Kosningabaráttan núna mun venju fremur snúast um róttækar patentlausnir. Burt með kvótakerfið, burt með krónuna, burt með verðtrygginguna, burt með stökkbreyttu lánin og svo framvegis. Öll eru þessi verkefni margslungin og óútreiknanleg. Það þýðir ekki að það eigi ekki að fást við þau. Það þýðir aðeins að þau skuli nálgast með virðingu. Patentlausnir þarf að forðast eins og heitan eldinn.
Í augnablikinu virðist fylgi vera að seytla til Framsóknar. Þar innan borðs eru einstaklingar með skarpa hugsun og góðar hugmyndir. Og aðrir síðri. Ég tel nokkurnveginn útilokað að skynsemisöflin í flokknum dugi sem mótstaða gegn langvinnum lífsstílssjúkdómi flokksins. Honum er eiginlega fyrirmunað að fara í kosningabaráttu án patentlausna.
Síðan ég byrjaði að kjósa hefur Framsóknarflokkurinn lofað mér ýmsu í skiptum fyrir atkvæði mitt. Rétt fyrir aldarmót átti ég að fá 12 þúsund ný störf og fíkniefnalaust Ísland. Upp úr aldarmótum bauðst mér 90% húsnæðislán og ég verð hissa ef ég losna ekki við verðtrygginguna í skiptum fyrir atkvæði mitt núna.
Venjulega er áhyggjuefnið við að ráðstafa atkvæði sínu hvernig maður ætlar að takast á við vonbrigðin þegar í ljós kemur að flokkurinn svíkur allt sem lofað var. Í tilfelli Framsóknar er eiginlega meira áhyggjuefni ef flokkurinn vinnur samviskusamlega að því að efna loforðin.
Oddastaða Framsóknar hefur haldið flokknum mun lengur að völdum en vægi hans gefur til kynna að sé eðlilegt eða æskilegt. Síðan ég komst til stjórnmálalegst þroska hefur flokkurinn í huga mér tekið á sig mynd einhverrar vanskapaðrar holdtekju Mídasar konungs. Allt sem flokkurinn snertist virðist verða að bulli.
Fíkniefnalaust Ísland um aldamót sýnir kannski best hversu jarðtengingin er veik. Flokknum datt engin betri leið í hug en að berja á dópmöngurum með hinum langa armi laganna. Þeir litlu sigrar sem unnust hurfu í kókaínskafrenninginn. Hert eftirlit með smygli virðist hafa skilað því einu að tíunda hver blokkaríbúð er notuð undir ræktun eiturlyfja – sem haldið er að börnum og unglingum sem aldrei fyrr.
Níutíuprósent húsnæðislán og bygging risastíflu á sama tíma reyndist herópið sem hinir „nýfrelsuðu“ bankar (m.a. undir stjórn Framsóknarmanna) þurftu til að fara í víking á lánsfjármörkuðum erlendis. Afleiðingar þess þarf ekki að ræða.
Ég er eiginlega barasta skíthræddur við efndir þeirra kosningaloforða sem ég finn á mér að verið er að malla inni á framsóknarkontórnum.
Ég vil því biðla til þeirra Framsóknarmanna sem ég veit að eru hófstilltir og grandvarir að veita patenttilhneigingunni viðnám innan flokksins. Það má vel vera að fiska megi atkvæði með afdráttarlausum loforðum og stefnumiðum. Reynslan bendir bara til þess að þessi tiltekni flokkur umgangist slíkt af hræðilegum glannaskap.
Það virðist nefnilega svo að þróunarkenning stjórnmálanna leiði í ljós að kosningasvik eru órjúfanlegur þáttur í að samfélagið lifi stjórnmálin af.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli