9. febrúar 2008

Um mannlega reisn

Atburðir síðustu daga hafa kveikt hjá mér gamlar pælingar um mannlega reisn. Mannleg reisn, í sinni einföldustu mynd, er persónuleg eða félagsleg tilfinning fyrir gildi þess að lífinu sé hagað eftir einum eða öðrum hætti. Eins og flestar mannlegar tilfinningar flæðir hún um þá farvegi sem meðlimir samfélagsins hafa grafið henni. Hún er því afar vafasamur dómari um rétt og rangt.


Ég las t.a.m. gamalt, frægt fjölfræðirit um kynhegðun og kynlíf fyrir ekki svo löngu. Þar var rætt um kynhegðun unglinga með þeim hætti að sjálfssaurgun (self-abuse) sú sem fælist í sjálfsfróun væri til marks um sjúkan og/eða frumstæðan huga og/eða uppeldisaðstæður. Tekið var til þess að sjálfsfróun, með öllum sínum geðrænu og líkamlegu fylgikvillum) væri algengari hjá sveitabörnum sem væru vön líkamlegum átökum og erfiði.



Sjálfsfróun er líklega skýrasta dæmið um það hvernig mannleg reisn hefur verið notuð sem hvatning til fullkomnlega andstæðra athafna. Áður fyrr var hún til marks um einbeittan brotavilja gegn mannlegri reisn (einbeittan vegna þess að menn stunduðu hana þrátt fyrir hættuna á þeim sannindamerkjum sem fælust í blindu, loðnum lófum og öðrum líkamlegum einkennum) en í dag þykir fátt betur til marks um mannlega reisn en svokallað heilbrigt viðhorf til kynferðismála.


Þrátt fyrir að kyndill mannlegrar reisnar hafi í gegn um tíðina verið borinn um villigötur þá held ég að hún sé lykilatriði mannlegrar tilvistar. Ég er sammála Viktori Frankl um það að ein af dýpstu rótum manna sé tilgangsþörfin. Menn þrífast ekki til lengdar án tilgangs og lykillinn að hamingjunni virðist vera sú sátt sem menn finna í tilgangi sínum þegar þeir telja hann til marks um mannlega reisn.



Á endanum þarf hver að lifa sínu lífi sjálfur (þótt vissulega sé í boði að framselja vilja sinn, t.d. ef maður kemst í þrot). Mannleg reisn er á endanum persónubundin, þótt hún þrífist best í samfélagi við aðra.


Og þá að þeim viðfangsefnum síðustu daga sem kveiktu þessar pælingar.


Óli Sindri sagði að umræðan um bláeygða íslamista og íslamófóba snérist um kurteisi. Einhverjum fannst það bráðsnjallt, öðrum arfaslakt. Ég held að það sé heilmikið til í því hjá Óla.


Önnur fylkingin vill tala um almennar reglur, hin um háttvísi. Oftar en einu sinni hafa rök á borð við þessi heyrst:


Ég vil ekki að það sé bannað að birta myndir af Múhameð, ég einfaldlega sé ekki hvers vegna einhver ætti að vilja það.

Allt karp um einfaldanir, samanburður á fórnarlömbum hryðjuverka og styrjalda, rasismi og annað slíkt eru röksemdir sem geta haft heilmikil áhrif á persónulega afstöðu en koma almennum reglum sáralítið við (að öðru leyti en því hvernig persónulegar afstöður birtast almennt í reglum).



Annað álitamál snertir óheflað málfar og/eða list. Dr. Gunni gekk á línunni um daginn á mótmælaplötu sinni, Óli Sindri var kominn langleiðina yfir hana í skömmunum til Hörpu (sem ég held að hafi gegnt þeim eina tilgangi að sýna Hörpu að víst gæti hún tekið að sér hlutverk fórnarlambsins í netslag, sem hún taldi óhugsandi vegna skylmingafimi sinnar). Og dæmin eru óteljandi. Gillzenegger og ummæli hans um femínista. Eyvindur Karlsson og ummæli hans um Einar Bárðarson.


Aftur snýst þetta um mannlega reisn og enn get ég sagt.


Ég vil ekki að óheflað málfar sé bannað, en ég skil ekki hvers vegna einhver ætti að hafa áhuga á að nota það.

Ég held að Nýhil hafi hnikað umræðum um þessi mál í rétta átt (en held að þeir hafi gert grundvallarskyssu þegar þeir sögðust vilja flækja umræðuna í stað þess að gera hana markvissari). Þetta snýst allt um persónulega afstöðu. Það á að gera ríka kröfu á fólk um að taka persónulega afstöðu og verja þá afstöðu. Til hvers að hæðast að trú múslima í Danmörku af öllum löndum? Hvers vegna vill Egill Helgason eða Ágúst Borgþór að það sé gert? Myndu þeir taka beinan þátt í því sjálfir í stað þess að tala um málfrelsið almennt og yfirleitt? Af hverju ekki að hengja Múhameðsmyndir upp í Kabúl eða Ríad ef mönnum liggur eitthvað á hjarta?



En menn þurfa einnig að vera viðbúnir því að fólk taki aðra persónulega afstöðu en þeir sjálfir. Þannig getur vel verið að einhver verji skopmyndabirtinguna með þeim rökum að þeim sé ætlað að sýna hvernig aukin fjölmenning hafi myndað straumröst í samfélaginu, endurskapað tilhneigingu til ritskoðunar. Menn þurfa líka að hlusta á þær hugmyndir að menning sé ekki öll jafngild og að upplýsingin hafi skilað vestrænni menningu vissum samfélagslegum úrbótum sem sumir angar fjölmenningarinnar hafi farið á mis við.


Tilfinning fyrir mannlegri reisn hefur alla tíð getað birst í andstæðum straumum. Vestrænir vinstrimenn eru margir staddir í látlausu iðukasti slíkra strauma. Oft á tíðum vegna þess að ekki er greint nógu tryggilega á milli vettvangs almennra reglna og persónulegrar afstöðu. Oft vegna þess að fólk fer að telja að almennar reglur séu eldurinn sem skaraður er að kökum persónulegrar afstöðu. En um leið og almennar reglur fara að draga markvert úr möguleikum manna á persónulegri afstöðu þá er líklegt að samfélagið sé á leið í öfuga átt.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var nákvæmlega svona sem ég skildi ljóta kommentið hans Óla Sindra (ætti ég að segja Mengellu?)

HJarpa hótaði að hún væri ósigrandi í netstríði og yrði ekki fórnarlamb og Óli Sindri gerði hana að fórnarlambi í snarhasti.

Mjög gróft en mér fannst það fyndið.

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt!