Jæja, þrátt fyrir að hafa lagt mig fram um að gleyma afmælisdögum bræðra minna, þá einhvern veginn tókst mér ekki að gleyma þessum degi. Ragnar Þór, sá elsti okkar bræðra, fæddist á þessum degi við litla hrifningu, fyrir skrilljón árum síðan. Það hefur í raun enginn hugmynd um hvað hann verður gamall í dag og satt best að segja þá held ég að það sé öllum alveg sama.
En þrátt fyrir að hann þurfi ekki að búast við því að fólk muni almennt eftir þessum degi, þá er ákveðin huggun í því að mikilmenni eins og ég skuli muna eftir þessu.
Á svona merkilegum degi ber að líta aðeins um öxl.
Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram, því mér finnst afskaplega stutt síðan hann Ragnar var pínulítill aumingi með hor og slef. Það á sér kannski helst þá skýringu að það er í raun og veru mjög stutt síðan að hann var aumingi með hor og slef. En eins og allir sjá sem vilja, þá er hann enginn aumingi í dag. Hann er að vísu ennþá bæði með hor og slef, en aumingi er hann ekki.
En þrátt fyrir væskilshátt og aðra lesti, þá var Ragnar yfirleitt mjög góðhjartaður og elskulegur drengur. Ég skrifa „yfirleitt”, því hann var það alls ekki alltaf. Þegar ég hugsa betur út í það, þá var hann það bara andskoti sjaldan. Hann var til dæmis ekki byrjaður í grunnskóla þegar hann var farinn að gera sér það að leik, í götunni fyrir utan heimili sitt, að hrekkja gamlar konur. Þá elti hann þær læðupúkalega eftir gangstéttinni og lyfti svo „kerrunni” sem þær drógu gjarnan á eftir sér og höfðu í mjólkurdreitilinn. Við þetta urðu gamlar og lúnar konur sorgmæddar og reiðar, en Ragnar bara gretti sig og hló.
Ragnar hefur sem sagt alltaf verið hrekkjóttur og ljótur í sér. Það skiptir engu hver á í hlut og hann vílar ekki fyrir sér að hrekkja illilega þá sem næstir honum standa. Því fékk ég einu sinni að kenna á. Hann hringdi eitt sinn í mig og sagði mér að mikið fatlaður frændi okkar væri einn á flugvellinum í hjólastól og væri þar að reyna að komast leiðar sinnar án aðstoðar. Það passaði að þessi frændi minn var að fara í flug, svo ég fékk hjartaslag á stundinni. Það gerðist vegna þess að ég hef samvisku, tilfinningar og er góðhjartaður. Eftir að ég náði mér af hjartaslaginu tilkynnti Ragnar mér það glottandi í gegnum símann að hann hefði verið að hrekkja mig og svo hló hann. Hann vílaði sem sagt ekki fyir sér að beita föltuðum frænda mínum sem vopni, gegn sinni eigin fjölskyldu!
En til að gera langa sögu stutta, þá á bróðir minn sem sagt afmæli í dag. Hann lengi lifi, Húrra... Húrra... Húrra.
Til hamingju með daginn, bróðir.
4 ummæli:
Til hamingju með afmælið Hr. Ragnar.
Kv. Uppáhalds nemandi þinn
Til hamingju með daginn Ragnar
kv. annar nemandi
Mér finnst ekkert merkilegt að vera fyrstur með afmæliskveðjur, svo ég stefni að því að vera sá síðasti sem kemur að kveðju þann 26. mars 2008 samkvæmt UTC tíma.
Eigðu góðan afmælisdag (í þessa heilu mínútu sem eftir er af honum)!
Til að fólk haldi nú ekki að ég hafi gleymt afmælisdegi elsta sonarins, þá hafði ég nú bara samband við hann símleiðis og "árnaði heilla" í tilefni dagsins.
Skrifa ummæli