25. mars 2008

Bingó og básúnur

Eins og bróðir minn hefur áður getið um tók ég þátt í bingói Vantrúar á föstudaginn langa ásamt honum, móður okkar til lítils yndis. Guðleg forsjón varð til þess að ég vann fyrstu umferð og það með tölunni B1 sem hlýtur að teljast dularfullt.

Bingóið var skemmtilegt, meðalgreindarvísitala viðstaddra var óvenju há og kúlfoktorinn að sama skapi lægri. Það var viðstöddum augljóslega nokkur vonbrigði að löggan skyldi ekki láta sjá sig – enda menn fíknir í aksjón.

Nú var það ekki til að snúa görninni í Guð sem ég mætti. Mín byltingarkennda nærvera var frekar andóf gegn hræsni en trúarbrögðum. Það er alveg glórulaust að halda að frelsaranum sé sýndur minni sómi með því að spila bingó en að bruna niður brekkur á skíðum eða hoppandi á rokktónleikum upp við heimskautsbaug.

Verðlaun mín voru bókin God is Not Great eftir Christopher Hitchens. Að sjálfsögðu tók ég mig til og kynnti mér kauða í þaula til að vita að hverju ég gengi. Sú rannsókn hefur leitt í ljós að hann er bresk/amerísk trúlaus útgáfa af Gunnari í Krossinum.

Báðir eru þeir Gunnar og Hitchens fyrrum sósíalistar sem síðan urðu afar hægrisinnaðir. Menn geta orðið sósíalistar af tveimur gjörólíkum ástæðum. Hjartans vegna eða heilans vegna. Gunnar og Hitshens urðu það heilans vegna, þeim fellur vel við heildræn hegelsk kerfi. Einhverja lógíska hugmynd um æskilega tilhögun hlutanna sem hægt er að láta ráða afstöðu til smárra sem stórra mála. Hjá Gunnari er þessi hugmynd guð, hjá Hitchens er hún guðleysi. Báðir eru þeir að auki afar hægrisinnaðir.

Hitchens sér enga ástæðu til annars en að krefjast réttar til haturs á trúarbrögðum. Hann notar gríðarleg fúkyrði og dónaskap í bland við ískalda rökvísi. Hann hefur ítrekað lýst stuðningi sínum við stríðið í Írak og daðrað við hrikalegustu afbrigði amerískrar þjóðerniskenndar. Hann hikar ekki við að kalla með landráðamenn ef þeir stíga á rauðbláar tær Sáms frænda.


Á sama tíma ræðst hann gegn Guði og öllum trúarbrögðum. Hann segir þau öllu spilla. Það hlakkar í honum þegar sjónvarpspredikarar deyja og hann fer ekki dult með það.

Það er ekki annað hægt en að álykta að Hitchens spili upp stælana í sér af praktískum ástæðum. Hann fær ahygli. Það vantar ofurhægrisinnaða guðleysingja í rófið. Það er hægt að hafa gott upp úr því.

En þrátt fyrir að hafa horft og hlustað á ótal deilur hans við aðra er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir honum. Hann hefur unnið hverja einustu rökræðu sem ég hef séð vegna betri rökstuðnings. Hann tók Saddamsvininn Galloway í nefið og markaðsrabbíninn Boteach sá aldrei til sólar gagnvart honum. Það er enda erfitt að rökræða við mann sem er sæmilega upplýstur og færir rök fyrir trúleysi eða annarri röklega heilsteyptri skoðun.

Hinsvegar opinberar orðræða Hitchens gallana í málflutningi margra trúleysingja. Jafnvel þversögn ef vel er gáð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn Ragnar
kveðja frá DK
Friðrik
Ps. hefurðu eitthvað kíkt á "njóttu" síðuna meira ?