27. mars 2008

Guð er víst til!

Á afmælisdögum er við hæfi að hugleiða upprunann. Ég eyddi deginum m.a. í að lesa um deiluna í bænum Dover í BNA um það hvort kenna mætti sköpunarsöguna í líffræði. Þá skaut niður í kollinn á mér þeirri hugmynd að sjá hvort ég gæti ekki fengið sönnun fyrir tilvist Guðs í eitt skipti fyrir öll. Vissa er svo miklu betri en trú.

Nema hvað. Síðan sönnunfyrirtilvistguðspunkturorg lofaði mér snarlegri lausn. Fyrst stóð ég frammi fyrir 4 fullyrðingum um frumsannindi.

Telur þú ...

1) að frumsannindi séu til
2) að frumsannindi séu ekki til
3) þig ekki vita hvort frumsannindi séu til
4) að það skipti ekki máli hvort frumsannindi séu til


Frumsannindi eru síðan skilgreind sem sannleikur sem er jafn hjá öllum mönnum og á öllum tímum.

Þar sem ég ætlaði mér ekki að vera neitt meinhorn og eyðileggja allt strax ákvað ég að fullyrða að frumsannindi væru til, þótt ekki væru nema rökfræðilegar frumsetningar.

Þetta gladdi guðssönnunarþjarkinn sem tók þá ákvörðun að ég væri hæfur til þátttöku í hinni endanlegu Guðssönnun. Og viti menn. Fyrsta spurningin í sönnuninni var sú hvort ég tryði á grundvallarreglur í rökfræði!

Ó, já. Ég hélt það nú! Mér þótti nokkuð til síðunnar koma og ekki síður til mín fyrir að finna svona á mér hvað væri á seyði.

Og þá var ég spurður hvort ég tryði á grunnsannindi í stærðfræði. Ég var ekki alveg eins sannfærður um það en ákvað að þar sem stærðfræði er í grunninn ekkert nema rökfræði þá væri mér eiginlega ekki stætt á öðru en að jánka því.

En hvað með lögmál vísindanna?

Ja, jú, jú. Svo sem. Ég játaði þeim, en með dálítið óbragð í munni.

En siðferðilegt lögmál?

Nei, fjandakornið! Það eru ekki til nein algild siðferðislögmál. Hér var verið að seilast of langt. Ég ákvað að segja nei.

Og þá móðgaðist forritið og sagði: „Láttu ekki svona! Hvað finnst þér í alvöru?“

En nú hafði svarhnappurinn breyst. Þar sem áður stóð að ég héldi að til væru algild siðferðileg lögmál stóð nú:

Að misnota börn að gamni sínu er algjörlega rangt siðferðislega.

og

Að misnota börn að gamni sínu getur verið rétt.


Og yfir þessu stóð að hér væri verið að spyrja um MÍNA skoðun, ekki hvað ég héldi að einhverjum gæti þótt.

Hér fannst mér búið að stilla mér rækilega upp við vegg. Ef ég móaðist við þyrfti ég svo gott sem að gangast við því að vera barnaníðingur. Líkast til yrði IP-talan mín send í snarhasti til lögreglunnar.

En ég kann ekki við svona brellur svo ég fór að pæla betur í þessu. Fjandakornið. Ef barn er skilgreint sem allir undir 18 ára aldri og misnotkun er er skilgreind sem einhverskonar óviðeigandi framkoma við barnið þá hlýtur að vera sanngjarnt að segja að misnotkun geti verið afstæð. Einn geti talið það misnotkun að fara með barn á vakningarsamkomu í Krossinum en annar að fara með það í Vantrúarbingó.

Ég gæti því með góðri samvisku sagt að það geti verið rétt að misnota börn að gamni sínu að uppfylltum vissum skilyrðum.

Hvað sem löggunni líður ákvað ég því að smella á þann hnapp.

Þá fékk ég heillanga skammarræðu um það að VÍST væru til algild siðferðislögmál, annars væri bara allt í gúddí ef allt væri fullt af nasistum. Og ég tryði barasta víst á þau ef ég hætti þessu rugli.

Að því loknu var mér boðið að fara til baka og breyta svarinu eða smella á Exit. Og þegar ég smellti á Exit endaði ég inni á heimasíðu Disney.

1 ummæli:

Óli Sindri sagði...

Skemmtilegt. Ég ákvað að fylgja þessu til enda til að sjá hver röksemdafærslan yrði (ég þurfti bara að samþykkja að auki að rökfræði-, stærðfræði-, vísinda- og siðferðislögmálin væru abstrakthugtök og þar að auki óbreytanleg og algild — ekkert mál).

Og niðurstaðan er sem sagt:

„Only in a universe governed by God can universal, immaterial, unchanging laws exist. Only in a universe governed by God can rational thinking be possible. We use rational thinking to prove things. Therefore...

The Proof that God exists is that without Him you couldn't prove anything!”

Glæsilegt. Ég er sannfærður.