9. febrúar 2008

Enn í Borginni


Ég vitna í Vilhjálm Þ. fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóra:


Já, ég veit alveg að ég klúðraði þessu algjörlega og hef enga afsökun fyrir því, en ég er búinn að biðjast afsökunar. Já og svo hef ég alltaf verið svo rosalega góður strákur, alveg í tuttugu og fimm ár sko (nú er rétt að fella nokkur tár). Já, sagði ég það þá? Og svo eitthvað allt annað nokkrum dögum seinna? Eða nei, ég bara man það ekki. En ég hef alltaf reynt að gera mitt besta fyrir Borgina og kjósendur, eða allavega alveg þar til bara núna um daginn, og þá var það alveg óvart, já og líklega bara einhverjum öðrum að kenna.

Andskotans* kjaftæði er þetta? Getur maðurinn ekki bara drullast til að segja af sér? Hann er búinn að hanga á spenum hins opinbera í tuttugu og fimm ár og sjúga grimmt, allt sem hægt hefur verið að sjúga. Sem betur fer hafði ekki mikið borið á honum en eftir að hann komst almennilega í kastljósið varð fjandinn laus, og svo allt til andskotans þegar hann varð borgarstjóri, eintómt klúður á klúður ofan.


Þetta er bara orðið nóg, og nú eigum við bara að sætta okkur við að hann verði borgarstjóri aftur eins og ekkert hafi í skorist. Ég segi nei, og aftur nei, út með manninn, andskotinn hafi það.


Ólafur Ragnar Hilmarsson


*Ég fékk athugasemd við síðasta pistil, frá sonum mínum, um að mér væri alveg óhætt að skrifa „andskotinn” og fleira úr þeirri deildinni á þessa síðu, ég þakka ábendinguna og mun því framvegis skrifa hér eins og ég er vanur að tala, ég vona bara að synirnir sjái ekki eftir að hafa bent mér á þetta.

Engin ummæli: