27. janúar 2008

Laugardagskvölin


Hver man ekki eftir því hvað laugardagskvöldin voru skemmtileg í gamla daga? Þá voru feitustu bitarnir á dagskrá í sjónvarpinu, flestir í fríi og við krakkarnir fengum stundum nammi og gos — eða ef vel viðraði í buddunni, ís í skál.


Þetta er eitthvað svo skemmtilegt í minningunni. Ef ég kafa djúpt í kollinn á mér, þá var reyndar minningin eitthvað á þessa leið:


Búið var að kaupa slatta af sælgæti og um leið og staðið var upp frá matarborðinu, voru báðir bræður mínir farnir að suða um að fá sína hluta af namminu — helst ekki mikið seinna en strax! Eldri bróðir minn lokaði sig þá strax af í herberginu sínu til þess að lesa eða teikna og yngri bróðir minn fór að gera einhverjum óleik og almennt að vera fyrir. Ég fór hinsvegar með minn hluta af namminu inní herbergi og sparaði það að einhverju leyti. Þegar mér fór að leiðast, þá kíkti ég í herbergi eldri bróður míns, og oft var yngri bróðir minn að gera honum lífið leitt þar fyrir. Sá elsti var að sjálfsögðu löngu búinn með nammið sitt og ég endaði oft á því að gefa honum helminginn af mínu nammi líka, af því að ég vorkenndi honum svo mikið, að eiga ekkert nammi. Yngri bróðir minn átti það svo auðvitað til að vera lúmskari en andskotinn, og birtast löngu seinna með allt sitt nammi, og veifa því framan í okkur. Það verður bara að segjast eins og er, að þeir bræður eru nú dulítið nánari heldur en „restin af hópnum”, og það kom fyrir að ég leið fyrir það. Þeim eldri leiddist til dæmis ekkert að véla smá nammi af þeim yngri, þegar hann var búinn með sitt, og þeim yngri leiddist ekkert að láta véla sig á þennan hátt, því þá fékk ég auðvitað EKKERT :)


En hvort sem namminu var jafnt skipt eða ekki, þá stendur það nú fyrst og fremst uppúr að það var alltaf hægt að hlamma sér í sófann fyrir framan sjónvarpið og horfa á eitthvað skemmtilegt á laugardagskvöldum... svona ef bræður mínir voru ekki í stuði til að einoka sófann og banna þeim þriðja að fá að sitja þar :) Það var nefnilega alltaf eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu á laugardagskvöldum á þessum tíma.


En nú er öldin önnur, skal ég segja ykkur. Það stóð nefnilega aldrei til að að þessi pistill yrði um hvað bræður mínir voru vondir við mig (Það kom bara af sjálfu sér). Það eru einmitt laugardagskvöldin sem eru tilefni skrifanna að þessu sinni.


Hvernig dettur einhverjum heilvita manni að halda, að almenningur hafi gaman af því grábölvaða sjónvarpsefni sem borið er á borð fyrir okkur í hverri einusti viku, þessi misserin? Í alvöru talað; sjónvarpið á laugardagskvöldum er svo fáránlega leiðinlegt að ég hef staðið sjálfan mig að því að fara frekar út með ruslið, þvo þvott og vaska upp (!) en að horfa á þetta rugl. Spaugstofan hefur nú verið á dagskrá síðan árið 1912 og eldist jafn illa og ferskt grænmeti. Það er ekki einn fyndinn brandari í þessum þætti. Reyndar er bara einn brandari í þessum þætti yfir höfuð, en hann er ekkert fyndinn. Þeir stöglast á sama draslinu skets eftir skets, svona rétt eins og þjóðin þurfi að láta tyggja ofan í sig brandarann til þess að fatta hann. Ég gæti eflaust skrifað 1500 orða pistil um léleg gæði Spaugstofunnar, en ætla bara að láta staðar numið hér. Þetta er sem sagt ónýtt drasl, sem enginn nennir orðið að horfa á, og sóun á fé skattborgara!


Eftir að Haugsugunni lýkur, þá tekur við ennþá leiðinlegra sjónvarpsefni. Laugardagskvölin! Þessi þáttur snýst um það að fá 500 leiðinleg lög til að keppa um hvert þeirra er leiðinlegast og allt gert til þess að tryggja að maður fái nú örugglega ógeð á þeim öllum. Þættirnir eru nefnilega 1100 og hafa að ég held verið á dagskrá í mörg ár — alltaf sömu lögin. Í hverri viku dettur sem sagt eitt lag út, og um hver einustu áramót koma öll lögin sem duttu út, og keppa um það að fá að koma aftur inn. Ég hef ekki hugmynd um hver verður sigurvegari í þessari vitleysu — hvort það verður leiðinlegasta, eða skemmtilegasta lagið. Í hverjum mánuði er svo auðvitað upprifjunarþáttur með öllu draslinu og á Rás 2 keppa svo lögin sem endanlega duttu út, um að fá að komast aftur í þáttinn. Þannig að nú þegar höfum við séð hvert lag flutt um að bil 84 sinnum. Inná milli reynir svo blondínan Ragnhildur „Stuð-un” að fá áheyrendur til að gera bylgjur, telja á finnsku, klappa og syngja. Hún fær froðuheila og fávita af öllum stærðum og gerðum í heimsókn og alltaf tekst henni að segja allavega einu sinni: „Eigum við kannski að fá áheyrendur til að...” Eigum við hver??? Dettur manni stundum í hug að spyrja. Gísli á það til að segja eitthvað fyndið, og það er ekki farið að leyna sér neitt, að hann er farinn að vita af því. Hann er búinn að segja brandara um skallann á sér í 23 þætti í röð. Ég ætla nú ekki einu sinni að fjalla um dómnefndina í þessum þætti að öðru leyti en því að Erpur er svo glataður og smákrakkalegur að ég gæti kúkað!


En — hvað tekur svo við, eftir að Laugardagskvölinni er lokið? Þið sem skutuð á sprenghlægilega gamanmynd frá árinu 2007 eða magnaða spennumynd frá svipuðu ári, ættuð kanski að reyna að þrauka það að sitja í sófanum heima hjá ykkur heilt svona kvöld og sjá í alvöru að að gerist ekki! Það er nefnilega ekki svo óalgengt að þulan hefji upp sína raust og tilkynni okkur, sem erum þvinguð til að borga þetta apparat, eitthvað á þessa leið:


„Nú er að hefjast frönsk-ungversk sjónvarpsmynd frá árinu 1973, um konu sem ber nafnið Chepie, og heldur af stað til að leita föður síns eftir síðari heimsstyrjöldina. Hún kemur að öllum dyrum lokuðum, en þegar hún hittir mállausan austurrískan bónda, þá taka hlutirnir nýja stefnu. Með aðalhlutverk fara þau John Wolfowitz, Erika Usler, Maria Hackenbob og Frederic Ganz. Leikstjóri er Robert Lauren.”

Já, hvað er hægt að segja þegar maður fær viðlíka sprengju og þetta í sjónvarpinu hjá sér á laugardagskvöldi? Maður má auðvitað bara þakka fyrir að það er ekki boðið upp á svona „kavíar” á gamlárskvöld, því þá sæist eflaust ekki kjaftur úti að sprengja flugelda, hvað þá að kíkja á djammið.


Má ég þá frekar biðja um gömlu góðu dagana þegar bræður mínir voru að veifa namminu sínu framan í mig og henda mér úr sófanum, eða hvað það var sem þeir fundu uppá til að gera mér lífið leitt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður Birkir.

kv, frá DK.
F