11. febrúar 2008

Ögn um hroka


Hroki er bækluð sjálfsvirðing. Hann er landlægur sjúkdómur hjá unglingum sem enn hafa ekki mannast nóg til að umbreyta hrokanum í raunverulega sjálfsvirðingu. Og stundum verður sjálfsvirðingin að hroka þegar hún tapar grundvelli sínum — t.d. þegar maður bíður skipbrot á sálinni.


Ég hef þegar lýst dálæti mínu á vefpersónu Hörpu Hreinsdóttur. Sú lýsing var að öllu leyti ærleg. Ég hef líka lýst áhyggjum mínum af því varnarleysi sem fólk, sem glímir við geðsjúkdóma, stendur frammi fyrir í netsamskiptum. Ég tók Hörpu sem dæmi um slíkt, vegna þess að hún lenti í stórkostlegu einelti Barnalandskvenna fyrir nokkrum misserum. Og gott ef DV skellti sér ekki í málið líka. Harpa sagði sjálf á þeim tíma að það sem þá skeði gæti verið hættulegt fólki eins og henni ef víxlverkun árása og andlegra báginda næði að eiga sér stað.


Forsaga málsins var sú að Harpa skrifaði á bloggið sitt heimsósómafærslu um stöndugleika nemenda. Það hlaut öllum að vera ljóst að grínið væri góðlátlegt (þótt efast megi um hvort yfirhöfuð sæmi kennurum að gera gys að nemendum sínum opinberlega). Úr varð heljarinnar slagur sem m.a. eiginmaður Hörpu var dreginn inn í af fullkomnu smekk- og dómgreindarleysi. Harpa er valkyrja og slóst á móti af mikilli hörku. Hún lítur enda á sig sem ósigraðan netslagsmálahund enn í dag.Nema hvað, fyrir nokkrum dögum fór einhver doppelganger að sveima um að þykjast vera Hildigunnur. Þar sem þessi doppelganger skrifaði athugasemd á bloggið hennar Hörpu og Harpa vaktar haukfrá allar ferðir um bloggið sitt, þá ákvað hún að þar sem einhver sigldi undir fölsku flaggi á hennar miðum þá væri ekki nema rétt að hafa samband við Símann og sjá þeir myndu ekki snara fram heimilisfangi þess sem ætti seku IP-töluna. Hjá Símanum talaði hún við eitthvað nóboddí og komst að því (sem gat ekki komið henni á óvart) að fölsk flögg jafngiltu ekki dómsúrskurði. Hún grínaðist svo eitthvað um vanþróun netsins (vafalaust af sömu kunnáttu og áður hafði vakið með henni hugboð um að einhver þriðja klassa tæknimaður hjá símanum myndi hósta upp heimilsfangi vofunnar) og greip til þvældasta og klisjukenndasta brandarans í bókinni, Lúkasarfársins. Frá öllu þessu sagði hún skilmerkilega á blogginu sínu. Og hún hringdi í lögguna.


Löggan vildi ekkert fyrir hana gera og var á löggunni að skilja að hún væri orðin leið á Hörpu og hennar hyski. Og um allt þetta bloggaði Harpa jafn skilmerkilega og áður.


Þegar hér var komið sögu var mér farið að líða illa undir lestrinum. Mér fannst ekki eðlilegt að reyna að kreista IP-tölu út úr Símanum og mér fannst enn síður eðlilegt að ætla sér að kæra einhvern fyrir að þykjast vera einhver annar í kommentakerfi á blogginu manns. Og ég hugsaði að nú hlyti doppelgangerinn að ískra af kátínu því hann væri búinn að koma íslenskukennaranum á slíkt flug og meira að segja búinn að véla Hörpu til að láta lögguna móðga sig opinberlega. Í nokkuð langri bloggfærslu um geðveiki og netið tók ég þetta litla dæmi með sem ábendingarskilgreiningu um það hvernig illvirkjar geta ært óstöðuga á netinu. Enn beinskeyttari dæmi gætu verið þau að senda einhverjum þeirra sem augljóslega eru illa haldnir af geðklofa skuggalegar skipanir í nafni Kölska.


Harpa sagði að allar áhyggjur væru óþarfar, hún hefði bjargir sem fleyttu sér yfir holskeflurnar, auk þess væri hún svo miklu gáfaðri en allt fólkið sem hefði amast við henni. Hún gat svo ekki stillt sig um að koma með litla eiturpillu um að hér væri egg að gagga að hænu.


Ég gerði þær athugasemdir við svör hennar að ég efaðist um að bjargirnar væru þær bestu ef hún teldi virkilega að maður tæki á svona málum með því að reyna að bítta á IP-tölum og kennitölum og kæra til lögreglunnar. Að auki sagðist ég efast um hina einföldu sýn, að slagir Hörpu við aðra netverja væru vegna þess að hún hefði stundum gaman af því að lemja á heimskingjum. Loks benti ég henni á að eiturpillur væru algjör óþarfi.Harpa svaraði með stórundarlegri færslu. Hún hafði greinilega gúglað mig til að geta nú komið með verulega safaríkt kombakk. Hún vandaði sig þó ekki meira en svo að hún misskildi megnið af upplýsingunum sem hún fékk til baka. Það hélt henni þó ekki frá því að springa út í yfirgengilegri hrokasinfóníu:


Ja, nú er stóra spurningin hvort ég á að taka mark á mínum góða geðlækni (sem ég hitti síðast í fyrradag) eða grunnskólastjóranum á Klaustri, með sitt Ukk og Paed úr Kennó ... erfið spurning? Nja, ég held ekki.


Mér er auðvitað alveg skítsama um vanþekkingu einhvers seminarista á öryggismálum Netsins ... hélt reyndar að fólk hefði eitthvað lært af Lúkasarmálinu en það hefur sennilega ekki skilað sér austur fyrir sanda ... hélt líka að Salvör eða Torfi minntust á einhver grunnatriði í KHÍ en það er greinilega misskilningur.


Til að bíta höfuðið af skömminni (o, já, ætli ég sé ekki bara á hraðleið norður og niður núna?) þá hvarflar ekki að mér að taka mark á suðurþingeyingi með stopult minni (sbr. ummæli um baddnalandshasarinn forðum), jafnvel þótt sá sami beiti fyrir sig utanbókarlærðum klisjum úr Epiktet.


Ein ráðlegging að lokum (af því inn við beinið er ég svo næs og góð): Ekki reyna að fara í netslag við mig, Ragnar - þú átt enga möguleika í svoleiðis! Nema þú viljir skemmta mér í fórnarlambshlutverki?


Ég gerði leturbreytingarnar. Það sem er feitletrað er ýmist til marks um útúrsnúning, vanþekkingu eða hroka. Þau orð sem ekki eru feitletruð eru síðan ekkert nema staksteinar á milli feitletrana.


Ég hef aldrei numið í Kennó, aldrei í tíma til Salvarar eða Torfa komið, hef hreint ekki stopult minni en samt ekki nógu gott til að muna klisjurnar hans Epiktets utanbókar (þótt ég hafi vissulega umorðað nokkrar tilvitnanir í færslu um það hvað mikilvægast væri að skólar kenndu). Ég er ekki Suður-Þingeyingur en teldi það þó upphefð ef svo væri. Kommentin um þann meinta uppruna og afdalaháttinn sem á að felast í því að búa öðru meginn við sand en Harpa eru bæði heimskuleg og hjákátleg. Ekkert í færslunni er þó bjánalegra en sú hótun að hún geti buffað mig í netslag. Og að hún myndi berja mig með bros á vör.Svona skrifar kona sem á sama tíma vill stimpla sig inn sem afar reynda og siglda sál sem ég gæti nú lært mikið af um lífið.


Ég kaus að stöðva þessa umræðu um leið og ég las þetta. Ástæðan var sú að þar sem ég var ekki viss um hvort ég væri að fást við sjúkling eða óheflaðan hrokabelg og dóna, þá léti ég hana njóta vafans og þegði.


Óli Sindri tók annan pól í hæðina og sendi henni ógeðslega eiturgusu til baka í mengelskum anda. Ég fordæmdi það athæfi og geri enn. Hann gerði það til að sýna henni að hann væri síst hræddur við að fara í netslag og eins til að leyfa henni að máta fórnarlambshlutverkið.


Hélt ég að málið væri úr sögunni. Þar til ég fékk tölvupóst frá Óla Sindra þar sem hann benti mér glaðhlakkalegur á að Harpa væri að ná aftur vopnum sínum eftir að hafa barmað sér undan eiturtungu hans á sínum heimavelli. Nú hafði Hörpu dottið í hug að það gæti verið ofsalega sniðugt að hæðast nú hressilega að okkur báðum, og ekki bara okkur, heldur Birki Frey líka (því þá gæti hún notast við Bakkabræðrasamlíkingu, en þeir eru að norðan eins og við) og svo væri alveg drepfyndið að draga karl föður okkar inn í glensið líka. En hún lét sér nægja í þetta skiptið að benda rétt sisvona á að hún gæti vel yddað háðsfjöðurina ef hún vildi — en hún ætlaði nú ekki að gera það.


Því miður ber framganga Hörpu ekki vott um þær leiftrandi gáfur eða þá orðheppni sem eru hennar aðall og hafa orðið þess valdandi að ég ber fyrir henni djúpa virðingu eftir sem áður. Hennar aðalsmerki hefur verið hroki og misheppnuð fyndni. Og ef það er drulluslagur sem hún vill þá stíg ég hér með til hliðar. Ég mun ekki taka þátt í því. Ég þykist þó vita að Óli Sindri er meira en til í það (enda vafalaust farin að fá fráhvarfseinkenni eftir að hann drap Mengellu), ég gæti jafnvel trúað Birki Frey til að taka slaginn með bróður sínum ef á hann er ráðist. Og ég efast raunar um að Harpa myndi endast margar lotur í þeim bardaga.


Ég vona þó að málið fjari hér með út og að við getum snúið okkur að gáfulegri hlutum eins og þeim að fá loks inn ferðasögu Birkis frá Liverpool sem hefur tafist vegna þess að hann hefur legið í kör síðan hann kom heim vegna þursabits — og svo vænti ég að nýr bakþanki sé væntanlegur frá Óla.


Hörpu vil ég benda á að hafi hún geð í sér til þess þá er hún ævinlega velkomin í kaffi langi hana að æja hér á milli sanda, netfangið mitt er við prófílinn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæru synir, hér er föðurleg ábending.


Ég ætla bara að biðja ykkur að láta ekki dapurlegan Hörpuslátt fara í taugarnar á ykkur eða trufla ykkur á annan hátt, auk þess ætlast ég til þess að þið hafið ekki alveg gleymt því að það er ekki til siðs í okkar fjölskyldu að níðast á minni máttar.

Pabbi.

Nafnlaus sagði...

Sko, aftur, burtséð frá geðveiki og hroka (hvorum megin borðs sem hann nú er) vil ég ítreka að þú mislest algerlega doppelgängerinn minn, hann/hún var ósköp lítið að ráðast að Hörpu, enda myndi viðkomandi þá ekki hafa haldið áfram?

Hin óekta Hildigunnur hefur ekki sést í 10 daga. Hefði hún haldið áfram hefði ég kært, með aðstoð Hörpu, eins og hún var búin að bjóða mér. Þetta var aðför að mínu mannorði, þar sem ég blogga undir fullu nafni og athugasemdirnar sem hún setti inn var allt eitthvað sem ég vil ekki láta bendla mig við.

Harpa æsti sig mjög takmarkað yfir málinu, hringdi tvö símtöl og skrifaði færslu. So what? Skil hana hins vegar vel að vera súra yfir mengellsku athugasemdinni - það hefði ég orðið líka :p