23. febrúar 2008

Valdabrölt Villa


Gleðileikurinn guðdómlegi, Ringulreið í Reykjavík, er eins og Voltaire hafi samið hann. Villi birtingur kokgleypir skýringar Davíðs altúngu á því hvernig allt sé alltaf í himnalagi og greyið Kúnígúnd má þola endalausa bið í festum sökum dömulegs lítillætis og langlundargeðs.

Hinn dimmi undirtónn er síðan heiftúðug valdabarátta. Ekki á milli Villa og hirðarinnar, heldur Sjálfstæðisflokksins og fjölmiðla. Sjálfstæðismenn, og ekki síst Davíð, hafa ekki gleymt því þegar þeir ætluðu að múlbinda fjölmiðlana en snéru bitnir frá. Slagur Davíðs og Halldórs við fjölmiðlana var upphafið að endalokum tvíveldis þeirra. Davíð hefur ekkert fyrirgefið. Villi, sem er svo til jafnaldri Davíðs og gamall vopnabróðir, hefur síðan erft viðhorf Davíðs við borginni og fjölmiðlunum eins og öðru.

Það eru fjölmiðlar sem staðið hafa fyrir aðförinni að Villa síðustu vikur. Það voru fjölmiðlar sem tóku trompuðu útspili hans fálega þegar hann krækti í Ólaf Eff. Það voru fjölmiðlar sem gerðu sér mat úr minnisleysi hans. Það voru fjölmiðlar sem fengu hann til að ljúga. Og smám saman byrjaði þjóðin að taka við sér. Þjóðin varð samdauna þeirri fúlu mynd sem máluð var af Villa í fjölmiðlum – og þjóðin sagði fokk jú.

Nú hefur Villi sagt fokk jú tú. Hann ætlar í slaginn við fjölmiðlana og fólkið í þeirri glórulausu trú að honum muni farnast betur en Dabba og Dóra. Og hann horfir svo stíft fram blóðvöllinn að hann sér ekki demóklesarkutann sem sveiflast rétt yfir hausamótunum á honum.

Engin ummæli: