21. apríl 2013

Hið stóra vandamál PírataHugsum okkur völd í samfélaginu sem upphækkaðan garð sem búið er að múra inni. Þeir sem inni eru hafa lykla og ráða miklu um það hverjir fá að koma inn og hverjum er hent út. Ef fram kæmi stjórnmálaafl sem legði stiga upp að veggnum sem hverjum sem er væri frjálst að nota – má búast við nokkru uppnámi. Frjálst og opið kerfi við val á pólitískum fulltrúum er dæmt til að skila misjöfnum sauðum á dekk. Við það glíma Píratar núna. Það er varla til sá listi þeirra fyrir þessar kosningar sem inniheldur ekki að minnsta kosti eina manneskju sem virkar verulega vafasöm í meira lagi. Í sumum tilfellum á þetta fólk jafnvel möguleika á einhverjum völdum.

Hér má þó taka til varna fyrir Pírata með að minnsta kosti tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að benda á að vafasama fólkið sé miklu færra en hitt. Þannig sé innbyggður í kerfið dempari á vitleysuna. Samfélagið sé enda þannig. Ýmsar raddir séu uppi, það sé ekkert sérstakt gustukaverk að þagga niður í þeim sem maður kunni ekki við að heyra. Það framleiði ekki aðeins vænissjúka menningarkima heldur búi til hefð fyrir ritskoðun og einangrun valds – sem aldrei lætur sér nægja að halda burtu þeim sem augljóslega eru ruglaðir.

Í öðru lagi geta Píratar bent á að opið og gegnsætt stjórnmálakerfi virki eins og hvert annað kerfi að því leyti að þegar kostir þess verða ljósir og þátttakendur fleiri þá verði meiri samkeppni um aðgang og þessi aukna samkeppni leiði til þess að grasrótin fái smám saman öflugri og verðugri fulltrúa. Í fyrsta skipti sjáist áhrif smæðarinnar – en það sé fyrst og fremst kerfið sem Píratar séu að bjóða, ekki þessir tilteknu einstaklingar. Kerfið hafi byrjendahnökra, eins og öll kerfi. Við því sé ekkert að gera, annað en að komast yfir hnökrana og láta til skarar skríða.

Að verulegu leyti duga þessar mótbárur til að takast á við megnið af þeirri gagnrýni sem Píratar hafa mætt. Atkvæði í leit að flokki getur jafnvel hugsað sér að kjósa þá til að gefa flokknum vægi svo að hann komist í þá aðstöðu að lúsahreinsa sig fyrir næstu kosningar. Í því efni eru einhver fylgismörk sem þarf að ná – sem óvíst er að Píratar nái nokkru sinni.

Sumir Píratar hafa unnið sér það eitt til skammar að vera dálítið ófágaðir, jafnvel örlítið félagslega mistækir. Það er mun minni glæpur ef það er þá það.

Eitt vandamál glíma Píratar þó við sem þeim ber að taka alvarlega. Þetta er vandamál sem snertir kjarnahugsun framboðsins og stefnir því í hættu. Píratar geta haft ólíkar skoðanir á næstum öllu. Það er ekki ætlast til heildstæðrar stefnu í öllum smáatriðum. Það er ekki einu sinni heildstæð stefna í nokkrum stórum málum. Þeir eru enda að bjóða fram aðferð til skoðanamyndunar – ekki skoðanirnar sjálfar.

Aðall þeirra er að upplýsingar feli í sér vald og þetta vald eigi heima meðal almennings. Það sé ótækt að stjórnmálamenn eða aðrir skáki í skjóli valds og haldi upplýsingum frá almenningi. Rót Pírata rennur djúpt niður í hugarfar Upplýsingarinnar.

En hér þurfa Píratar að horfa til þess að aðgengi að upplýsingum snýst ekki bara um að mölva niður leyndarmúra. Kostirnir eru ekki bara tveir: upplýsing og þögn.

Aðgengi að upplýsingum snýst líka um að verjast þeim sem viljandi eða óviljandi spilla upplýsingum. Andupplýsing er ekki minna eitruð en þöggun eða leynd.Barátta Pírata fyrir upplýsingum er eins og barátta fyrir hreinu vatni. Það er ekki nóg að krefjast þess að fólk hafi aðgang að vatnsbólinu. Það þarf líka að berjast gegn því að bólið sé mengað.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en sumir af þeim sem ástríðufyllstir eru í upplýsingaspillingu lögðu töluvert á sig til að komast að hjá Pírötum. Þess eru skýr merki að grasrót Pírata sé verulega menguð af áróðursfólki and-upplýsingar.

Aftur geta Píratar gripið til sömu varna og áður og bent á að þetta fólk sé í minnihluta og líklegt til að hverfa þegar framboð eykst við meiri eftirspurn.

Það er samt verulegt umhugsunarefni hvernig það getur gerst að fólk sem er í raun og veru fulltrúar þess sem stjórnmálahreyfingin er sett til höfuðs – komist þar í álnir. Fólk sem jafnvel hefur dælt frá sér ógrynni upplýsinga sem eru villandi, blekkjandi eða til þess fallnar að spilla upplýsingaforðanum. Hvernig má það vera að Píratar hafi ekki séð þetta? Og hafi þeir séð þetta, var þeim virkilega bara sama?

Þetta er ekki lítið mál. Þetta er eins og hómófób í framboði fyrir mannréttindasamtök eða harðlínu trúleysingi í framboði fyrir endurfædda kristna.

Sú grasrót sem veitir slíku fólki brautargengi getur ekki haft góða dómgreind. Það sem meira er, það bendir ýmislegt til þess að hún hafi verulega slaka dómgreind. Alveg óháð því hvort aðferðin er góð eða ekki, þá er niðurstaðan óforsvaranleg.

Það er eðlilegt fyrir atkvæði að fælast.

9 ummæli:

Eva sagði...

Hverskonar glæponar eru það sem þrífast meðal Pírata sem önnur framboð eru laus við?

Beltiras sagði...

Þú leggur upp með vandamálinu og lausninni og segir *síðan* að vandamálið geri lausnina að engu? Það er algerlega rétt að Píratar gátu ekki sjálf-samsett sig (hugmynd fengin úr þýðendum, self-compilation), en ég hugsa að þú sért sammála að stjórnmálahreyfingar eru flóknari en svo að vera sett saman úr málfarsreglum og reglulegum segðum. Taktu eigin gagnrýni alvarlega.

Nafnlaus sagði...

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg. Nákvæmlega hvaða áróðursfólk ertu að tala um og nákvæmlega hvaða and-upplýsingar?

Bjorn Levi sagði...

Það er ekki hægt að gagnrýna nema rökin komi fram í dagsljósið - Píratar sem vettvangur samsæriskenninga er tvímælalaust versti vettvangurinn til þess því þar þurfa þingmenn að tala samkvæmt stefnu (og sannfæring þeirra er lýðræðislega ákvörðunin óháð persónulegri skoðun). Þannig er auðvelt að finna gallana.

Síðan hvenær hafa samsæriskenningar staðist gagnrýni?

Unknown sagði...

bwahahahaha þessir einstaklingar sem þú ert greinilega að ræða um eru þeir einstaklingar sem eru vakandi og gagnrýna hluti, en þeir sem hafa verið við völd og öll þessi risafyrirtæki auðmannarsulið etc eru þeir fávitar sem dreifa andupplýsingum, og heimska hjörðinn sem þú greinilega tilheyrir kaupir allt kjaftæðið uppúr auðmannaruslinu

Salvor sagði...

Ragnar, fín pæling en ég er ekki sammála þessu "Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en sumir af þeim sem ástríðufyllstir eru í upplýsingaspillingu lögðu töluvert á sig til að komast að hjá Pírötum. Þess eru skýr merki að grasrót Pírata sé verulega menguð af áróðursfólki and-upplýsingar". Ég held ég þekki eða kannist við flesta sem eru fremst í flokki hjá Pírötum og marga þekki ég einmitt gegnum netmiðlun ýmis konar og það segir sína sögu að mörgum kynntist ég einmitt fyrst í gegnum það að ég fékk áhuga á að skrifa greinar á íslensku Wikipedíu, margir eru eins og ég, fólk með brennandi áhuga á að almenningur fái góðar og sem hlutlausastar upplýsingar og á sem bestu formi. Það eru margir fríþenkjarar meðal Pírata, fólk sem spyr spurninga og er óhrætt við að fara ekki hefðbundna leið.

Það voru ekki margir sem tóku þátt í prófkjörinu og fáir sem buðu sig fram og ennþá færri sem sóttust eftir efstu sætunum, ég held satt að segja að allir sem sóttust eftir einhverju af þremur eða fjórum efstu sætum hafi komist í þau. Ég kaus bara þá sem ég þekkti vel úr öðru samhengi og vissi alveg hvað stóðu fyrir í efstu sætin, ég man einmitt að ég hikaði við að kjósa fólk í efsta sætið sem ég vissi ekkert um og hélt að hefði ekki neinn skilning á mikilvægi upplýsingafrelsis og frjálsrar menningar, fólk sem mér virtist laðast að framboðinu fyrst og fremst vegna þess að það var öðruvísi og einhvers konar andóf.

Ég neita því ekki að það hafa verið mér vonbrigði að sjá sum gömul skrif frambjóðenda í efstu sætum og finna heift og andúð skína út úr skrifum sem tengjast mannréttindabaráttu kúgaðra hópa og viðleitni til að draga í svaðið hreyfingar sem berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. En fólk breytist og þroskast og enginn ætti að vera dæmdur fyrir í dag það sem hann skrifaði fyrir mörgum árum ef til eru gögn og skrif sem styðja að einhver breyting hafi orðið. Það kann að vera að Píratar urðu betri en þeir eru núna ef farið væri í gegnum aðrar kosningar, núna eru píratar bara óslípaðir demantar. En núna er sennilega langmest af hugsjónafólki innan pírata, það var farið fram með þetta framboð með það í huga að það færi fram hvort sem það fengi 5 % eða minna, fólk var alveg tilbúið til að standa að þessu þó í fyrstu virtist sem atkvæði væri kastað á glæ, það er afar erfitt að rjúfa 5% múrinn sem þarf til að ná inn manni og engin fjármálaöfl sem standa á bak við pírata. Ég hef reynslu af öðrum flokki Framsóknarflokknum og að hafa verið þar í mörg ár. Alltaf þegar einhverjar líkur voru á að Framsókn fengi einhver völd var eins og einhver hópur valdagráðugra hugsjónalausra manna streymdi að í von um einhverja bitlinga og hagsmunagæslu. En þegar flokkurinn var valdalaus þá hvarf það fólk eins og dögg fyrir sólu. Reyndar er það þannig að fólk sem vill vera í víglínunni í stjórnmálum er oft valdagírugir einstaklingar sem sækjast í sviðsljósið og þannig fólki hættir dáldið til að vera á einhverju egóflippi. En það er sameiginleg hugsjón hjá pírötum að valdefla almenning.

Varðandi kosningakerfið þá eru margir hnökrar á því og ég lít á það fyrst og fremst eins og tilraun með annað form sem vonandi er betra. En það er of mikil áhersla lögð á kosningar og að með kosningum um alls konar hluti þá batni allt. Það er auk heldur berskjaldað fyrir alls konar skrýtinni notkun t.d. að hagsmunahópar taki sig saman, safni kennitölum og keyri einhverjar samþykktir í gegn.

Salvor sagði...

Ragnar, fín pæling en ég er ekki sammála þessu "Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en sumir af þeim sem ástríðufyllstir eru í upplýsingaspillingu lögðu töluvert á sig til að komast að hjá Pírötum. Þess eru skýr merki að grasrót Pírata sé verulega menguð af áróðursfólki and-upplýsingar". Ég held ég þekki eða kannist við flesta sem eru fremst í flokki hjá Pírötum og marga þekki ég einmitt gegnum netmiðlun ýmis konar og það segir sína sögu að mörgum kynntist ég einmitt fyrst í gegnum það að ég fékk áhuga á að skrifa greinar á íslensku Wikipedíu, margir eru eins og ég, fólk með brennandi áhuga á að almenningur fái góðar og sem hlutlausastar upplýsingar og á sem bestu formi. Það eru margir fríþenkjarar meðal Pírata, fólk sem spyr spurninga og er óhrætt við að fara ekki hefðbundna leið.

Það voru ekki margir sem tóku þátt í prófkjörinu og fáir sem buðu sig fram og ennþá færri sem sóttust eftir efstu sætunum, ég held satt að segja að allir sem sóttust eftir einhverju af þremur eða fjórum efstu sætum hafi komist í þau. Ég kaus bara þá sem ég þekkti vel úr öðru samhengi og vissi alveg hvað stóðu fyrir í efstu sætin, ég man einmitt að ég hikaði við að kjósa fólk í efsta sætið sem ég vissi ekkert um og hélt að hefði ekki neinn skilning á mikilvægi upplýsingafrelsis og frjálsrar menningar, fólk sem mér virtist laðast að framboðinu fyrst og fremst vegna þess að það var öðruvísi og einhvers konar andóf.

Ég neita því ekki að það hafa verið mér vonbrigði að sjá sum gömul skrif frambjóðenda í efstu sætum og finna heift og andúð skína út úr skrifum sem tengjast mannréttindabaráttu kúgaðra hópa og viðleitni til að draga í svaðið hreyfingar sem berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. En fólk breytist og þroskast og enginn ætti að vera dæmdur fyrir í dag það sem hann skrifaði fyrir mörgum árum ef til eru gögn og skrif sem styðja að einhver breyting hafi orðið. Það kann að vera að Píratar urðu betri en þeir eru núna ef farið væri í gegnum aðrar kosningar, núna eru píratar bara óslípaðir demantar. En núna er sennilega langmest af hugsjónafólki innan pírata, það var farið fram með þetta framboð með það í huga að það færi fram hvort sem það fengi 5 % eða minna, fólk var alveg tilbúið til að standa að þessu þó í fyrstu virtist sem atkvæði væri kastað á glæ, það er afar erfitt að rjúfa 5% múrinn sem þarf til að ná inn manni og engin fjármálaöfl sem standa á bak við pírata. Ég hef reynslu af öðrum flokki Framsóknarflokknum og að hafa verið þar í mörg ár. Alltaf þegar einhverjar líkur voru á að Framsókn fengi einhver völd var eins og einhver hópur valdagráðugra hugsjónalausra manna streymdi að í von um einhverja bitlinga og hagsmunagæslu. En þegar flokkurinn var valdalaus þá hvarf það fólk eins og dögg fyrir sólu. Reyndar er það þannig að fólk sem vill vera í víglínunni í stjórnmálum er oft valdagírugir einstaklingar sem sækjast í sviðsljósið og þannig fólki hættir dáldið til að vera á einhverju egóflippi. En það er sameiginleg hugsjón hjá pírötum að valdefla almenning.

Varðandi kosningakerfið þá eru margir hnökrar á því og ég lít á það fyrst og fremst eins og tilraun með annað form sem vonandi er betra. En það er of mikil áhersla lögð á kosningar og að með kosningum um alls konar hluti þá batni allt. Það er auk heldur berskjaldað fyrir alls konar skrýtinni notkun t.d. að hagsmunahópar taki sig saman, safni kennitölum og keyri einhverjar samþykktir í gegn.

Nafnlaus sagði...

Með sömu rökum og Ragnar Þór færir hér mætti færa rök fyrir netritskoðun. Vildi bara benda á það.

savar sagði...

Skarplega athugað
Ég er á sömu skoðun.
Miðað við hvert rökfæsrsla þín stefndi átti átti ég von á að þau myndir nafngreina sérstaklega aðstoðarmann Birgittu Jónsdóttur og höfund Machiavelli hversins The Game of Politics. En þú gerir það ekki.
En það sýnir að andupplýsingin (ef ég skil rétt hvað þú átt við með hugtakinu) er ekki eitthvað sem hefur læðst inna á lista Pírata, heldur er drifkraftur framboðsins.

Jón Þór er jú einn af prímusmótorum og foringjum partísins.

Kveðjur
Sævar