19. febrúar 2008

Kastró og ég


Þá hefur Kastró ákveðið að hann eigi ekki afturkvæmt í stjórnun Kúbu. Til að tryggja að fráhvarfseinkennin verði ekki of sterk mun Chavez halda sínu striki.

Einu sinni var ég talinn til vinstri manna í menntaskóla. Auðvitað getur enginn alvarlegur ungur maður hræsnislaust orðið annað en vinstri maður, a.m.k. á meðan hann situr á skólabekk sem greiddur er með striti hins vinnandi manns. Ég skrifaði m.a. grein í skólablaðið með vini mínum þar sem við færðum rök fyrir því að sósíalismi væri þróunarlegt afbragð annarra stjórnmálakenninga. Niðurlagið var á þá leið að mannkynið yrði aldrei almennilegt fyrr en það losnaði við rófubein, líkamshár og kapítalisma.

Því styttra sem varð í útskrift, því auðveldar varð að horfa fram hjá því að maður átti flest sitt undir sameiginlegum sjóðum annarra. Vafalaust hef ég verið farinn að sveiflast aðeins til hægri smám saman eftir því sem leið á menntaskóla. Ég man þó að það sem drap í mér vinstri manninn (a.m.k. í þeim skilningi sem ég hafði áður verið það) var saga af Kastró.

Þannig var að í Reykjavík voru miðaldra hjón sem fóru um og frelsuðu unga menn til fylgis við Marx og Engels. Frúin kom norður til að hjálpa þarbúendum að stofna nýjan sósíalískan félagsskap. Hún fékk eina raungreinastofuna í skólanum til fundarhalda.

Hún flutti innblásna ræðu. Hátindi náði hún í stórkostlegri lýsingu á því þegar hún hitti Kastró sjálfan. Hún hafði verið ein af þúsundum á fjöldafundi og heillaðist gjörsamlega af þessum nýja messíasi, sem hún hafði heyrt svo margt um. Þarna stóð hún í maurlíki í návist meistarans og þar sem gamli karlinn tók sér hlé til að totta vindilinn teygði frúin úr sér og hrópaði: „Kastró! Kastró! Kenndu okkur að gera það sem þú hefur gert heima á Íslandi!“ Þessu fylgdu einhverjar sjóðheitar ástarjátningar til þess grænklædda.

Vaflaust átti sagan að kenna okkur unglingunum hve þægilegt væri til þess að vita að slíkur hálfguð gengi meðal vor. Hún hafði hinsvegar þveröfug áhrif á mig. Ég fyrirleit skyndilega þessa smeðjulegu konu. Fannst hún lágkúruleg og vitlaus. Hún hélt áfram og snéri talinu að Palestínu og ræddi mikið um rétt fólks til að drepa kúgara og þá sem sölsa undir sig lönd manna. Hér var ég orðinn verulega fúll og spurði hvort ofsóttir andstæðingar Kastrós hefðu þá ekki fullt leyfi hennar til að skjóta þennan dásamlega Kastró hennar. Hún hélt það nú ekki vera.

Fundi var slitið en síðan haldið áfram í kommúnistahöll Akureyrar þess tíma. Þar átti sem sagt að setja stofnfund Félags Sósíalista á Akureyri (kannski að „ungra“ hafi verið klínt þarna inn í titilinn einhversstaðar). Ég var þar. Frúin líka og allnokkrir blóðheitir nýkommar.

Fundurinn varð skelfilegur. Ég átti drýgstan þátt í að eyðileggja hann. Kerlingin hafði mætt með drög að lögum félagsins og strax í annarri grein byrjuðu þræturnar. Greinin var einhvernveginn þannig að það ætti að vera hlutverk félagsins að berjast gegn kapítalisma með öllum tiltækum ráðum.

Öllum tiltækum ráðum? Hvað skyldi hún meina með því. Átti hún við að lögin heimiluðu skæruhernað og sprengjutilræði? (Já! Auðvitað, hrópaði einn af nýkommunum). Og berjast gegn kapítalisma? Væri nú ekki nær að skrifa að markmiðið væri að berjast fyrir framgangi sósíalisma? Væri það ekki uppbyggilegra og skemmtilegra?

Svona gekk þetta langalengi. Fraukan missti sig á endanum og lét nokkur vel valin orð falla um að málfrelsi sumra á fundinum væri full mikið. Ungu skæruliðarnir voru orðnir brjálaðir og kölluðu undirritaðan mörgum ljótum kvenkynsnöfnum og sökuðu um skort á djörfung og hug. En við vorum nokkrir af þeim eldri sem smám saman stilltumst inn á svipaða tíðni.

Þetta kvöld dó litli komminn í hjarta mínu að mestu. Það voru því frekar mikil mistök að kalla mig til í einvígi vinstri og hægri manna í menntaskólanum fyrir Morgunblaðið stuttu seinna. Ég mæli ekki með að neinn lesi einvígið en þar er einn sem er greinilega minna en hálfvolgur í trúnni á þetta alltsaman.

Eftir einvígið dró páfi vinstri manna við skólann (sem ég hafði verið með á fæðingardeildinni og hvaðeina) mig á eintal og spurði: „Ragnar, ertu sossi?“ [með áherslu á ertu]

Ég man ekki hverju ég svaraði. En spurningin var góð og gild. Smjaðrið fyrir Kastró hafði drepið í mér sossann og framvegis bar ég hræsni mína í hljóði.

Engin ummæli: