Það má kannski segja að ímyndarvandi Sjálfstæðisflokksins endurspeglist í þessari mynd:
Þetta er opinbera myndin af Geir Haarde við færsluna um hann á Wikipediu. Þetta er ekki mynd af nútímalegum og sjálfstæðum stjórnmálaleiðtoga. Til að byrja með virkar myndin eins og hún hafi verið tekin á Nixon-tímanum. Uppsetningin á henni er glötuð (svona ljósmyndalega séð) allt frá „FI AND“ í neðra vinstra horni til einnar krumlu á málverki í efra hægra horni. Ameríski fáninn og sú staðreynd að færsluhöfundur sér ekki ástæðu til að láta sjást framan í ráðherrann talar sínu máli. Skýrast af öllu er þó að enginn sem stendur nærri Geir hefur séð neina ástæðu til að reyna að lagfæra þessa hraksmán sem hið hálf-opinbera andlit hans er þeim hluta veraldarinnar sem notar Netið. Til samanburðar virðist Mugabe vera nútímalegur og hreint út sagt góður gæi á sinni mynd:
Þegar einum stjórnmálaleiðtoga er orðið minna mál að halda andlitinu en Róberti Mugabe sjálfum – þá er eitthvað að.
Síðustu vikur höfum við séð Vilhjálm Þorn tafsa, gleyma, líta flóttalega undan, humma, ljúga, leggjast ítrekað undir feld og koma alltaf jafn ráðalaus undan honum aftur.
Við höfum séð Gísla Martein og Hönnu syngja bakraddir undir sólóum Villa, hverfa úr bakröddunum og syngja sóló, hætta að syngja sóló og byrja á bakröddum aftur, hverfa ítrekað út fyrir þjónustusvæði farsíma, laumast út um kjallaradyr og strjúka úr Valhöll frá tveimur auðum stólum við hlið Villa.
Við höfum séð Geir moka snjó af bílnum sínum og þykjast vera heyrnarlaus, við höfum séð Geir verða heyrnarlausan á listasýningu, við höfum séð Geir setja Villa afarkosti sem Villi síðan hunsar.
Það sem Sjálfstæðisflokkinn vantar alls ekki er skapvondur knattspyrnuþjálfari úr frændgarði Haarde-familien (þar vantar raunar ekki fleiri úr þeirri átt almennt) sem nær að berja samstöðu í liðið. Það sem vantar er einhver sem getur kennt þeim að koma ekki fyrir eins og flaumósa og ögn ráðalausir baktjaldaplottarar með engan sans fyrir því hvað er viðeigandi og hvað ekki.
Eitt dæmi um taktleysi: Það var ótrúlega misráðið af Geir að koma fram og segjast vilja greiða bætur til Breiðavíkurdrengjanna en slá næstum samstundis þann varnagla að menn skyldu nú ekkert vera að búast við neinum upphæðum. Þetta, sem átti að vera stund Breiðavíkurdrengjanna og verðskuldaður móralskur sigur, var eyðilagt af þumbaralegum bókhaldara sem skyndilega skaust fram í annars frómum manni.
Annað dæmi: Blaðamannafundurinn í Valhöll var hreint og tært fíaskó. Biðin, slagurinn við ljósmyndarana, auðu stólarnir, sú staðreynd að fundurinn var um ekki neitt (eins og tilkynningin í dag var um ekki neitt).
Línan sem borgarstjórnarflokkurinn valdi sér („Við erum búin að takast á um ágreininginn og stöndum nú saman sem einn maður“) er ekki nógu burðug. Það er ekki hægt að lýsa yfir óskoruðu trausti við einhvern sem en um leið svíkja gerðan samning um að viðkomandi verði borgarstjóri. Eina rökrétta ástæðan fyrir því að Hanna Birna er ekki yfirlýst borgarstjórnarefni flokksins er sú að innan hans ríki sundrung. Þar með er gríman brotin. Það verður að finna nýjar línur og það verður að finna einhvern sem kann að stýra atburðaráð betur en þetta.
Boltinn er hjá Geir. Hann getur komið fram og sagt að þetta sé ekki nóg. Ef hann gerir það mun Sjálfstæðisflokkurinn í borginni stórgræða, frumkvæðið kemst aftur til flokksins eftir langvarandi nauðvörn. Hann getur kannski ekki sett Villa af en hann getur sagt að staða hans sé orðin óverjandi og um leið gefið gungunum í kring um Villa nægt umboð og nægan kjark til að gera það sem þarf að gera, kjósa nýjan oddvita.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli