12. mars 2008

Jónas

Jónas Kristjánsson er áhugavert fyrirbæri. Fyrir utan að vera fullur af mótsögnum þegar kemur að rannsóknarblaðamennsku þá minnir hann mig stundum á miðaldamunk sem fyrir eitthvað skringilegt óhapp hefur villst inn í framtíðina. Með bloggi þykist hann hafa uppgötvað einhvern stóra sannleik og staðfestir þá lífsstefnu sína með því að fella í sífellu dauðadóma yfir hefðbundnari fjölmiðlum auk þess að semja eigin reglur um hvernig blogg eigi að vera.


Honum hefur meira að segja tekist að safna í kringum sig nokkrum lærisveinum sem gleypa gospelið af áfergju. Símoni Birgissyni var auðvitað auðvelt að snúa til réttrar Jónasartrúar og bloggar hann nú bara eina efnisgrein í einu af staðlaðri Jónasarlengd, eins og meistarinn sjálfur.


Nú hef ég ekkert á móti því að skrifa knappan og skilmerkilegan stíl. En ég sé hins vegar ekki hverju Jónasarfylgjendur eru bættari með að skrifa sautján einnarefnisgreinarfærslur um sama hlutinn, með nauðsynlegum endurtekningum og ítrekunum á sömu hlutunum. Veitingahúsarýni í þremur pörtum þar sem megnið af orðunum í seinni tveimur færslunum fer í að rifja upp hvaða veitingastað er verið að ræða um getur ekki á nokkurn hátt talist skynsamlegri en stök færsla með færri orðum samtals og auðfylgjanlegri þræði.


Blogg er orðið svo ríkur þáttur skoðana, að fáir komast yfir að lesa það. Nema með hjálp gáttar.


Skoðanir eru dauðar í dagblöðum. Ég hef fleiri lesendur í blogginu og meiri viðbrögð en ég hafði um áratugi í leiðurum. Fáir lesa slíka og enn síður sjálfmiðjaða Velvakendur eða Stuð milli stríða.


Er ég sá eini sem líður eins og ég sé að lesa glóðvolgt fréttabréf aldraðs manns sem er nýbúinn að uppgötva heimilistölvur, bleksprautuprentara og Microsoft Publisher — og þykist hafa himin höndum tekið?


Jónas er eins og náunginn á bakvið TimeCube „kenninguna”. Fullkomlega sannfærður um ágæti eigin skoðana og algjörlega úr takti við raunveruleikann.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhverjum finnst eflaust ljóðrænt réttlæti í því höndin drepist af höfundi Mengellu. Ekki mér samt! Óska yður góðum bata. Kv, GLH

Nafnlaus sagði...

En ef svo illa skyldi nú fara að fjarlægja þurfi höndina, þá mæli ég með gamaldags sjóræningjakrók framan á stúfinn - frekar en þessa plastlegu nútímagervilimi sem reyna að herma eftir raunverulegum líkamshlutum.

Nafnlaus sagði...

Eða krók með gítarnögl fastri á?
Dr. Júróflopp, besti vinur Mengellu, reddar afslætti.
Þeir gera upp sín viðskipti með Munngælum.

Nafnlaus sagði...

Leiðinlegt með höndina, en vonandi fer þetta nú að lagast.

Er öldungis sammála pistli þínum um Jónas.

Hann er einn þeirra sem aldrei skrifar "Mér finnst", "sennilega" eða "mitt álit er..." heldur er hann meira en viss um að allt sem hann lætur frá sér fara sé heilagur sannleikur.

Það fer hrikalega í taugarnar á mér að allar bloggfærslur montpriksins eru níu línur (örsjaldan átta eða tíu), en þeir Símon Birgisson virðast halda að það sé æðislega hipp að skrifa inn í kassa.

Fuss.

Þ.

Oskar Petur sagði...

Hólí, mólí! Ætli þessi TimeCube-síða sé ekki búin að vera óbreytt síðan 1994, eða eitthvað (þ.e. áður en þeir lögðu hann inn á hælið)? Gaurinn hefur örugglega prófað alla fonta í öllum formöttum, litum og stærðum, sem hægt er að ímynda sér.

Þær tilraunir eru þó samt gáfulegri en helvítis vellan sem hann skrifar.

Óli Sindri sagði...

Reyndar er TimeCube síðan frá 1997, en hún er alls ekki óbreytt. Dr. Gene Ray (hann útenfndi sjálfan sig doktor í „kúbismafræðum”) er enn að uppfæra hana (síða 2 sem linkað er á neðst á TimeCube.com er t.d. tiltölulega nýleg).

Reyndar vona ég að Dr. Ray fyrirgefi mér fyrir að nota ekki allan titilinn sem hann gaf sjálfum sér; „Dr. Gene Ray - Cubic and Wisest Human.”