18. febrúar 2013

Hugleysi mætir áhugaleysi í skólamálum

Kennaraverkfalli hefur verið afstýrt í bili. Viðræður hafa engu skilað enda er himinn og haf á milli málsaðila eins og ég hef ítrekað bent á hér á síðunni. Þess vegna var ákveðið að „endurnýja“ viðræðurnar. Það þýðir auðvitað bara meira af því sama.

Formaður Félags grunnskólakennara sendi kennurum bréf í dag þar sem þetta er tilkynnt. Ég verð að segja að þótt ég skilji alveg röksemdirnar að baki ákvörðuninni þá finnst mér dálítið aumlegt hvernig kennaraforystan virðist ekki vilja bera ábyrgð á henni. Í stað þess að formaðurinn segi einfaldlega að FG telji þetta besta kostinn á þessum tímapunkti er skipulega reynt að skýla sér bak við aðra. Rökin eru þessi: Ríkissáttasemjari lagði til að samningsaðilar byrjuðu upp á nýtt. Þar sem samningar voru ekki í gildi var ekki öruggt að kennarar fengju hina almennu launahækkun sem veitt verður næstu mánaðarmót flestum stéttum. Fjölmargir kennarar hafa sótt fundi sem KÍ hefur haldið og þar hafa flestir viljað slíka hækkun. Þess vegna hefur verið ákveðið að framlengja samningnum sem rann út í fyrra og fá við 4% hækkun 1. mars. Þá verður framlag til sjóða félagsins hækkað agnarögn.



Á mannamáli þýðir þetta að forysta kennara telur að stéttin sé ekki tilbúin í átök. Það má vel vera rétt. Það er líka rétt að almenna reglan er sú að mál er alltaf betra að leysa með samræðum en átökum.

En ef við ætlum að vera alveg heiðarleg við okkur sjálf þá er þessi niðurstaða ekki sönnun um neitt annað en hugleysi kennara og áhugaleysi sveitarfélaga.

Það hefur ekki unnist þumlungur á öllum viðræðunum hingað til. Það er sveitarfélögunum að kenna. Samninganefndir kennara hafa reynt ýmislegt til að finna flöt en sveitarfélögin eru ónýtur viðsemjandi. Svo ónýtur raunar að það er full ástæða til að efast um hæfni þeirra til að reka grunnskólana. Áhuga- og stefnuleysi, óstjórn og tímasóun hefur þegar valdið gríðarlegum skaða á skólakerfinu. Búið er að fæla burt fjöldann allan af kennurum, endurnýjun er ónýt, faglegt starf víða óásættanlegt og tæki og búnaður úreltur í stórum stíl. Sveitarfélögin hafa reynst ófær um að reka skólakerfi án þess að innviðir þess liggi undir skemmdum.

Þessu áhugaleysi hafa kennarar nú mætt með hugleysi.



Kennaraforystan lítur greinilega ekki á það sem sitt hlutverk að leiða uppreisn gegn þessu feyskna og fúna kyrrstöðuapparati og ætlar að „kaupa tíma“ til að gera það sama og gert hefur verið hingað til: að kjafta saman af tveim kögunarhólum sem eru hvor á sínum bakka ófærs stórfljóts.

Ég hef verið stærsti stuðningsmaður þess að sveitarfélög, kennarar og ríki taki höndum saman og rífi skólakerfið upp úr volæðinu og komi því á lappirnar. En ég er orðinn þess fullviss að málin fari ekki að lagast fyrr en fólk fer að gera kröfur. Foreldrar um að nám barna þeirra samræmist nútímalegum kennsluháttum og að búnaður sé boðlegur. Kennarar um að þeir geti starfað við framsækna skóla sem sinna starfi sínu vel.

Það mun ekkert vinnast ef áhugaleysið og hugleysið er látið ráða för.

Í ferðina nú lagði KÍ upp frá kolvitlausum stað. Byrjað var á að kanna hug kennara til starfsins. Niðurstöðurnar voru að miklum hluta tómur barlómur. Væll yfir því hve starfið er erfitt og ómögulegt og aðstæður mótdrægar. Uppgjafartal. Þessi málrómur varð til þess að kennarar grófu sér skotgrafir órafjarri öllu því sem hugsast gat sem málamiðlunarvöllur. Steindautt áhugaleysi viðsemjenda bættist svo ofan á þetta og afurðin var fyrirsjáanleg: andvana fædd dauðahrygla. Eitt ár enn af því ófrjóa þvaðri sem hingað til hefur skilað nákvæmlega engu.



Samningaviðræður kennara og sveitarfélaga eru ekki hefðbundið karp um kaup og kjör. Þær eru hluti af endurlífgunartilraunum á skólakerfi sem löngu er farið að stirðna og blána. Nú hafa menn ákveðið að hætta að hnoða og blása í eitt ár til að ræða hentugar aðferðir við endurlífgunina.

Fjögurra prósentna launahækkun nær ekki einu sinni verðbólgu síðustu 12 mánuði. Allur sigurinn er fólginn í því að í stað þess að halda áfram að rýrna ofurlítið munu launin standa í stað. Kostnaðurinn af þessari efnahagslegu nauðvörn er að skólakerfið verður áfram í frosti a.m.k. í eitt ár í viðbót. Engir saumar eða plástrar verða settir á líkamann sem liggur fyrir fótum okkar og blæðir út.

Mín skoðun er sú að við höfum ekki efni á heilu ári í viðbót af því sem við höfum verið að gera. Það er tímabært að setja sveitarfélögum stólinn fyrir dyrnar og kippa okkur kennurum upp úr doðanum, óttanum og hræðslunni. Annaðhvort fara menn að laga það sem þarf að laga – eða menn stíga til hliðar og leyfa þeim sem ekki eru lamaðir af ótta eða áhugaleysi að gera hlutina eins og þarf.

Næstkomandi miðvikudag mun vera haldið Skólaþing Epli.is í Norðlingaskóla. Aðalræðumaður er Abdul Cohan frá Essa skólanum í Englandi. Skólinn sá hefur á ógnarhraða farið úr því að vera dauðvona hræ í höndunum á vanhæfri sveitarstjórn í framsækinn og árangursríkan skóla á heimsmælikvarða. Þar greip ríkið inn í. Og víðar. Í Bretlandi eru skólar teknir af sveitarfélögum sem hvorki hafa metnað, vilja né getu til að reka þá. Oft er það eina breytingin. Sömu kennararnir fara skyndilega að ná árangri í störfum þrátt fyrir að hafa legið í doða árum saman.



Ég skora á skólamenn að skrá sig á Skólaþingið. Það er ókeypis fyrir þá.

Ég neita að trúa því að við kennarar séum svo lafhrædd lauf að við þorum almennt ekki einu sinni að setja nafn okkar við ákvarðanir okkar eins og formaðurinn gerir í bréfinu sínu. Ég neita líka að trúa því að við kennarar séum sáttir við þá stöðu sem uppi er. Ennfremur harðneita ég að trúa því að við höfum áhuga á því að framlengja þetta dauðastríð.

Einhver þarf að fara að setja einhverjum stólinn fyrir dyrnar. Ef ekki við, hver þá?

Ég segi fyrir mig. Ég hefði fyrr kosið átök en þetta smáskítti sem ég fæ borgað fyrir að líta undan meðan málin eru látin drabbast niður eitt ár í viðbót. Ég sætti mig hreinlega ekki við það að menn hafi haft mörg ár til að vinna í aðkallandi málum og útkoman er engin. Alls engin. Við þær aðstæður er ekkert heimskulegra en að byrja upp á nýtt á því sem engu hefur skilað.


Engin ummæli: