27. janúar 2008

Ég á mig sjálf, eða hvað?

Fyrir nokkrum árum ætlaði allt um koll að keyra vegna þess að Kári Stefánsson vildi fá að samkeyra sjúkraskýrslur og ættartré. Andstaðan varð gríðarleg. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra, var af mörgum álitin leppur illra afla og Kári sjálfur hefur haft hálf satanískan stimpil síðan. Gagnagrunnurinn rann meira og minna út í sandinn og sjónir fólksins snérust til Eyjabakka og Kárahnjúka. Valgerður Sverrisdóttir tók sér stöðu leppsins og Friðrik Sophusson varð árinn.Það mátti einu gilda þótt gagnagrunnur byggi yfir stórkostlegum möguleikum. Að hægt yrði að tengja erfðaþætti við tiltekna sjúkdóma og hugsanlega í framhaldinu hefja markvissa leit lækninga. Menn óttuðust misnotkun. Óttinn hnitaðist um tvö skyld meginstef. Annarsvegar stef sem kalla má sorgarsæluviðhorfið og hinsvegar lán-í-ólani-viðhorfið.


Sorgarsæluviðhorfið er það viðhorf að það sé einhver göfgi falin í uppkominni stöðu. Það eimir sterklega af forlagatrú. Stephen Fry angaði af þessu viðhorfi í þætti sínum um geðhvörf þar sem dramatískur lokahnykkur þáttanna var sú ákvörðun hans að hafna ímyndaðri lækningu. Með mjög svipuðum hætti tók fjöldi fólks þá einlægu afstöðu að það að gefa frá sér dulmagnið um eigin framtíð og stöðu væri ekki ávinningsins virði. Þótt ávinningurinn væri jafnvel lausn frá ógurlegum þrautum og/eða lífið sjálft. Þessi afstaða gæti þótt óskynsamleg og að mörgu leyti er hún það. En hún er samt sem áður afar skiljanleg og sammannleg. Ég held að nákvæmlega sama hvöt sé að baki þeirri húmanísku afstæðishyggju sem er að baki hjá þeim sem vilja tipla á tánum í kring um múslima þessi misserin. Aðeins birtingarmyndin er ögn breytt.


Lán-í-óláni-viðhorfið kalla ég það viðhorf sem leggst gegn mögulegum ávinningi af lækningu vegna nærtækari hagsmuna. Þannig lögðust margir gegn gagnagrunninum af þeim sökum að hægt væri að nota upplýsingarnar gegn þeim sem lögðu þær til. Tryggingarfélög gætu neitað að tryggja einstaklinga af tiltekinni ætt eða þjóðfélagsstöðu þegar þeim yrði ljóst að það yrði óhagkvæmt. Í raun snýst þessi andstaða um það að reyna að tryggja að menn geti gert sér ólán sitt að því takmarkaða happi sem það er að vinna í tryggingalottóinu. Það er ótrúlega gaman að lærbrotna daginn eftir að maður kaupir sér slysatryggingu.


En þá að efni þessa pistils.


Kári Stefánsson er fermingardrengur miðað við þá sem raunverulega svífast einskis við að afla sér upplýsinga í fjárhagslegum tilgangi. Í raun má líta svo á að tilraun til miðlægs gagnagrunns muni á síðari stigum þykja jafn sjálfsögð og almennar bólusetningar eða ungbarnavernd og að andstaðan við hann byggi fyrst og fremst á því að við höfum talið okkur hafa efni á henni og það hafi aðallega verið fullfrískt fólk sem tók sér þar prinsippstöðu á kostnað þeirra sjúku. Að þetta hafi verið ofeldiseinkenni makráðs samfélags.


Svo virðist sem leiðin að hjarta fólks liggi einmitt ekki í gegn um heilann og heilsuna. Það er miklu nærtækara að gera atlögu að hégóma fólks og nýta sér þá staðreynd að meira og minna allt fólk, sem býr við velsæld og þ.a.l. arðbærum upplýsingum, hefur ótakmarkað dálæti á sjálfu sér.Feisbúkk er undirförlasta fjárplógsaðferð sem ég minnist þess að hafa séð. Það byrjaði sem montklúbbur nokkurra Harvardnema, varð síðan að forréttindaklúbbi heldri borgara; en galopnaðist þegar stofnandinn sá hversu gríðarlega mikið af peningum hann gat grætt á því að kitla egó ríkrasta hluta heims. Í hvert skipti sem hann kitlaði, opnaðist skoltur fórnarlambsins og gullpeningur hrökk út.


Meðalfeisbúkknotandi er búinn að gefa miklu meiri upplýsingar um sig en Kára hefði dreymt um að afla. Hann hefur lagt fyrir upplýsingar um aldur, stöðu, kynhneigð, greind, áhugamál, vini, fjölskyldu og þekkingu. Og allar þessar upplýsingar má rekja fram og til baka um allt tengslanetið. Með því að láta ofurtölvur malla allan sólarhringinn við að leita að mynstrum og tengslum er hægt að kortleggja þig betur en nokkru sinni hefur verið hægt. Síðan er hægt að selja þessar upplýsingar einhverjum sem líklegur er til að græða á þér. Sá getur síðan setið fyrir þér þar sem þú munt fyrirsjáanlega vera.


Það furðulega er, að fólkið sem hamast hvað mest við að dæla persónuupplýsingum sínum inn á Feisbúkk, það er fólkið sem líklegast var til að vera á móti Díkód, Kára og -hnjúkum. Tiltölulega vel gefið fólk með nokkra menntun og gott upplýsingalæsi. Manni gæti dottið í hug að andstaðan við annað og nær gegndarlaus stuðningur við hitt sé hvorttveggja runnið af einni rót, hégóma yfir meðallagi.


Það er stundum talað um kolefnisfótspor. Það ætti að tala meira um upplýsingafótspor. Feisbúkk er aðeins eitt dæmi, það markvissasta. Google er samt sem áður risinn. Google geymir upplýsingar um allar þínar leitir. Þeir hafa síðan gert þessar upplýsingar að miljarðabisness. Og er hægt að nota þessar upplýsingar gegn þér? Að sjálfsögðu og það er gert. Tæknilega er hægt að nota þær gegn þér persónulega. Eitt af því sem þú leitar að mjög reglulega ert þú sjálf/ur. Þeir vita það. Þegar við er bætt öllum þeim hugborðum og ásetningi sem leit þín á Google er til marks um, þá verður til þekkingarsjóður (persónurekjanlegur) sem lætur allar hugmyndir Kára blikna.Ef ég ætti tryggingarfélag (og væri þ.a.l. siðblindur) myndi ég ekki hika við að gera díl við Google. Ég hefði lista af mismunandi útfærðum leitarorðum eins og krabbamein, hjartveiki, þunglyndi og slíkt stuðorð og svo keypti ég af þeim athugun á tengslum þessara orða og nafna þeirra sem sækja um tryggingar hjá mér. Komi í ljós að sami aðili hafi leitað óvenju mikið að þessum orðum, þá væri hann því miður ekki tryggingatækur hjá mér. Ópersónugreinanlegt að sjálfsögðu. Ég gæti ekki verið viss. Það gæti verið að tryggingartakinn ætti hjartveikan aðdáanda. En vogun vinnur og tapar.

Engin ummæli: