12. maí 2013

Hagræðing kemur af sjálfri sér ef...

Skólakerfið á Íslandi líður fyrir einsleitni og miðstýringu. Grunnskólinn er hlutfallslega dýr en frekara nám er fjársvelt. Grunnskólinn sinnir aukinheldur illa öðru námi en bóknámi. Verknám er smánarlega lítið og aðgengi að listnámi ræðst af efnahag foreldra.

Á sama tíma eru mörg svæði á Íslandi á hverfanda hveli. Allt sem er rauðlitað á myndinni hér að neðan eru deyjandi byggðir. Fólksfækkun á þessum svæðum er viðvarandi og langvinn. Aldurshlutföll þessara samfélaga er skökk. Ungt fólk kýs að búa annarsstaðar á Íslandi. 


Mynd úr skýrslu Byggðastofnunar.


Byggðastefna á Íslandi virðist einskorðast við samgöngumannvirki og stóriðju. Stóri, rauði flöturinn á N-Austurlandi bíður þess í ofvæni að hola gegnum Vaðlaheiði og stóriðja við Skjálfandaflóa blási lífi í atvinnulífið og þar með svæðið í heild sinni. Ég ætla að leyfa mér að vera svo svartsýnn að spá því að slíkt muni ekki duga til að bjarga hinni deyjandi byggð, t.d. á Raufarhöfn. 

Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni að í þessum hverfandi samfélögum búi gríðarlegir möguleikar. Vandi þeirra er skökk samfélagsgerð. Hana þarf að rétta af. Það verður ekki gert með því fyrst og fremst að búa til störf fyrir lítið eða miðlungs menntaða karlmenn. Það verður gert með því að laða til svæðanna ungt fólk með börn.

Einfaldasta leiðin til þess er að sjá til þess að á þessum svæðum séu bestu grunnskólar á Íslandi – og þótt víðar væri leitað.

Tveir samkennarar mínir fluttu síðasta haust á Strandir og stjórna þar litlum skóla með fáum nemendum. Þau eru bæði sprelllifandi skólafólk með heilbrigðar og lífvænlegar hugmyndir um tilgang og eðli skólakerfisins. Þeirra fyrsta viðbragð var að rjúfa einangrun svæðisins með því að laða til sín fólk af öðrum svæðum sem hafði eitthvað að færa hinu litla samfélagi. Um leið markaði litla samfélagið spor í þá sem komu í heimsókn. 

Við þurfum meira af slíku. Viðfangsefni grunnskólans eru einfaldlega of víðfeðm til að mjög fáir kennarar geti búið yfir allri hæfni og færni sem farið er fram á. Þess vegna eru margir skólar ýmist að vanrækja eða kenna illa ákveðin svið. 

Mín hugmynd er þessi:

Sveitarfélög, atvinnulífið, ríkið og kennarasamtökin eiga að greiða götu nýrrar skólagerðar, fyrst um sinn á svæðum sem sannanlega eru að lognast útaf. Markmiðið er að skólinn verði afbragð íslenskra skóla. 

Skólarnir á þessum svæðum væru sameiginlegt samfélagslegt verkefni. Skólinn væri ekki eingöngu ætlaður börnum og starfsfólki. Hann væri menningarmiðstöð í hverju samfélagi fyrir sig. Þar færu fram tónleikar, námskeið og félagslíf fyrir alla íbúa samfélagsins. Eðlilegur þáttur í starfi skólans væri samvinna og samvera barna og fullorðinna. Eins væri eðlilegt að börn í skólanum færu út fyrir veggi hans og út í samfélagið í námi sínu. Börn myndu læra á ferðaþjónustuna, landbúnaðinn og iðnaðinn og allt hitt sem einkennir samfélagið. Í hádeginu mætti hugsa sér að eldra fólk rölti í skólann og borðaði með börnunum eða starfsfólk ákveðinna fyrirtækja. Maturinn kæmi að verulegu leyti úr nærsamfélaginu og nemendurnir vendust því að taka þátt í að afla hans, með ræktun, umhirðu og veiðum.

Námið yrði að verulegum hluta rafrænt. Hið opinbera stuðlaði að bættum fjarskiptum þar sem þörf væri á. Heimilin, foreldrar og nemendur fengju stuðning til að koma sér inn í tækniöld. Námsefni og hæfni yrði haldið að öllu heimilisfólki og foreldrum gert kleift að sækja sér menntun um leið. Nemandinn og foreldrar yrðu gerðir ábyrgir fyrir stærri hluta menntunar barnsins. Nemendur sem eiga langt að sækja skóla gætu hæglega unnið heima hjá sér einhvern hluta vikunnar, undir eigin verkstjórn.

Kjarnagreinar væru kenndar með 1:1 kennslufræði þar sem hver nemandi færi á sínum hraða og hefði áhrif á námsferil sinn. Á hverjum stað væru framúrskarandi umsjónarkennarar sem hefðu það hlutverk að efla námsfærni barnanna í aldursblönduðum hópum. 

Notkun fjartækni leiddi til þess að „kennarar“ barnanna gætu síðan verið staddir hvar sem er í veröldinni. Nokkur börn í hverju samfélagi gætu numið af einum kennara í Ástralíu meðan önnur börn væru að nema hjá kennara í Kópavogi.  

Loks væri hópur „farkennara“ á vegum skólanna. Það væri barnafólk og einstæðingar; ungir og aldnir kennarar sem fengju verulega góð laun og fríðindi. Þeirra hlutverk væri að búa nokkrar vikur í einu í hverju samfélagi fyrir sig og kenna faglega krefjandi greinar – annaðhvort í fyrirferðarmiklum lotum eða til að hnykkja á í greinum sem þess á milli eru fjarkenndar. Í hópnum væru vísindamenn, listamenn og aðrir sem ekki aðeins kenndu börnum heldur leggðu sitt af mörkum til menningarlífs á staðnum þegar við ætti. Þeir héldu námskeið fyrir fullorðna, tónleika eða sýningar. Þeir tækju þátt í félagslífi á hverjum stað, útivist og samfélagslegum viðburðum.

Nemendur á mismunandi stöðum störfuðu náið saman með notkun tækninnar og færu svo í heimsóknir hverjir til annarra og gerðu hluti saman. Þeir gætu líka verið skiptinemar hverjir hjá öðrum.

Loks byggði starfið á ýmsum gestum. Fólk, jafnvel utan úr heimi, sem bættist í mannlífssúpuna. Stjörnuskoðunarfélagið kæmi á staðinn, Vísindalestin, tónlistarmenn og annað fólk. 

Reynt væri að tryggja að nemendur gætu verið í þessu umhverfi til a.m.k. 18 ára aldurs og þá væru sumir komnir langleiðina með framhaldsskólann. Best væri að börn gætu farið beint úr foreldrahúsum í háskóla.

Ef bestu skólar á Íslandi væru á landsbyggðinni og aðall þeirra væri einstaklingsmiðað, fjölbreytt nám – þá er ekki spurning að það myndi skapa aðdráttarafl fyrir foreldra. Venjuleg hagræðing með stórum námshópum í einhæfu kennaramiðuðu umhverfi er raunveruleiki hagræðingar þar sem „neytandinn“ er skilgreindur sem „hreyfanlega stærðin“. Hagræðing þar sem „þjónustan“ er hreyfanleg hefur þar til nýlega ekki verið skýrt skilgreindur möguleiki. Það er ekkert sem stendur í vegi þess þegar kemur að menntamálum. Það sem meira er, unga fólkið sem snýr aftur í heimabyggðirnar til að blása lífi í skólana sína fer næstum sjálfkrafa í slíkar aðgerðir. Vandinn er að kerfið er enganveginn vaknað.

Ef framúrskarandi skólafólk kæmi saman og skapaði besta mögulega skólann fyrir raunveruleika hinna dreifðu byggða og fengi síðan stuðning til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd – þá kæmi hagræðingin af sjálfri sér.

Engin ummæli: