6. mars 2008

MA


Alveg get ég fengið rennandi skitu þegar ég horfi á Gettu Betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Eins og fram hefur komið í fyrri pistlum mínum, þá hef ég lúmskt gaman af þessari keppni, og ég er svo sem búinn að lýsa skoðun minni á dómaranum, stigaverðinum og spyrlinum.

En það sem fer mest í pirrurnar á mér eru þessir sísyngjandi stuðningsmenn skólanna. Drottinn minn dýri, hvað þetta fer orðið í taugarnar á mér. Það er eins og það sé regla í þessari keppni, að því eldri sem skólinn er, því leiðinlegri eru stuðningsmennirnir. Ekki nóg með að maður þurfi að hlusta á þá syngja og öskra nánast látlaust alla sjónvarpsútsendinguna, heldur eru slagorðin svo fáránleg og leiðinleg að það getur beinlínis verið heilsuspillandi að hlusta á þessa vitleysu.

Lið Menntaskólans á Akureyri hefur örugglega keppt í þessari keppni frá árinu 1200 og það bregst ekki að í hvert einasta skiptið sem þau mæta í sjónvarpið, þá kyrja þau sömu hallærislegu lögin, aftur og aftur. Þjóðin er fyrir lifandis löngu komin með ógeð á þessum skátalögum þeirra, og í hvert skipti sem ég heyri „(MH) með rjóma á...“, þá langar mig að stinga mig í eyrun með stórri ísnál! Hvað er eiginlega að þessu fólki ? Afhverju skottast það ekki og skráir sig í skátana? Séu þessir söngfuglar í virkilegu stuði, má stundum heyra þau syngja gamla sunnudagaskólalagið „Gleði Gleði“, á svo einstaklega hallærislegan hátt að manni liggur við velgju. Mig langar virkilega að vita hvort þeim finnist þau vera töff, eða hvort litli skátinn í þeim brjótist bara svona út í hvert skipti sem þau komast í sjónvarpið. Þriðji möguleikinn er auðvitað athyglissýki á háu stigi, ásamt veruleikafirringu, því þau gera sér enga grein fyrir því að það eru allir búnir að fá ógeð á þeim. Fjórða og líklegasta skýringin er svo auðvitað, að þau séu bara öll blindfull þarna í sjónvarpssal og muni ekki eftir neinum skárri lögum til að syngja. Sé það staðreyndin, þá ættu þau frekar að sleppa því alveg að syngja og hreinlega halda kjafti, en að pína okkur sjónvarpsáhorfendur svona.

Hafandi þurft að hlusta á þessa hörmung, ár eftir ár, hefur gert það að verkum að ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum hvetja mín börn til þess að ganga í þennan skóla. Það er alger óþarfi að ýta undir það að börnin mans gerist algerir lúðar strax á menntaskólaárunum. Sunnudagaskólinn stendur þeim til boða ... hugsanlega skátarnir, en Menntaskólinn á Akureyri ... nei takk. Má ég þá heldur biðja um að þau séu uppá háalofti í skátaheimilinu að flækja puttana á sér í pelastikk og syngja hallærissöngvana sína þar, en að eiga þá hættu að þau komi fram í sjónvarpinu og geri sjálf sig að fífli á sama tíma og þau hálf-drepa þjóðina úr leiðindum.

Nú má vel vera að ég verði skotin í kaf út af þessum pistli, sérstaklega þar sem 66% af aðstandendum þessarar síðu gengu í MA á sínum tíma, en ég er bara kominn með svo mikið ógeð á þessum söngvum að ég gat ekki setið á mér.

Hvort bræður mínir voru slíkir lúðar og leiðindapésar að hafa tekið þátt í þessum söngvum, verða þeir svo bara að svara sjálfir.

Hættið svo þessari kaffidrykkju alltaf hreint!

8 ummæli:

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Mitt svar við þessum rógi er ofur einfaldlega að rétt hefði verið að skrifa 67% hér að ofan en ekki 66%.

Annars tókst þú þig alltaf vel út í skátabúningnum í gamla daga og ég ætla nú ekki að fara að gera þér þann óleik að rifja upp allar þær kvalastundir sem ég upplifði þegar við deildum herbergi og þú neitaðir að fara að sofa á kvöldin nema hlusta fyrst á íslenska óskalagaþáttinn (hét hann ekki Landið og miðin?) eða leynilegar upptökur þínar af Eurovision-keppninni þar sem Arthúr Björgvin var kynnir.


Ég þykist vita að svar Óla verði svipað og það sem hann hrópaði í símann þegar hann hringdi í mig (á leið heim úr sýklalyfjagjöf í æð) til að minna mig á þessa keppni: „Heeeesta Jóiiiii, var harður kall af sér...“

Óli Sindri sagði...

Birkir í berjamó, Birkir í berjamó!

Ég fékk reyndar líka rennandi skitu meðan á keppninni stóð en grunar þó að þar sé frekar um að kenna sýklalyfjunum en MA. Og þó.

Ég saknaði samt rassaklapps í þessari keppni.

Nafnlaus sagði...

Ég veit það með góðri fullvissu að Óli söng aldrei Hesta Jóa, I should know, I was there. Aftur á móti veit ég, þrátt fyrir grófa sögufölsun, að Óli söng Við erum bestir.

Nafnlaus sagði...

Það skal tekið fram að ég var ekki að væna bræður mína um lúðaskap á menntaskólaárum sínum. Mig langaði það, en ég gerði það ekki :)
Ég mótmæli þessu með 67 prósentin. Það hefði ekki verið réttara. 66,6666666... er að vísu nær 67, heldur en 66, en ekki rétt. Ég tel mig bara hafa eitthvað extra og því er ég 34 % á móti sitthvorum 33% ykkar.
Vissulega hlustaði ég á landið og miðin,enda gífurlega menningarlegur þáttur í alla staði:) og ég held svei mér þá að það hafi verið skárra að skakklappast um í skátabúning, heldur en að klæða sig í hlandgulan bol og syngja um að einhver sé í berjamó eins og fáviti. (annars man ég nú ekki oft eftir mér í skátabúning ef útí það er farið)
kv, Bóla

Nafnlaus sagði...

Þessi skipulögðu skrílslæti er einmitt það sem fælir mig frá því að horfa á þessa keppni. Eflaust verra en að tilkynna stórum hóp af sex ára krökkum að jólasveinarnir lentu í hræðilegu bílsslysi og þau þurfa þrífa upp líkamsleifarnar til að finna gjafirnar... eða þar um bil.

Nafnlaus sagði...

Ég var í skátunum. Fantagóður skáti sem kláraði flokksforingjanámskeið I. Á einni kvöldvökunni fór svo að leka gröftur úr öðru eyranu á mér, því sem virkaði. Ég tók því ekki flokksforingjanámskeið II og þegar ég hafði ekki heyrt "rúgbrauð með rjóma" né "sjallívallí sjallívallí sjallívallí sjallívallí, umba umba umba" í nokkrar vikur þá öðlaðist ég heyrn á báðum eyrum og ...ja!.líka bara...mér leið betur.
Í dag eru einu eftirköstin ákveðið gítaróþol. Ég fæ ofsakláða þegar svona semí-þokkalega-lélegir gítaristar fara að spila (oftast í partí) Ég fæ svona "ég næ ekki andanum" tilfinningu og verð jafnvel reið. Svona aðþrengd, langar að öskra hátt VIÐBJÓÐUR, ÚT MEÐ ÞIG, VIÐBJÓÐUR. Santana myndi samt sleppa, en ekkert verra en það. Ég hef haldið því fram að þetta séu í raun skemmdir síðan á skátaárunum og svo Laugatímabilinu. Ég er þó ekki frá því að þú eigir þinn þátt í gítaróþoli mínu sem og Viðar Sævarsson. Var sennilega á "HAM-fara" tímabilinu.
Já! svei mér ef ég skít mig ekki bara á rönguna líka!!!

Nafnlaus sagði...

Hvaða hvaða ! Ég tek svo sem vel undir með þér varðandi spyrilinn og gólið í krökkunum en þetta eru unglingar á aldrinum 16-20-22 ára. Er hægt að búast við öðru ! ?
Bara spyr. Ég man vel að við í ME sungum um litlu lömbin og höfðum hægri hendi á vinstra brjósti og sungum það stolt í sjónvarpinu, töff þá ! ....... núna .......sorglegt að mér finnst en það er einfaldlega vegna þess að ég er orðin "fullorðin", eða á að heita það. Þú ert kannski líka bara orðinn fullorðin :)

kv,

GS

Nafnlaus sagði...

Nei takk og ekkert snakk !
Ég er sko ekkert orðinn fullorðinn.!!
Það má þó bæta við að ef þetta eru 22 ára "krakkar" og það verður þeim til afsökunnar, þá vil ég taka það fram að í stað þess að vera að syngja "Ragnar með Rjóma á", þá var ég upptekinn af því að borga af bílnum mínum, framlengja yfirdráttinn og skipta um bleyju á syni mínum ! Ef fram heldur sem horfir, og menn geta endalaust skýlt sér á bak við ungdóminn, þá förum við að sjá "krakkana" í háskólanum haga sér ámóta leiðinlega.!!
kv, Bóla