24. febrúar 2008

Allt og (umfram allt) ekkert

Það skyldi þó aldrei fara svo að það kæmu tvær rauðar færslur í röð á þessu bloggi? Það verður orðið ljóst þegar þið lesið þessa færslu, en ég er alveg viss um að eldri bróðir minn situr sveittur við að semja pistill um eitthvað hundleiðinlegt og yngri bróðir minn er annað hvort að jafna sig eftir fyllerí, eða að hugsa um að fara fljótlega, kannski, að henda inn einhverri færslunni. Það kæmi mér ekki á óvart að eldri bróðir minn væri að semja færslu um nytjastefnu þurkaðra fjallagrasa á Suðurlandi og yngri bróðir minn að spá í að höggva af sér fótinn og deila reynslunni með þeim sem heimsækja þessa síðu reglulega.

Þar sem ég hef svo sem ekkert að segja, þá hefði ég nú kanski átt að hafa vit á því að halda bara kjafti, en það er einhvern veginn ekki alveg minn stíll, sjáiði til. Það er spurning hvort ég hendi ekki á ykkur stuttri sögu, bara svona af því að ég með puttana á hreyfingu á annað borð.

Eins og allir vita þá heimsótti ég drottningarveldið England um daginn, sem er í sjálfu sér ekkert merkilegt. Reyndar var ekkert merkilegt við þessa ferð ef útí það er farið. En ég og fóstursonur minn vorum sem sagt staddir í verslun í Liverpool, við annan mann. Þegar við vorum búnir að versla eins og verstu kellingar og ætluðum að fara að yfirgefa búðina var okkur tilkynnt að við mættum ekki fara út um sömu dyr og við komum inn. Við yrðum að fara út, við hinn endann á búðinni. Ég hélt að sjálfsögðu langa ræðu um hvað Englendingar eru bjánalegir og vitlausir og uppskar smá bros að launum. Þegar við komum að réttu útidyrahurðinni, þá bara einfaldlega opnaðist hún ekki. Aftur hélt ég langa mikla ræðu um hvað það væri týpískt fyrir Englendinga að senda menn þvert í gegnum þessa 400 fermetra verslun til komast út, og svo væri hurðin biluð. Ég sagði strákunum að við yrðum örugglega að bíða þarna á meðan gert yrði við hurðina, því ef reglurnar segðu að við mættum ekki ganga út um hina hurðina, þá yrði því aldrei hnikað! Að þessu sögðu byrjaði ég að hoppa og skoppa og sveifla höndunum eins og óður maður fyrir framan hurðina í þeirri von um að skynjarinn fyrir ofan, myndi nema hreyfingu mína og hurðin myndi opnast. Þegar ég hafði farið hamförum þarna í sjálfsagt heilar 5 mínútur og allir í versluninni búnir að hlæja sig máttlausa, kom þarna að maður sem greinilega var heimamaður og kunni betur á nýjustu tækni heldur en ég. Hann gekk ákveðnum skrefum fram hjá okkur, brosti, tók í hurðina og opnaði hana, og gekk út! Ég leit út eins hreinræktaður fáviti þegar það rann upp fyrir mér að þetta var ekki sjálfvirk hurð og það eina sem þurfti að gera var að ýta á hurðina til að opna hana. Ég hafði sem sagt eytt talsverðum tíma í eróbikk æfingar fyrir framan öryggismyndavélina á staðnum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var vandræðalegur og félagar mínir hlógu að mér á þessari stundu. Ég reyndi að bjarga mér með því að halda langa ræðu um hvað Englendingar væru gamaldags og væru ekki búnir að taka upp sjalfvirkar hurðar, og að svona væri þetta sko ekki heima á Íslandi. Ég er því miður á þeirri skoðun að mér hafi ekki tekist að bjarga andlitinu að neinu leyti, en get huggað mig við þá staðreynd að ég kom öllum nærstöddum til að hlæja, bæði lengi og vel.

Fleira er ekki fréttum, fréttir næst klukkan sjö.

Verið góð við konurnar í dag, og hættið að drekka kaffi.

Engin ummæli: