13. febrúar 2008

Heimur versnandi fer


Ég fór á barnasýningu í sumar. Ein persónan var (eins og öllum góðum barnasýningum sæmir) ægilegt skrímsli. Í hvert skipti sem ókindin birtist á sviðinu þrýstust börnin dýpra í stólana og heyra mátti að þau héldu niðri í sér andanum. En sýningin var í kristilegum anda og undir lok hennar endurfæddist ófreskjan og hefði ekki orðið siðprúðari þótt hún hefði verið böðuð upp úr lambsdreyra.


Þetta var alþýðlegt leikhús og í lok sýningar tóku leikendur sér stöðu við útganginn og spjölluðu við gestina. Mikið var hlegið og hampað. Þó vakti athygli mína lítill hópur af börnum sem stóð stjarfur inni í salnum og þorði ekki fyrir sitt litla líf út. Þau störðu óttaslegin í átt til dyranna en þar stóð ófreskjan ógurlega í fullum skrúða og spjallaði kumpánalega við glaðbeittan mann sem hélt á stjörfu smábarni í fanginu. Það var augljóst af börnunum að þau báru svipaðan ugg í brjósti fyrir örlögum litla barnsins og sínum.


Flestir jafna sig á þeim sálarhræringum sem leikhúsin bjóða upp á fljótlega eftir að ljósin eru kveikt. Eins og dæmin sanna á það ekki alltaf við um börn — og augljóslega ekki um Hörpu Hreinsdóttur. Nú hefur hún setið geðstirð uppi á Skaga í heila viku og bruggað nútímanum launráð vegna leiksýningar sem setti allt hennar sálarlíf úr skorðum. Sökudólgurinn: Hugleikur Dagsson.


Harpa (af landsþekktu örlæti sínu) vill svo þakka mér dálítið af óró sinni. Hún birtist nefnilega á þessari síðu fyrir nokkru síðan og sveif hér um eins og blöðruselur á helíni. Meðal annars sagðist hún vera ósigrandi í netslag og að eina fróun hennar við slíka slagi væri að gera fórnarlömb úr vitleysingum.


Nú vill svo skemmtilega til að ég hef í gegnum tíðina haft dálítið gaman af netslag sjálfur. Hápunktinum náði það auðvitað í gervi stálfrúarinnar sálugu, Mengellu. Þegar Harpa birtist hér froðufellandi og hótaði að gera hvern sem styggði hana að fórnarlambi með eldsnarpri stungu, þá gerðist tvennt. Mér fannst hún leiðinleg og mér fannst tilvalið að bregða um mig kattarfeldshempu Mengellu eitt augnablik. Ég skrifaði henni Mengellulegt komment til baka sem — eins og yfirleitt með Mengellu — var í öllum aðalatriðum málefnalegt en afar sterklega kryddað. Ég klykkti út með að segja að mér þætti jarðvistin aum yrði ég eins og hún, og að ef þetta væri til marks um hennar betri daga (eins og hún hélt statt og stöðugt fram) þá væri svei mér þá eðlilegt að hana langaði að stimpla sig burt úr veruleikanum á verri dögum.


Harpa fékk hland fyrir hjartað og hefur nú af sálfræðilegri skarpskyggni sinni (því fáir eru jú betri sálfræðingar en geðsjúkir) komist að hinu sanna í málinu. Þessi færsla mín hljóti að merkja það að dvöl mín á Barnalandi hafi fest mig í hlutverki Mengellu — svona eins og þegar einhver hleður í sakleysi niður klámmynd af Netinu og gáir ekki að sér fyrr en diskurinn er fullur af barnaklámi.


Harpa má fabúlera um geðslag mitt, Hugleiks og hvers sem hún vill fram í andlátið mín vegna. Hún má beita stirðum heila sínum af alefli á þá miklu ráðgátu hvernig á því standi að heimurinn sé að verða svona vondur og ég mun ekki missa neinn svefn yfir því. Þó færi óneitanlega vel á því að Harpa (sem sannarlega er ekkert unglamb) lærði að slaka á þegar tjaldið fellur og ljósin kvikna.


Það að ég skuli ennþá kunna að skrifa eins og Mengella er ekki til sanninda um að ég sé fastur í hlutverkinu (eins og forfallinn barnaklámfíkill). Það sannar ekki neitt, nema kannski það að ég hafi nokkurn veginn óraskað minni (og hef þá líklega ekki farið í raflostmeðferð nýlega). Það er nefnilega einkennilega brengluð rökhugsun sem sannfærir Hörpu um það að í þessu eina innleggi hafi einlægni mín komið berlegar í ljós en í öðrum innleggjum mínum. Það er álíka hugsunarvilla og hjá litlu krökkunum í leikhúsinu sem voru sannfærðir um að fagurgalinn og gleðihjal skrímslisins að lokinni sýningu væri yfirvarp — hið rétta eðli hafi sést þegar dýrið urraði og hvæsti og reyndi að fyrirkoma litlu, sætu leikurunum í litskrúðugu búningunum.


Sannleikurinn er sá að mér er skítsama um Hörpu. Ég vil henni hvorki gott né illt, ég hef engan áhuga á henni eða hennar lífi. Mér finnst hún bæði leiðinleg og óáhugaverð. Það var ekki í neinum sérstökum tilfinningahita sem ég sendi henni tóninn. Hún bað um drulluslag, hún fékk hann. Frá mér í líki Mengellu. Síðan klæddi ég mig aftur úr búningnum og setti á vísan stað. Harpa heldur hinsvegar að ég hafi háttað til að skrifa þetta innlegg. Ástæðan er ofurvenjulegt oflæti. Hún heldur að hún sé svo merkileg að ég hljóti að sýna henni mitt rétta andlit. Óli í augum Hörpu hljóti að vera sá eini sanni.


Einu ráð mín til Hörpu (og mér er í raun nákvæmlega sama hvort hún fer eftir þeim eða ekki) er að hætta að vera svona helvíti stíf, dramatísk og barnaleg. Það eru engin skrímsli undir rúminu, himinninn er ekki að hrynja og ófreskjan í leikhúsinu fer líklega beinustu leið heim til sín og fær sér harðsoðið egg og mjólkurglas áður en hún leggst í rúmið og les Arnald.


11 ummæli:

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég legg eindregið til að umræðum um þetta mál ljúki hér með.

Nafnlaus sagði...

Algerlega sammála.

"Sannleikurinn er sá að mér er skítsama um Hörpu. Ég vil henni hvorki gott né illt, ég hef engan áhuga á henni eða hennar lífi."

Furðu langt og leiðinlegt, miðað við ofangreint.

Maður gæti jafnvel hlegið og hampað...

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta fínt hjá þér, Óli Sindri (eins og flest sem þú skrifar), þó að kommentið um geðveiku kerlingarálftina hafi kannski verið einum of.
Þó er tilgangur kommentsins ljós, en nefnd kerlingarálft stendur sjálf í því dagana langa að reyna að traðka niður í skítinn alla þá sem hún telur sig standa í slag við - og þá skiptir engu máli þó að þeir geri sitt besta til þess að sýna henni eða hennar málflutningi skilning.
Gott dæmi er Ólína Þorvarðardóttir (hún er b.t.w. ekki ein af mínum uppáhaldsmanneskjum) sem vildi, án alls ofstopa, stimpla sig inn í umræðuna hjá Hörpu en fékk það framan í fésið á sér að hún mætti hvorki hafa skoðun á geðsjúkum né alkóhólistum (vegna þess að Harpa er bæði) og ætti eiginlega bara að halda kjafti.
Nú ætti Harpa, þessi úbergáfaði og víðsýni menntaskólakennari, að vita að geðveiki og alkóhólismi eru sennilega þeir sjúkdómar sem ALLIR Íslendingar þekkja af eigin reynslu, hvort sem þeir glíma við þá sjálfir eða eiga ættingja/vini sem eru (eða hafa verið) veikir.

Þau sem koma á þessa síðu snarvitlaus eftir nýjasta blogg Hörpu vil ég minna á hið eldgamla og rammíslenska máltæki: "What goes around, comes around". Ef maður gjammar eins og froðufellandi rakki á netinu, þá er eiginlega óhjákvæmilegt að maður fái á sig einhverjar slettur á móti. Alveg sama hvaða sjúkdóma maður stríðir við.

Nafnlaus sagði...

Eða eins og maðurinn sagði;

Skítur kemur úr rassi...

Nafnlaus sagði...

Fyrir þá sem ekki vita þá er téð Harpa móðir Óla Sindra. Að minnsta kosti eru flestir skólasálfræðingar snöggir að fatta það.
Þið getið skemmt við að lesa þetta blogg aftur með það í huga.

Mamma fékk hland fyrir hjartað … Mamma má fabúlera um geðslag mitt … Sannleikurinn er sá að mér er skítsama um mömmu.

Gallinn við Óla Gellu (eða hvað hann nú annars kallar sig) er að hann hefur svo lítinn húmor fyrir sjálfum sér.
Mega manían og skrúðmælgin verður leiðigjörn til lengdar, ekki síst þegar honum dettur ekkert gáfulegra í hug
en að hjóla í mömmu sína sem enginn hefur snefil af áhuga á til að byrja með.
Bloggheimur versnandi fer.

Nafnlaus sagði...

Sem betur fer er nefndur Óli ekki raunverulega sonur Hörpu, enda væri ég þá skyldur honum og það þætti mér ekki gaman. Ef bróðir minn væri jafn dónalegt gerpi og Óli er þá mundi ég líklega flytja endanlega til Afríku.

Óli, mig langar að benda þér á að það er ágætt að venja sig á það að ef maður getur ekki sagt neitt jákvætt um fólk þá er best að halda sér bara saman og einnig að sá vægir sem vitið hefur meira (en nauðgar ekki refresh takkanum dögum saman meðan hann bíður eftir að mamma bloggi loksins um sig) :)

Nafnlaus sagði...

„Óli, mig langar að benda þér á að það er ágætt að venja sig á það að ef maður getur ekki sagt neitt jákvætt um fólk þá er best að halda sér bara saman og einnig að sá vægir sem vitið hefur meira“

Má bjóða einhverjum klisu?

En Máni, ef þetta er þín eindregin skoðun, af hverju hélstu þér ekki saman?

Nafnlaus sagði...

Þetta var bitlaust, nafnlaus :)

Nafnlaus sagði...

Ég virðist eiga í einhverjum vandræðum með að fá komment sem ég skrifa hér til að birtast.

Ég er búinn að vera að reyna að koma því að til hr. Nafnlauss, sem mönnum gæti jafn vel dottið í hug að sé Óli sjálfur að skrifa, að þetta væri mín eindregna skoðun. Ég reyni eins og aðrir að hafa einhver grunnprinsipp sem ég fer eftir, en jafnframt að gera það í hófi. Þannig finnst mér ágætt að venja sig á að vera ekki að hallmæla öðru fólki að óþörfu, en aftur á móti finnst mér ekki að maður þurfi að láta hvað sem er yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust.

Þannig að svarið við því hvers vegna ég byrjaði að tjá mig hér væri líklega vegna þess að nefndur Óli ýjaði að því að mamma mín ætti að drepa sig. Það fannst mér ekki fyndið, þó að vera kunni að Óla hafi fundist það.

Ég hef tekið eftir því að hér á síðunni tíðkast að menn ráði ókunnugum heilt. Ég ætla að fylgja tískunni og ráðleggja Óla að passa aðeins hvað hann segir um annað fólk. Það er ekki víst að maður fari alltaf ódýrt frá því að stinga upp á því að mömmur manna drepi sig. Sjálfur er ég ekki mikill æsinga- eða ofbeldismaður, en svoleiðis fólk er vissulega til. Þess vegna vildi ég ráðleggja Óla að hafa smá hemil á þessum fáránlega fyndnu skrifum sínum (þó að mér finnist þau reyndar ekki fyndin).

Nafnlaus sagði...

Þarna á vitaskuld að standa "að þetta væri EKKI mín eindregna skoðun"...

Óli Sindri sagði...

Athugasemdakerfið er vissulega eitthvað stirt þessa dagana. Ugglaust samsæri til að halda niðjum Hörpu frá því að leggja orð í belg.

Nokkur atriði:

1. Ég er ekki "nafnlaus" þarna að ofan.

2. Ég þurfti ekki að "nauðga refresh-takkanum" til að komast að því að Harpa hefði bloggað um mig. Til þess hef ég RSS.

3. Ég þakka heilræðin frá Mána, en sýnist á öllu að tíma hans væri jafnvel betur varið í að ráða móður sinni heilt.

4. Þessu furðulega máli er hér með lokið af minni hálfu. Ég hef útskýrt hvað fyrir mér vakti með skrifunum. Einhverjir skilja það, aðrir ekki. Frekari umræður bæta engu við. Hörpu, Mána og fjölskyldu óska ég alls hins besta og vona að tiltölulega yfirveguð viðbrögð Hörpu (miðað við oft áður) í þessu máli séu til marks um bjartari daga hjá henni.