19. febrúar 2008

Kvöl og pína


Það gat nú verið að þegar bróðir minn er uppiskroppa með hugmyndir að einhverju til að skrifa um, þá ræðst hann, venju samkvæmt, á minnimáttar. Að þessu sinni valdi hann úthúða sínum eiginn bróður! Það skal tekið fram að ég hef aldrei verið neitt nema góðmennskan ein í öllum samskiptum við eldri bróður minn. Hann segir að ég sé ofvirkt miðjubarn og þykist hafa heimildir fyrir því að ég sé að sjóða saman langan pistil um hvað hann hefur verið vondur við mig. Hvorugt er satt!

Ég var reyndar búinn að sjóða saman nokkuð langan pistil um hversu mikið mér þykir vænt um eldri bróður minn, og hvernig mér hefur tekist að elska hann, þrátt fyrir alla hans galla. Að gefnu tilefni bíður sá pistill birtingar um stund.

En hvað fær bróðir minn til að haga sér svona? Það getur vel verið að ég geti ekki sett staf á prent öðruvísi en að úthúða einhverju krummaskuðinu, en það aftrar mér tæplega frá því að skrifa á þessa síðu er það? Því af nógu er að taka í þeim efnum.

Það sem hefur helst aftrað mér síðustu 3 vikurnar eða svo, er einfaldlega sú staðreynd að ég var alvarlega veikur. Ekki nóg með að ég hafi verið rúmfastur, heldur var ég svo kvalinn og þjáður að ég hélt á tímabili að ég myndi ekki verða mikið eldri. Það aftraði eldri bróður mínum hinsvegar ekki frá því, að hringja í mig nær daglega og reka mig í að fara að skrifa eitthvað. Mín veikindi voru aukaatriði á þessu spilaborði, þar sem allt snérist um að hafa ofan af fyrir honum með skrifum og skemmtisögum. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að hann sé að drepast úr leiðindum, blessaður, búandi þarna suður í einskismannslandi, þar sem ekki einu sinni einn þúsundasti af þjóðinni nennir að búa. En að ætlast til þess að ég leggi veikindi mín til hliðar til að stytta honum stundir, getur varla talist neitt annað en frekja ...eða hvað?

En þrátt fyrir þetta, og þá staðreynd að honum sé almennt illa við mig, þá ber ég engan kala til hans. Ég er löngu búinn að átta mig á því að ég verð alltaf skotspónn hrakyrða hans, og má reyndar bara þakka fyrir á meðan hann lætur ekki kné fylgja kviði og haldur áfram með þær líkamlegu þjáningar sem hann olli mér þegar við vorum yngri !

Auðvitað hefur honum tekist að skapa sér ákveðna ímynd meðal vina og vandamanna, og fengið auðtrúa ættingja (og jafnvel foreldra okkar) til að trúa því að hann sé ævinlega sá saklausi. Aldrei dytti mér í hug, að reyna að sverta þessa Ímynd, því ég vil honum allt hið besta. En ég treysti því hinsvegar að lesendur þessarar síðu, sjái í gegnum klækina og lævískt yfirbragðið.
Það eina sem ég vil fá svör við, er hvað hef ég gert til þess að fá þessa meðferð ?

Að lokum vil ég taka fram að bróðir minn er ennþá velkomin á heimili okkar hjóna í framtíðinni … svona sem gestur, og ég mun ekki erfa þessi skrif hans við hann að neinu leyti. Mér þykir vænt um bróðir minn, þó svo að það sé ekki gagnkvæmt.

Ragnar: skrif þín særa mig og stinga! Er ekki komið nóg? Ég fyrirgef þér allt sem á undan er gengið … fyrsta skrefið í 12 spora kerfinu, (í átt að ofbeldislausu líferni) er að viðurkenna að maður hafi valdið öðrum sársauka með hegðun sinni! ...viðurkenna!

3 ummæli:

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú lygni mörður! Við skulum láta nægja að minnast þess þegar þú fékkst lánaðan hjá mér rándýran Levis-bol sem ég hafði keypt fyrir hálfa sumarhýruna mína. Fórst í bolnum í heimsókn til vinar þíns og komst í bolnum hans til baka. Sagðist svo hafa skipt á bolum því hans hefði verið svo flottur.

Hvorugan bol hef ég séð síðan.

Og svo á ég enn eftir að hefna mín fyrir það þegar þú hentir vörubíl í ennið á mér ;)

R

Nafnlaus sagði...

Hhahahahaha.....þið hafið ekkert breyst.

mbk,

Gísli S

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nei sæll, Gísli.

Long time no see. Gaman að heyra frá þér. Ertu ekki hress?

kv
R