23. febrúar 2008

Samantekt

Ég ákvað að henda nokkrum línum á blað til að dyggir aðdáendur mínir fengju að sjá einhvern rauðan lit á þessu bloggi. Bræður mínir eru svo sem búnir að vera duglegir við að bulla um ekki neitt síðustu dagana, og ég hugsaði með mér, að ég gæti nú alveg eins bullað eitthvað smá, þó ekki væri nema bara rétt til þess að auka á litaflóruna hérna.

Þessi færsla er sem sagt ekki um neitt sérstakt og skemmtanagildið er eftir því.

Ég las einhversstaðar um daginn að margir hefðu farið flatt á hlutabréfakaupum síðustu misserin. Sá sem fjárfesti í Enron fyrir þúsundkall á sínum tíma, ætti rúmar 5 krónur eftir í dag. Ef hann hefði sett þúsund kallinn í Delta Airlines, þá ætti hann rúmar 6 krónur. Svipaða sögu er að segja af mörgum fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði. Ef maður hefði nú hinsvegar bara tekið þennan þúsund kall og hoppað í ríkið og keypt sér bjór fyrir hann, selt svo dósirnar eftir kenderíið, þá ætti maður rúman 50 kall eftir! Lærdómurinn sem má draga af þessu er án efa sá, að það borgar sig frekar að sitja heima og sötra öl, í stað þess að vera að gambla með peninga á hlutabréfamarkaði!

Talandi um peningaáhættu, þá heyrðist í vikunni að nafni minn og þingmaðurinn Birkir Jón hefði verið að spila póker í einhverri sóðakytrunni og unnið 18.000 kall. Alveg er mér nákvæmlega sama hvort Birkir græðir sína peninga í póker eða Lottói. En það eru ekki allir jafn „heppnir“ og þingmaðurinn við spilaborðið. Ég fór nefnilega sjálfur og spilaði fyrir nokkra hundrað kalla í gærkveldi. Það er skemmst frá því að segja að ég kom heim með talsverðan gróða, eða 4500 krónur. Það tilkynnist hér með, að þetta fé verður ekki gefið upp til skatts og ég á ekki von á öðru en að ég komist upp með þennan hroðalega glæp sem ég framdi. Það má svo fylgja sögunni að við félgarnir eyddum 12 klukkutímum í þessa vitleysu, svo ekki var nú tímakaupið gott. Ég kom heim angandi af bjór klukkan hálf níu í morgun og var hundskammaður af konunni minni fyrir þennan fíflagang. Þessir fimm seðlar sem ég veifaði framan í hana dugðu ekki til að kaupa mér fyrirgefningu að nokkru leyti og um stund hvarflaði að mér að ljúga því að ég hefði unnið 200.000 kall, svo hún yrði minna reið. Á síðustu stundu ákvað ég þó að taka þær skammir sem ég átti skilið, frekar en að vera blankur næstu mánuðina.

Þrátt fyrir að ég eigi ekki skilið að fá að fara út úr húsi næstu 6 mánuðina, þá fékk ég nú samt leyfi til að skreppa út og horfa á Liverpoolleikinn með félögum mínum í dag. Það var ákaflega gleðilegt, því mínir menn unnu 3-2, þó spilamennskan hafi ekki verið sannfærandi. Gullpungurinn Fernando Torres skoraði þrennu og sýndi okkur það svart á hvítu í enn eitt skiptið að hann er hverrar krónu virði, og líklega er hann það besta sem hefur komið fyrir Liverpool í 15-20 ár. Hvers vegna Rafa gengur svona illa í deildinni er mér alveg fyrirmunað að skilja. Ég er kominn á þá skoðun að hann vinni líklega ekki deildina við stjórnvölinn hjá Liverpool, og því sé réttast að skipta um stjóra í vor. Það er óháð gengi okkar í Meistaradeildinni, því þó svo að maður þrái sigur í þeirri keppni, þá er kominn tími til að leggja áherslu á deildina. Áfram Liverpool að eilífu!
 
Mér finnst nauðsynlegt að þessi fótboltapistill endi á þann hátt að það sjáist að sá sem skrifaði hann sé algerlega blindur á sitt lið, og út úr korti óþroskaður. Þess vegna segi ég: Þið sem haldið ekki með Liverpool, vitið ekkert um fótbolta og eruð bjánar : )

Jæja, nú var yngsti sonur minn, sem líklega er fallegasta 2ja ára barn á Íslandi, að æla enn eina ferðina, og kominn tími til að halda áfram að taka út refsinguna fyrir pókerkvöldið og fara og þrífa það upp.

Passið ykkur í umferðinni og hættið að drekka kaffi !

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

:)

Þú ert betri þegar þú talar ekki um neitt sérstakt sem er í raun mjög sérstakt og sérstaklega á sérstakan hátt. Any way góður.

GS