28. janúar 2008

Það sem skiptir máli


Stærsti hluti Íslendinga eru að markverðu leyti á ábyrgð þess opinbera í tæpa tvo áratugi, frá leikskóla og upp í gegn um framhaldsskóla.


Því miður er þessum árum ekki varið í margt af því sem skiptir mestu máli. Ganga má að því nokkuð vísu að allir þeir sem sinnt hafa námi sínu af alúð kunni um tvítugt að þátta annarsstigs margliðu; en því fer fjarri að öruggt sé að þeir kunni að mæta mótlæti eða höndla hamingjuna.


Handbók Epiktets er dálítil perla með hollum (en ögn einföldum) áminningum um gæfuríkt líf. Bókin er tvöþúsund ára gömul en af henni má ljóst vera að mannskepnan hefur haldist óbreytt í grundvallaratriðum. Farsældin er söm við sig og harmurinn einnig.


Nú hef ég um árabil starfað við skóla. Og mikið asskoti langar mig að taka Óla Stefáns á orðinu og prófa skólastefnu í ætt við hugmyndir Asks. Hví ekki?


En við endum á nokkrum brotum frá Epiktet.


Ef einhver er fljótur að þvo sér skaltu ekki segja að hann þvoi sér illa heldur að hann þvoi sér í hratt. Ef einhver drekkur mikið vín skaltu ekki segja að hann dreki illa heldur að hann drekki mikið. Því að hvernig átt þú að geta dæmt um hvort hvort verk hans eru ill ef þú þekkir ekki viðhorf hans? Ef þú gætir þess muntu aðeins fallast á þær skoðanir sem þú skilur til hlítar.

Það er rökvilla að álykta svona: Ég er mælskari en þú og þar af leiðandi þér fremri. Rökréttara er: Ég er ríkari en þú og því á ég meiri auð. Eða: Ég er mælskari en þú og því held ég betri ræður. En þegar öllu er á botninn hvolft ertu hvorki auður þinn né ræða.

Biddu ekki um að allt gerist eins og þú vilt. Biddu um að þú viljir að allt gerist eins og það gerist.

Það eru ekki atburðirnir sjálfir sem valda áhyggjum heldur viðhorfin til þeirra. Dauðinn er t.d. ekki skelfilegur [...] aðeins það viðhorf að dauðinn sé skelfilegur er skelfilegt.

Engin ummæli: