30. janúar 2008

Borgin í réttu ljósi?


Nú er ég loksins búinn að átta mig á þessu öllu saman, plottið er eftirfarandi: Ólafur F. er auðvitað ekkert geðveikur, hann er bara svona helv... séður. Nú blasir þetta við: Villi „sveik” hann eftir kosningar og sagði öllum að þeir hefðu engan veginn getað náð saman um málefni, þeir voru ósammála um flugvöllinn, um kofana í miðbænum og meira að segja ekki alveg á eitt sáttir um mislægu gatnamótin — auk þess var eitthvað minnst á umhverfismál o.fl.


En núna er Óli fyrst kominn á skrið. Hann hóar í Villa og gefur til kynna að hann sé til í eitthvað, svona upp á gamlan vinskap. Villi hleypur til og þeir félagar komast að samkomulagi. Að vísu þarf Villi að samþykkja allt sem Óli fer fram á, þ.e. allt sem hann gat alls ekki samþykkt eftir kosningar. Nú má flugvöllurinn bara vera, við græjum þessi gatnamót, finnum lausn á umhverfismálunum og síðast en ekki síst; ekki nóg með að kofarnir við Laugaveginn fái að standa áfram heldur fær Óli bara að kaupa þá (að vísu fyrir peningana borgaranna) — hann getur svo ákveðið sjálfur hvað verður gert við þá. Þetta er náttúrulega snilld.


En bíðum við, hvað svo? Jú, Óli verður borgarstjóri í fjórtán mánuði eða svo, þá kemur aðalplottið: Óli stendur upp úr borgarstjórastólnum og segir „Takk fyrir í kvöld og góða nótt!” Hættir í borgarstjórn, Magga kemur askvaðandi, tekur við og myndar meirihluta með sínum góðu félögum. Það sem er alveg drepfyndið við þetta er að gamli góði Villi situr eftir með sárt ennið, búinn að hjálpa Óla að koma öllum sínum málum í gegn, verður aldrei borgarstjóri og Sjálfstæðisflokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð.


Ólafur Ragnar Hilmarsson

Engin ummæli: