Netið er endalaus uppspretta kynlegra kvista, furðufugla og hreinna og beinna geðsjúklinga. Það er fátt skemmtilegra aflestrar á vefnum en hugleiðingar fjársjúks fólks, kuklara, samsæriskenningasmiða og heimskingja. Í grunninn er það þetta sem dró mig að Barnalandi á sínum tíma og Huga og Málefnunum þar á undan. Skuggalega stór hluti þessa fólks hefur nú fundið sér athvarf á Moggablogginu þar sem það keppist við að gubba út úr sér illa stafsettum einlínungum við hverja fréttina á fætur annarri — en þeir allra hörðustu halda úti sínum eigin vefsetrum.
Veffangarinn og krypplingurinn að baki Netsögu skína einna skærast í þeim hópi og eiga alveg skildar ítarlegar umfjallanir við tækifæri. En þó toppsætinu sé ekki ógnað er alltaf gaman að rekast á nýja kandídata. Kumpánarnir Baldvin og Björgmundur sem standa að Vitund.is koma þar sterkir inn með íhugulli umfjöllun sinni um andleg málefni. Síðan er uppfull af yndislegum gullmolum um heilun, miðlun, reiki og fleira skemmtilegt.
Ég er t.a.m. margs vísari um heilun eftir að hafa lesið þetta:
Krafturinn birtist oft sem sterk stærðfræðileg uppbyggð ljósorka allt eftir því hver þörfin er. Margir hafa dulheyrn og geta þannig verið farvegur fyrir skilaboð. Fjöldi fólks hefur uppgötvað að það hefur dulheyrn án þess að gera sér grein fyrir því, fyrr en það á hættustund heyrir í leiðbeinendum sínum eða verndarenglum sem vara við eða hjálpa.
Svo ekki sé minnst á þennan frábæra kafla um grímuklædd útfrymi með pípuhatt:
Útfreimi er mjög sjalfgæf og erfið miðlunar aðferð. Útfreimi er notuð til að sanna tilvist fólks eftir dauðann. Með útfreimi er hægt að formbirta látna ættinga er gefur þeim tækifæri til að tala við ættinga í þeim tilgangi að sanna fyrir þeim tilvist þeirra. Við miðlun með útfreimi kemur hvít hvoða út úr munnviki einstaklingnum er framkvæmir miðlunina, og tekur þessi hvoða síðan á sig þá mynd einstaklingsins er á að formbirtast. Það tekur góða stund þangað til viðkomandi formbirting er tilbúin og EKKI er ráðlagt að snerta hana, en það getur skaða viðkomandi er framkvæmir hana og hann jafnvel látið lífið. Þessi aðferð er því hættuleg og erfið.
Best er þó líklega að hugmynda sér egg áður en lengra er haldið í að skoða síðuna. Allur er varinn góður:
Einn algengasta orkuvörn líkamans og jafnframt mikilvægasta er að setja líkamann inn í egg. Með því að setja sjálfan sig og þar með efnislíkamann inn í egg og fylla það af ljósi vermdum við okkur fyrir óþarfa orkumissi eða orkustuldri.
Ekki það, ég er eflaust betri maður eftir að hafa kynnt mér viðfangsefnið. T.d. er ég að öllum líkindum manneskja af þriðja geisla. Sem ég veit ekki hvernig ég hef komist af hingað til án þess að gera mér grein fyrir.
Hvað sem öllum rökum líður í endalausu stríði trúlausra og kuklara er alveg dagljóst hvor hópurinn er skemmtilegri. Ég tek talnaspeki á Útvarpi Sögu, predikun með Eiríki Sigurbjörnssyni á Omega eða illa stafsettar leiðbeiningar um hugmyndun eggja fram yfir þurrkuntulegan málflutning Vantrúarseggja. Hvenær sem er.
3 ummæli:
Fín síða drengir og til hamingju með þetta. Hlakka til að lesa framhaldið.
Jasso nú verður Gústi svangur
Össss... ég tala nú eflaust ekki fyrir hönd allra Vantrúarseggja, en maður tekur þessu sem hrósi ef að málflutningar okkar er þurrkuntulegur þá er hann allavega jarðbundinn miðað við snargeggjuðu bavíanana sem þú veltur þér stöku sinnum uppúr einsog húðstrýkt svín í salti og fori.
En þetta er flott síða hjá ykkur bræðrum, lýst assgoti vel á ´etta helvíti.
Skrifa ummæli