24. mars 2008

Blogg og Maurildi

Jónas Kristjánsson heldur enn að bloggið sé það merkilegasta síðan einhverjum datt sneitt brauð í hug, og eyðir þeim 80 prósentum færsla sinna sem ekki fara í að berja á prentmiðlum í að bera út bloggguðspjallið. Ég hins vegar hallast að skoðun Þórdísar Gísladóttur — „húmorsleysið kæfir allt og formið er einhvernveginn löngu komið í þrot.”


Nýjabrumið er löngu farið af bloggi sem slíku í augum allra nema Jónasar. Enginn með fullu viti nennir að lesa lélegar endursagnir af Moggafréttum vegna þess eins að þær eru settar fram á bloggi. Gæfi einhver út gamaldags útprentað fréttabréf sem innihéldi ekkert annað en pistla sem hefðust á orðunum „Það er dapurlegt að lesa greinina á síðu 14 í Morgunblaðinu síðasta sunnudag...” eða „Það er skemmtilegt að skoða myndasögur Moggans...” þori ég að ábyrgjast að snepillinn yrði ekki langlífur.


Staðreyndin sem er að renna upp fyrir æ fleirum er sú að innihaldið skiptir meira máli en framsetningarmátinn. Þegar við stofnuðum Maurildi var það enda markmiðið ásamt því að skemmta sjálfum okkur. Berangursleg hönnun og útlit vefjarins ber vitni um það auk þeirrar staðreyndar að síðan var sett upp í flýti og til bráðabirgða. En bloggformið setur þröngar skorður. Líftími færslna er örstuttur (álíka langur og tekur færsluna að færast af forsíðu Blogggáttarinnar) og eldri færslur týnast og gleymast í öfugri línulegri röðun bloggsins.


Vegna ofangreinds — og þess að ég er sá eini í þessum bræðrahópi sem kann eitthvað fyrir sér í hönnun og vefsíðugerð — hefur mér verið falið að endurhanna Maurildið og reyna að blása nýju lífi í það. Hugmyndin er að innan um hefðbundnar bloggfærslur verði ítarlegri og lengri greinar, hljóðvarp (podcast), fróðleikur, myndasögur og þvíumlíkt. Allt vafið saman í smekklegt útlit og flokkaskiptingu sem freistar þess að brjótast út úr stífu bloggforminu.


Af hverju skrifa ég um þetta núna þegar hugmyndin er enn á því stigi að vera Illustrator-skjal og hálfþýtt vefumsjónarkerfi? Jú, til útskýringar á því að ég hef ekkert skrifað hér undanfarna viku. Þar til bræður mínir drullast til að læra vefhönnun og hjálpa mér er ég í skrifverkfalli. Þeir geta séð um skrifin meðan ég sit sveittur yfir XHTML, CSS, PHP og öðrum æsispennandi skammstöfunum. Svei.

3 ummæli:

larush sagði...

Ég mæli samt með athugasemd frá Stefán Fr. sem hann setti á bloggið hans Péturs Tyrfingssonar á Eyjunni. Ekki annað hægt að segja en þar sé húmor, hvort sem maðurinn ætlaði sér að skemmta örðum eða ekki.

Nafnlaus sagði...

Ég vil taka það skýrt fram, að mér var ekki boðið að taka þátt í að hanna ný föt á þessa síðu. Bræður mínir geta ekki fullyrt um hæfileika mína eða hæfileikaleysi af neinu tagi. Ég gæti allt eins verið sniiiilllingur í vefhönnun, án þess að þeir hefðu hugmynd um það. Þetta er enn ein tilraun bræðra minna til að níða af mér skóinn, og ég sætti mig ekki við slíkt. Eða ..ehh..jú annars..ég sætti mig við það..það er ekkert sem ég get gert í málinu...
Að lokum vil ég benda á að ég vann þá báða í körfubolta síðasta sumar við barnaskólann á Akureyri, og óli fór í fýlu en Ragnar hugsaði í snatri upp 548 bjánalegar afsakanir fyrir tapinu. Það breytti þó ekki úrslitunum og þetta var notarlegur dagur :)
Bóla

Nafnlaus sagði...

Áhugavert með þessa snörpu umræðu sem Jónas lýsir, í henni tóku aðeins þátt karlmenn fæddir 1940-1960, þeir eru langflestir blaðamenn, hafa furðu mikinn áhuga á sjálfum sér en eru allir (nema Jónas) með minni lestur en t.d. Óli Gneisti skv. Blogggáttinni, þó að þeir séu þjóðkunnir menn.