1. febrúar 2008

Trúðar rúnka sér líka


Danski gamanþátturinn Klovn tók af okkur hjúunum ómakið í gærkvöldi og sá um þá hlið kynfræðslu eldri dótturinnar sem snýr að sólókynlífi.

Við sátum öll saman (og Óli Sindri frændi sem er í heimsókn) í stofunni. Stemmningin var létt. Ísblóm höfðu horfið á vit ævintýranna niður um vélindun á okkur og við höfðum skemmt okkur við að horfa á gamanþætti í tölvunni þegar okkur varð skyndilega ljóst að Klovn væri að byrja. Þar sem við höfum þáttinn í miklum metum var allt annað látið niður falla og tekið til við áhorfið.

Eftir aðeins nokkra mínútna áhorf kom sögnin „ríða“ fyrir í skjátextanum. Dóttirin brást við með því að líta þungbrýnd á foreldrana. Augun sögðu: „hver andsk...“ en þar sem allir hinir fullorðnu (að Óla S. undanskildum) voru eins og nýuppteknir erkienglar á svipinn ákvað hún að þetta hlyti að hafa verið einhver misskilningur og snéri sér einbeitt að því að horfa á trúðslætin.

Þar fékk hún fyrstu ærlegu lexíuna í því hvað gerist þegar maður treystir á hið góða og saklausa í heiminum. Í stað þess að láta sér viðbrögð heimasætunnar að kenningu verða færðust leikararnir á skjánum í aukana. Og í þetta skiptið létu þeir sér ekki nægja að pína þýðandann til að skrifa þetta óhugnanlega orð heldur tortímdu þeir hinni blessunarlegu tvíræðni orðsins (sem nú var orðið síðasta haldreipi dótturinnar) með afgerandi líkamstjáningu. Ungfrúin gaf frá sér dimmt hljóð sem lýsti þeirri andstyggð sem opinber atlot ellihrumra hljóta að vera öllum yngri en fjórtán. Hún kaus þó að fara ekki að þeirri ráðleggingu að hætta bara að horfa á þetta en hafði varann á sér. Ef eitthvað verulega krassandi bar fyrir augu horfði hún á það á milli útglenntra fingra í laumi.

Þá fór fólkið að fróa sér.

Hafi orðið „ríða“ kallað fram varkárni og viðbrögð, þá tók steininn úr þegar þátturinn fór skyndilega að snúast um misopinberar sjálfsfróanir. Aðalpersónan virtist í ólæknandi þörf fyrir að stunda sjálfsfróun hvar og hvenær sem tækifæri gafst og naut dyggilegrar aðstoðar besta vinar síns sem lagði til myndrænt hjálparefni. Á nokkrum mínútum féllu tjöldin frá veröld fullorðna fólksins og þarna sat stúlkuræfillinn stjörf og horfði á foreldrana og frændann, fulltrúa hins fróandi fólks, eins og hún væri að sjá þeirra réttu andlit í fyrsta skipti. Hún dvaldist dálítið við svipinn á Óla Sindra sem líklega var heldur sjálfsfróunarlegri ásýndum en hin tvö.

Þegar þættinum lauk hafði hnátan fullorðnast mjög. Hún tautaði nokkur orð um að sér dámaði ekki og óttaðist nú ekkert að grípa til þeirra nafnorða og sagna sem Ríkissjónvarpið hafði boðið óvænt upp á sem „orð kvöldsins“. Það var hnarreistur og sigldur unglingur sem fór og burstaði tennurnar og kom svo að bjóða góða nótt. Í þetta skiptið leit hún ögn lengur í augu okkar (sérstaklega Óla S.,) og ég er ekki frá því að hún hafi glott þegar hún snérist á hæli og hélt til bælis.

Það er ástæða til að þakka sjónvarpsstöðvunum fyrir að hjálpa til við hið vandasama uppeldi unglinga með dagskrárefni sínu. Það væri jafnvel enn betra ef einhversstaðar væru aðgengilegar upplýsingar sem áhugasamir foreldrar geta nýtt sér. Í Dagskránni stæði: „Í CSI:Miami í kvöld verður kona drepin af manni sem hún kynnist á MSN, gráupplagt sem innlegg í fræðslu um tölvunotkun.“ eða „Doktor House í kvöld ætti að vera einkar áhugaverður fyrir foreldra barna sem ekki eru dugleg að drekka mjólkina sína.“

Ég vona að næsti Klovn kenni hvernig hætta má að gera göt á sokkana sína því ég þykist vita að dóttirin muni horfa á þáttinn af óskiptri athygli.

7 ummæli:

Friðrik sagði...

Sæll félagi,
Snilldar færsla ég hló mig máttlausan.
Bið að heilsa frá Danmörku
Friðrik..

Ps. hvar eru fréttirnar af þér og þínum ?

Ragnar Þór sagði...

Blessaður, gamli ven.

Fréttirnar koma, er að snurfusa þær þessa dagana – verða alveg æsisgengnar á endanum.

Berast á allra næstu dögum.

Bið að heilsa frúnni.

kv
R

Anna Valdís sagði...

Þessi þáttur var hrein snilld! Hef aldrei horft áður á þessa þætti og bjóst ekki við miklu... Fannst atriðið þar sem "vinurinn" fór í keppni við "doktorinn"... ótrúlega fyndið.

Á reyndar ekki ungling, bara lítið barn sem var löngu sofnað :o)

Kv. Anna Valdís

Halli sagði...

RÚV ætti að sjá sóma sinn í því að vera ekki að halda klámi svona að börnum og unglingum.

Ofbeldið, það er allt annað mál. Meira meira blóð, kýla, berja, slá farðu svo frá.

Nafnlaus sagði...

Aha.

Hér eru umrædd skrif „um” dóttur ÁBS (úr athugasemdum við færslu um Lúkasarmálið):

Ágúst Borgþór.

Dómur minn yfir téðum Helga var af nákvæmlega sama tæi og dómur þinn yfir viðskiptavinum TGIF. Hann byggði á lýsingu kauða á sjálfum sér, áhugamálum hans og, ekki síst því, að flest allar athugasemdir í kommentakerfi hans voru frá klofblautum stelpum á aldur við dóttur þína.

Lesskilningur versnandi fer.
Óli Sindri (X Mengella)

Nafnlaus sagði...

Hvort er dapurlegra? Ólafur Sindri, lánleysingi með sérgáfur og hneigð til barnungra telpna eða eldri bróðir hans sem bloggar fjálglega um kynferðislega misnotkun á yngsta meðlimi fjölskyldunnar?
Já og við skiljum alveg það sem við erum að lesa, allt of vel. Því miður.

Óli Sindri sagði...

Ég held reyndar að þessi athugasemd hafi toppað dapurleikaskalann.