ég hló og frussaði eplasafa yfir buxurnar mínar.