25. apríl 2013

Litlir menn og stór loforð



Lokaorrusta kosningabaráttunnar er hafin. Aðalleikari næstu tvo daga verður Björt framtíð sem nú hefur blásið í herlúðra. Ekki endilega til að safna miklu fylgi (það gerist ekki) heldur til að vera nógu áberandi til að réttlæta aðkomu sína að meirihlutaviðræðum í næstu viku.

Pólitískur ferill Bjarna Ben er búinn nema hann komi flokknum í vænlega stöðu. Ferill Árna Páls hófst aldrei. Báðir eru sárir og óska sér einskis heitar en að hafa völd yfir atburðarásinni næstu vikuna og síðan stjórnartaumana næstu fjögur ár.

Framsókn varð dálítið hrokafull undan öllu þessu mikla fylgi sem mældist í könnunum og því eindregnari í afstöðu sinni sem fylgið virtist endingarbetra. Flokkurinn hefur lagt allt undir eitt tiltekið loforð – sem engan nema Framsókn langar tiltakanlega að efna.

Framsókn mun aldrei gefa eftir almenna leiðréttingu húsnæðislána. Það yrðu svik á stjarnfræðilegum skala. Framsókn myndi seint gefa eftir forsætisráherrastólinn (en gæti neyðst til þess ef Sjálfstæðisflokkurinn endar stærri).

Framsókn er búin að gefa stærsta loforð þessarar kosningabaráttu.

Vandinn er sá að oddvitar flestra hinna flokkanna eru litlir karlar. Litlum körlum fer ekki vel að gefa stór loforð – hvað þá standa við þau. Þeir hugsa í mínútum og dögum, ekki árum eða áratugum.



Náist til þess meirihluti verður fyrsti kostur allra að halda Framsókn í minnihluta. Bjarni Ben mun ekki eiga í neinum vandræðum með að starfa með Árna Páli og Guðmundi Steingrímssyni. Guðmundur mun kalla það „ný stjórnmál“ að ná víðtækri sátt og samstarfsvilja þvert yfir pólitíska litrófið. Árni Páll mun horfa á málið sömu augum og telja sig fá uppreista æru eftir að hafa verið vikið frá í síðustu ríkisstjórn fyrir að vera, að því er sagt var, of náinn óvininum og of sveigjanlegur við Sjálfstæðisflokkinn.

Samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði endanlegt uppgjör (og sigur) gegn ósveigjanleika Jóhönnustjórnarinnar og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking munu í fyllingu tímans skrifa ónýta starfshætti þingsins síðustu misseri á Jóhönnu.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aðeins þurfa að slaka á andúð á aðildarviðræðum við ESB og þannig miðla til hófsamari arms flokksins. Ég held að þeir séu enda komnir með meira en nóg af háskerpunni í hægri jaðrinum í bili.

Framsókn situr eftir, svekkt og súr, og heldur áfram að deyja drottni sínum án áhrifa.

Samfylkingin er þá að hefja þriðja stjórnarsamstarfið í röð og í raun tekin við sögulegu hlutverki Framsóknar í bili, sem flokkurinn sem á greiðasta leið að völdum með aðlögunarhæfni.

Sveigjanleg Framsókn hefði verið fyrsti kostur Sjálfstæðismanna. Kröfuhörð og eindræg Framsókn er ekki fyrsti kostur neins.

Það skiptir í raun ekki hvort það verður Sigmundur Davíð eða Bjarni Ben sem fær stjórnarmyndunarumboðið. Meðan leiðin D + S + A er fær mun öllum reynast „ómögulegt“ að gera stjórnarsáttmála byggðan á ítrustu loforðum Framsóknar.



Það er því ekki sérlega vel þegið þegar gamlir Samfylkingarhagfræðingar daðra við það að leið Framsóknar sé eðlilegasta færa leið jafnaðarmannaflokks. Það gengur þvert á jaðarsetningu Framsóknar sem er forspilið að fyrirhuguðu „glæstu“ samkomulagi Árna Páls og Bjarna Ben, með fulltingi Guðmundar Steingríms.

Það er engin önnur stjórn raunverulega í kortunum þegar persónulegir hagsmunir stjórnmálaleiðtoganna eru hafðir í huga.

Eins og staðan er í dag hefði slík stjórn 33 þingmenn. Þeir þyrftu að verða 35 til að fjöldinn yrði þægilegur. Það er alls ekki útilokað. Til þess að það hafist mun Björt framtíð sópa til sín því sem mögulegt er og Samfylkingarfólk mun slaka aðeins á áróðrinum gegn Sjálfstæðisflokknum og beina alefli gegn Framsókn þessa síðustu daga.

Að lokum. Sá flokkur sem á mest fylgi inni (fyrir utan Sjálfstæðisflokk) er Samfylkingin. Sá flokkur sem er ofmetnastur er Framsókn. Það þarf sérkennilega sort af pólitískri blindu til að sjá ekki að það er að öllu leyti hagkvæmast fyrir Sjálfstæðisflokk að tryggja að sá ofmetni sé í stjórnarandstöðu en ekki sá vanmetni.

1 ummæli:

Bjarki Hilmarsson sagði...

Stjórnarskrármálið sýndi okkur nú að framsókn er fær um svik á stjarnfræðilegum skala. sbr. https://www.youtube.com/watch?v=uf66Nkqiu3A