Ég skrapp til Englands um daginn. Fyrir þá sem ekki vita það, þá búa bara bjánar og dusilmenni á Englandi. Englendingar leitast við að gera allt eins fáránlegt og þeir mögulega geta, þó svo að þeir leitist reyndar fyrst og fremst við að gera sem minnst. Englendingum má skipta í tvo hópa. Annars vegar þá sem fóru í skóla, mæta í ljótustu skyrtunni sinni í vinnuna (halda reyndar að þeir séu flottir),og eru skipulagðari en djöfullinn sjálfur. Þessir aðilar freta ekki nema setja það upp í Excelskjal fyrst, og gera ekki neitt sem stendur ekki í starfslýsingunni þeirra. Liðlegheit eru illa séð og að fara framhjá reglunum eða sveigja þær þekkist einfaldlega ekki.
Hinn hópurinn eru skítahaugarnir sem nenntu ekki í skóla,eða höfðu ekki efni á því. Þessir aðilar vinna nú í afgreiðslustörfum víðsvegar um landið — eða verksmiðjum. Þeir kunna ekki að flýta sér og líta svo á að það myndi hreinlega drepa þá að vinna vinnuna sína samviskusamlegaþ Ég skal gefa ykkur dæmi.
Ég stend í biðröð á fluglvelli í Manchester eftir að fá að tékka mig inní flug til Íslands. Það eru bara 4 á undan mér, en samt er ég búinn að standa í þessari röð í 25 mínútur. Þegar röðin loksins kemur að mér tekur það unglinginn með bólurnar 13 mínútur að tékka mig inn — að sjálfsögðu verður hann að lesa fyrir mig allt smáa letrið aftan á farseðlinum og spyrja mig 150 öryggisspurninga. Að öllu þessu loknu sér hann að ég er klæddur Liverpool-treyju og fer að ræða við mig um fótbolta. Hann segir mér að hann sé Man. City maður og heldur langa ræðu um leiki helgarinnar, þrátt fyrir að allir 189 farþegarnir, sem eiga eftir að tékka sig inn, standi í beinni röð beint fyrir aftan mig. Þessum manni er fyrirmunað að flýta sér í vinnunni sinni. Hann fær ekkert borgað fyrir að hraða sér. Það eru svona lúðusmetti sem gera það að verkum að maður verður geðveikur á því að dvelja í Englandi lengur en rétt yfir helgi.
England eru eina landið í veröldinni þar sem þú getur átt von á því að ganga inn á salerni með 18 pissuskálum, en engum vaski fyrir handþvott. Ef pissuskálarnar eru 18, er líka pottþétt að það eru 18 litlir pollar á gólfinu. Því um leið og bjórdrukknir Englendingar eru búnir að finna salernið og renna niður buxnaklaufinni vaða þeir með puttana í klofið á sér, finna á sér tittlinginn, toga hann fram í gatið á buxunum og míga svo á gólfið! Til þess að enginn renni nú til og hálsbrotni í hlandbleytunni hefur einn starfsmaður umsjón með því að það sé ávallt eins metra há gul keila á miðju gólfinu með áletruninni „Caution — Wet floor!”
Englendingar líta á það sem skjalafals og svik ef þú skrifar vitlaust undir debetkortanótuna þína. Ég er ekki að segja að það hafi komið fyrir mig — en segjum að þú farir á næturklúbb og kaupir þér nokkra bjóra, greiðir með debetkortinu þínu og skrifir svo Mr. Nonni Konnason undir þessi 10 pund sem þú verslaðir fyrir. Þá er voðinn vís. Það verður að kalla á framkvæmdarstjóra klúbbsins sem tekur ákörðun um framhaldið. Þar sem þú ert eilítið í glasi er ekki hægt að „yfirheyra” þig um málið svo löglegt sé, og því þyrftir þú að öllum líkindum að gista fangageymslur lögreglunnar í svo sem eins og eina nótt. Í framhaldi að því þyrftir þú að fá senda skriflega staðfestingu frá bankanum þínum um að þessi færsla verði ekki bakfærð — og skrifa svo undir langan samning með smáu letri um að þetta hafi í raun verið þú að kvitta undir, í einhverjum fíflagangi. Það má alltaf bjóðast bara til að borga þetta aftur, og kvitta rétt undir, og maður skyldi ætla að þá félli allt í ljúfa löð. En guð minn góður, neeeiii. Það væri aðeins of einfalt. Hvernig ættu þeir þá að skýra fyrri greiðsluna? Sem tipps, gæti maður stungið uppá. Njeeeiii...ekkert svona, góði minn. Svona eru bara reglurnar og þeim skal farið eftir!
Meira um England á næstu dögum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli