30. janúar 2008

Lytla sistir Mengellu


Einhvern tímann minntist ég á að ég hefði ætíð verið lúnkinn við að búa til alteregó á Netinu. Eitt það einkennilegasta heitir því bráðlýsandi nafni walterego. Þegar ég stofnaði það var ég orðinn dálítið leiður á skassinu henni Mengellu og ákvað að þar sem heimsku fylgir hugarró væri kjörið að fá smá útrás sem arfaheimskt kvikindi. Ég stofnaði nýtt nikk á Barnalandi (hvar annars staðar?) sem hét fmgella.


Helstu hæfileikar fmgellu voru þeir að hún gat sneitt hjá réttri stafsetningu eins og þefvísasti hundur fram hjá jarðsprengjum.


samála sá einn í gær hann var klæddur í rauðan velúrgalla eins og verrsti perri með gerfiskegg og var að gefa granndalausum krökkum nammi. þetta er hrillilegt ástannd, og oft verst firir jólin.

Það sem varð fmgellu að falli kom mér töluvert á óvart. Fmgella óð ekki siðferðisprinsippin upp í klof og ein birtingarmynd þess var að umrætt klof átti það til að herja á eigur annarra. Þannig lýsti fmgella því fjálglega yfir við einhverja alsaklausa konu að hún væri næstum alveg viss um það að hafa sofið hjá manninum hennar — sem fmgella hafði einhvern veginn séð á mynd. Sú tók játningunni afar illa og trylltist, lét setja fmgellu í bann og skildi við manninn. Löngu seinna, þegar ég var að keyra út póst eitt drungalegt síðkvöld, blasti þessi sama kona við mér þar sem ég kom með stóran pakka — vafalítið fullan af góðgæti frá pabba til barnanna sinna.


Nú voru góð ráð dýr. Ég kunni því orðið harla vel að vera vitlaus og stafsetja eins og fiskvinnslukona eftir heilablóðfall. Ég endurvakti fmgellu því undir nýju nafni. Í þetta skiptið hét hún hinu dula nafni walterego.


Á tímabili hélt ég báðum úti, Mengellu og walterego, eða allt þar til Mengella fór líka í bann, eins og frægt er orðið. Walterego hélt ég svo á lífi allt þar til nýlega að ég kaus að segja skilið við Barnaland fyrir fullt og allt. Fleiri skilgetin eða óskilgetin afkvæmi á ég ekki þar.


Þróun walteregos varð nokkuð einkennileg. Hún (því hún var hún) átti það til að stafsetja stundum rétt (ef ég var sérstaklega þreyttur) og skrifaði að auki óaðfinnanlega ensku. Eins reyndist mér erfitt að halda mig við heimskuna sem ég þó lagði af stað með. Réð þar mestu að allrahanda merkikerti tóku sig stundum til og lögðu walterego í einelti fyrir slælega stafsetningu og bentu á að fólk sem væri greinilega svona illa gefið ætti að þegja. Þá freistaðist ég til að gera walterego dálítið gáfaðri og stundum alveg bráðsnjalla.


Mér fannst walterego alltaf skemmtilegri en Mengella. Hún var ekki eins aggresív og hún var fötluð. Það er gaman að vera fatlaður ef maður hefur húmor fyrir því. Kannski vegna þess hvað hún var fötluð, þá mætti hún ekki alveg jafnmikilli andstöðu og Mengella, sem leit á sjálfa sig sem hitlerjugenskt ofurmenni. Walterego bjó alla sína ævi í vernduðu umhverfi Barnalands (sem glöggir lesendur hafa áttað sig á að hefur verið minn skóli í mannlegu eðli síðustu misserin — að mínu mati miklu gagnlegri skóli en MA, HR og HÍ sem ég stundaði áður og/eða samhliða).


Þó eru á því tvær undantekningar. Walterego leit á sjálfa sig sem alvarlegt ljóðskáld og birti ljóð sín opinberlega. Auk þess fór ein Barnalandsfærslan út um víðan völl og alla netheima þvera og endilanga. Það var færslan um byssu á bakka. Hún var dæmigerð fyrir hugsun walteregos þegar á leið, en eins ódæmigerð að forminu og mögulegt var vegna þess að í henni njótum við ekki hinnar frjálsu stafsetningar sem annars einkenndi hana alla tíð.


Sum sé, einhver konuræfill lenti í því að krækja vandamál sitt á öngul og láta það síga ofan í hákarlapollinn Barnaland. Vandamálið var það, að hún hafði keypt leikfang sem hún hélt að væri eitrað og vildi nú fá upplýsingar frá framleiðanda þess um næstu skref. Þar sem hún taldi ekki alveg fullvíst að framleiðandinn stæði jafnfætis henni í íslensku kaus hún að nýta sér þá staðreynd að leikurinn væri jafnari á hinn veginn. Hún skrifaði því bréfið á ensku en svona til málamynda ákvað hún að biðja Barnalandskonur að lesa bréfið yfir áður en það færi í póst.


Þetta er bréfið:


Hello
i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray :)
I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????
What can I do??
Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????


I hope you can anther stand what I am writing :)


And thank you


Respectfully
xxx


Nú er þetta bréf dálítið listaverk eins og það stendur og þarfnast lítilla viðbóta. En walterego taldi sér bæði skylt og ljúft að benda konunni á að ef til vill fælust ekki nákvæmlega sömu upplýsingar í bréfinu og hún hugði. Hún braut því odd af oflæti sínu og þýddi bréfið upp á kórréttri íslenskri stafsetningu. Þýðingin er svona:


Halló,
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.
Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????
Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????


Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa :)


Virðingarfyllst,
xxx


Nýlega ákvað ég að útskrifa mig úr mannlífsskóla Barnalands. Ég fletti ofan af Mengellu en fannst tilhlýðilegt að koma loks til dyranna eins og ég er klæddur. Þá er Barnalandssaga mín öll.


Næst er að kíkja á Alvöruna.

8 ummæli:

Húsvískur andskoti sagði...

Tákna litirnir fyrir neðan myndirnar af ykkur pólitískar skoðannir?

Oskar Petur sagði...

Vá. Ég er hreinlega orðlaus! Þarf ekki að fara að stofna svona best-of-Óli-Sindri-á-barnalandi blogg, þar sem samankomnar eru m.a. færslur, sem náðist að bjarga undan ritskoðunar-fallöxi barnalandsins?

jasso sagði...

það er ufsalon í systir

Þórður Ingvarsson sagði...

Og venjulegt i í "litla"... fattarru?

Óli hefur verið fundinn sekur fyrir tvær hræbilegar stafsetningavillur af ásettu ráði.

Nafnlaus sagði...

Þú ert einhver allra mesti snillingur sögunnar. Við munum sakan þín Erlingarnir.

Kúdos!

LitlaSkvís sagði...

Þín er saknað. Mikið.
-LitlaSkvís

Nafnlaus sagði...

Algjör snilld :) ER er ekki eins án þín.

esme sagði...

ég veit ekki alveg hvernig mér líður núna en eitt er víst að ég gæfi allan heiminn fyrir að fá að vera í félagsskap walteregos í nokkra klukkutíma í viðbót.

með vynsend og vaðandy vyrðingu,
esme